08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég held að það sé enginn ágreiningur milli mín og hv. fyrirspyrjanda um þessi mál almennt séð, enda stóðum við saman hér á sínum tíma að því að flytja frv. einmitt um þessi málefni. En málið er stærra en svo að það varði einvörðungu upphitun með olíu. Stefnan hlýtur og á að verða sú, þegar til lengri tíma er litið, að menn búi við svipuð kjör í þessum efnum hvar sem menn búa í landinu. Ef mikill munur er á til langframa hlýtur það að hafa áhrif á byggðina, hlýtur að raska byggðinni. Menn vilja frekar búa þar sem ódýrara er að hita upp híbýli, vegna þess að þetta er svo stór liður í allri framfærslu. Þetta er auðvitað mjög stórt mál og brýnt að ná pólitískri samstöðu hér á hv. Alþingi um þetta upphitunarmál allt, en ekki einvörðungu það sem varðar upphitun með olíu, sem ég hygg þó að við séum flestir hverjir sammála um að reyna að útrýma, vegna þeirra óvissu og þeirrar áhættu, sem bundin er við olíuverðið, og raunar öryggið í þeim efnum einnig.

Ég mun bíða eftir því, að nefndin, sem ég skipaði, skili af sér og geri tillögur í þessum efnum. Það er ástæðan fyrir því, að ég hef hinkrað við í þessum málum. Ég var þeirrar skoðunar í sumar, þegar ákvörðun var tekin um þriðja ársfjórðunginn, að hækka bæri svolítið olíustyrkinn, en gerði það ekki með tilliti til þess, að mér þótti rétt að fram færi endurskoðun á lögunum, sem sett voru fyrir tæpum tveimur árum, til þess að átta sig betur á því, hvað skynsamlegt væri að gera í þessum efnum, en alls ekki til hins, að komast hjá því að greiða það fjármagn, sem er í fjárlögum til þeirra sem á því þurfa að halda og þeim er ætlað. Ég vonast til þess að hv. þm. verði — ja, ég veit ekki hvort ég á að segja: fljótari til að skila af sér í nefndinni en að gera þessa fsp. hér á Alþingi.