08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Nú eru tæplega tvær vikur til hefðbundins jólaleyfis. Enn hefur ríkisstj. ekki haft samband við stjórnarandstöðu um hvernig þinghaldi skuli háttað til jóla, hvaða mál ríkisstj. leggi áherslu á að fá afgreidd fyrir jól, hvernig jólaleyfi skuli háttað og hvenær þm. komi saman til funda á nýja árinu. Og með því að ríkisstj. hefur ekki kunngert að hún hyggist bera fram frv. um frestun jólanna að þessu sinni, þá hef ég kvatt mér hljóðs utan dagskrár og beini þess vegna öllum þessum spurningum til hæstv. forsrh. eða staðgengils hans og eða annarra ráðherra. Ég sé að þeir eru allir farnir nema hæstv. landbrh., en ég sendi þeim öllum orðsendingu þessa efnis inn á ríkisstjórnarfund fyrir hádegi í dag.

Tilefni þessara fsp. minna er eðlilegt, þar sem venjulega er löngu fyrr búið að hafa samráð milli flokka um störf Alþingis, en nú hefur enn ekki örlað á slíku samráði. Þessu til viðbótar er til þess að taka, að um helgina voru viðtöl bæði í sjónvarpi og hljóðvarpi við formann og nefndarmann í svokallaðri efnahagsmálanefnd ríkisstj., þá Jón Orm Halldórsson aðstoðarmann forsrh. og hv. þm. Guðmund G. Þórarinsson, en auk þeirra á sæti í þessari nefnd hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Á þessum tveim nefndarmönnum, sem viðtal var haft við í sjónvarpi og hljóðvarpi, var að skilja að von væri á efnahagsaðgerðum sem þyrftu lagastoð, vegna þess að verðbólgan færi vaxandi og voði væri á ferðum. Þessi viðtöl gefa einnig tilefni til ýmissa fyrirspurna.

Hæstv. forsrh. og ýmsir ráðherrar hafa lýst yfir stórfenglegum árangri efnahagsaðgerða frá síðustu áramótum og að verðbólgan væri á niðurleið í krafti þeirra. Þeir hafa sagt að allt væri í himnalagi, sbr. stefnuræðu forsrh. fyrir einum og hálfum mánuði, en stefnuræðu forsrh. yfirfara allir aðrir ráðherrar og standa því ábyrgir að þeirri ræðu eins og kunnugt er. Hvernig fær þetta samræmst staðhæfingum efnahagsnefndarmanna, að verðbólgan sé á uppleið og þörf sé nú nýrra aðgerða, einum og hálfum mánuði eftir að allt var í lagi? Ekki getur ástæðan verið nýir kjarasamningar, því að forsrh. og aðrir ráðh. hafa dásamað þá og talið þá ábyrga kjarasamninga og spor í rétta átt. Því er spurt: Er von efnahagsaðgerða sem krefjast nýrrar löggjafar? Ef svo er, hvenær er von þess lagafrv. sem nauðsynlegt er talið að fram komi?

Um þetta er spurt nú til þess að vara hæstv. ríkisstj. við að sams konar vinnubrögð verða ekki þoluð nú og beitt var um síðustu áramót, þegar þingi var frestað og það sent heim til þess að ríkisstj. afgreiddi málin með brbl.

Alþingi og alþm. er freklega misboðið ef varpa á efnahagsaðgerðum á borð þriggja manna og senda þingið heim. Athygli vekur raunar að fækkað hefur verið um helming í efnahagsmálanefndinni frægu, sem ríkisstj. mun hafa sett fyrir líklega meira en 11/2 ári. Varaformaður Framsfl., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, formaður Framkvæmdastofnunar, hv. þm. Eggert Haukdal, og formaður fjvn., hv. þm. Geir Gunnarsson, virðast vera settir út úr nefndinni. Hvers eiga þeir að gjalda? Þeir hljóta þó að vera taldir skynsamari helmingur upprunalegu efnahagsnefndarinnar. Með slíkum samanburði er að vísu ekki mikið sagt.

En hvers konar nefnd er þetta? Ekki er þetta undirnefnd ríkisstj., nokkurs konar starfsnefnd? Þá mundi hún gefa skýrslu sína á ríkisstjórnarfundi. En í stað þess eiga nefndarmenn viðtöl í fjölmiðlum, berja sér á brjóst og klappa sér á kollinn þótt holrúm sé inni fyrir og ekkert á viðtölum að græða fyrir almenning. En með þessu á sjálfsagt að yfirlögðu ráði að færa þjóðmálaumræður út af Alþingi og gera tilraun til að drepa þjóðmálaumræðum á dreif. Með þessum hætti sýnir hæstv. núv. ríkisstj. Alþingi lítilsvirðingu. Ríkisstj., sem að eigin mati var mynduð til að bjarga sæmd Alþingis, er hrædd við Alþingi, sniðgengur Alþingi og fer á bak við Alþingi. Fáar eða engar ríkisstjórnir hafa þannig afhjúpað greinilegar feluleik sinn og undanbrögð sem til þess eru fallin að rýra þingræði í landinu og virðingu almennings í landinu fyrir löggjafarsamkomu sinni sem er hornsteinn lýðræðisins.

Hliðstæða sögu er að segja af meðferð iðnrh. á orkumálum. Umr. um fsp. um virkjun Blöndu eru stöðvaðar hér á Alþingi þótt iðnrh. af alkunnum hégómaskap og auglýsingaskrumi hafi pantað sjónvarpið niður í Alþingi til að meðtaka boðskap sinn, en sent sjónvarpsmenn að nokkrum stundum liðnum aftur erindislausa til baka. Innan sviga má spyrja: Hvað kostaði það? Iðnrh. áttaði sig nefnilega á því, að hann þurfti ekki að deila sjónvarpsskerminum með öðrum á Alþingi, heldur gat hann einn sýnt sig á skerminum með því að boða til blaðamannafundar. En það er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að þjóðmálaumræðan og ákvörðunarvaldið er fært úr höndum Alþingis í hendur vikadrengja framkvæmdavaldsins, þeirrar ríkisstj. sem misboðið hefur virðingu Alþingis meira en nokkur önnur ríkisstj.

Þess vegna segi ég nú þegar: Þm. Sjálfstfl. una því ekki að ríkisstj. láti undir höfuð leggjast að afgreiða mál til Alþingis til þess svo að senda alþm. heim og klambra síðan saman brbl.ríkisstj. ekki tilbúin að leggja mál sín fyrir Alþingi fyrir jól eru þm. Sjálfstfl. tilbúnir að sitja þingfundi milli jóla og nýárs og allan janúarmánuð og áfram ef þörf krefur, svo lengi sem nauðsyn er lagaheimilda til efnahagsaðgerða til að tryggja rekstur atvinnuveganna, afstýra atvinnuleysi og koma í veg fyrir verðbólguvöxt, en allt þetta þóttist núv. ríkisstj. hafa gert með efnahagsráðstöfununum í byrjun ársins og ítrekaði til skamms tíma að allt væri í lagi þótt reynslan segi allt annað.

Herra forseti. Ég hef hér varpað fram fsp. til hæstv. forsrh. eða staðgengils hans og/eða annarra ráðh., sem ég vona að hæstv. forseta sé jafnmikið áhugamál og mér og öðrum þm. að svarað sé skýrt og skorinort, til þess að gæta megi sóma Alþingis og eðlilegrar málsmeðferðar er leiði til farsælla ákvarðana.