08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hæstv ráðh. sagði að ég hefði hér blandað saman tveimur málum og það mætti ekki gera að áliti hæstv. ríkisstj. Samkv. kröfu okkar Vestfirðinga var ekki um það að ræða að ríkisstj. ætti bara að gera þetta fyrir okkur. Hverjum dettur það í hug, ef það hefði orðið úrbót í gegnum slíkt samkomulag, að það hefði ekki gilt fyrir alla sem eins er ástatt um? En það er kannske ekki sama hvaðan krafan kemur fram með þessum hætti. Ég veit ekki betur en hæstv. ríkisstj. — án þess að ég sé á nokkurn hátt að ásaka hana fyrir það hafi leyst einmitt hliðstætt mál í kjarasamningum á s. l. ári hér á Suðurlandi. Hvar var þessi afstaða hæstv. ríkisstj. og hæstv. viðskrh. þá? Þá var einmitt veitt fjármagn til uppbyggingar á fjarvarmaveitum með upphitun á Suðurlandi, það þarf ekki að tiltaka það nánar. Ég er ekki með þessu að deila á nokkurn mann í þeim efnum, en þá var því blandað saman. Af hverju þá, en ekki nú? Staðreyndin er sú, að stjórnvöld hafa þverskallast það lengi við þessu máli, að það verður að fara að beita öðrum vinnubrögðum og þrýstingi heldur en í gegnum Alþingi, það er augljóst mál. Og það verður gert, hæstv. ráðh., þannig að það er alveg eins gott fyrir hæstv. ríkissjóð að fara að átta sig á því, að frá þessu verður ekki hlaupið.

Það er annað sem ég vil aðeins koma að. Hæstv. ráðh. vitnaði mikið í endurskoðunarnefndina. Á ekki að borga olíustyrk fyrir þetta ár eftir gildandi lögum og með því fjármagni sem til þess er aflað? Það liggja núna 14 eða 16 millj. inni sem ætti að greiða út í olíustyrkjum, en hefur verið fryst. Það var vikið að því hér áðan. 50 millj. voru ætlaðar á fjárlögum ársins í ár. Eftir niðurskurð stóðu eftir, að mig minnir, 46 mill j. En það er hámark, að það hafi verið greiddar út 30 millj. á árinu. Þetta eru upplýsingar frá viðskrn., starfsmönnum hæstv. ráðh.: 14 millj. frystar, ekki borgaðar fólkinu sem átti að fá þær. En óyggjandi vilji, segir hæstv. ráðh. eigi að síður, er hjá honum og hæstv. ríkisstj. að gera sitt besta í þessum efnum. Það, sem stendur á til lagfæringar í þessum efnum, er að hæstv. ríkisstj. er þversum í málinu og því verður að breyta, — og er ekki fyrsta málið, segir hæstv. forseti Nd., sem hæstv. ríkisstj. er þversum í. Það er rétt. En þetta er kannske með því stærsta. Hér er spurningin þessi: Vilja menn jafna lífskjörin með þessum hætti eða ekki? Hæstv. ríkisstj. hefur neitað því með hæstv. viðskrh. og forsrh. í broddi fylkingar og menn sjá nú hvað gerist þegar þeir tveir leggja saman. Þá er algert nei. En ég get upplýst hæstv. ráðh. um það, að frá þessu máli, eins og það stendur í dag, verður ekki hlaupið án þess að hæstv. ríkisstj. fái þá að finna fyrir því.