08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Nú gerist skammt stórra högga milli, er ég heyrði það af vörum hv. þm. Karvels Pálmasonar nú að synjað hafi verið þverlega fyrir af hálfu ríkisstj. að jafna heldur kjör fólksins sem býr á köldu svæðunum. Hér gæti verið um að ræða framhald umr. sem fram fóru í Ed. í gær. Það má vel vera, að stílbreytingin, sem orðið hefur á umr. frá hv. Ed. ofan í Sþ., sé eðlileg. En áherslumunur var alveg greinilegur á ræðu hæstv. viðskrh. frá Ed. og hingað ofan í Sþ.

Í Ed. sagði hæstv. ráðh. í gær að hann væri mjög svo því fylgjandi að styrkurinn yrði hækkaður, hann hefði það til íhugunar og það væri ekki öll nótt úti enn, það væri enn tími til ársloka, manni skildist að þau væru ekki fyrr en um mánaðamótin, og þá hafði hann ekki uppi neinn ugg um það, að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson gerði tilraunir til þess að bregða fæti fyrir þetta mál í nefndinni, víðs fjarri. En hitt þykir mér augljóst mál, að ef svo á að halda fram sem horfir nú í umr. um þetta mál, þá sé miklu betra fyrir hvaða ráðh. sem er í núv. hæstv. ríkisstj. að taka afdráttarlausa afstöðu til þessa máls, því að starfstíminn er ekki til ársloka, eins og mér skilst að sumir hæstv. allra mestu ráðamenn ætli. Ég er þeirrar skoðunar, að við eigum ekki nema eina níu daga eftir af starfstíma til þess að fjalla um þetta mál.