08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Um hádegisbil í dag fékk ég skilaboð á ríkisstjórnarfund þess efnis, að hv. 1. þm. Reykv. óskaði eftir að leggja fram fyrirspurnir utan dagskrár á fundi hér í dag um tiltekin málefni. Ég hafði við hann símasamband og kynnti honum þau sjónarmið mín, að ég teldi eðlilegt að þessar fsp. væru ræddar að forsrh. sjálfum viðstöddum, en hv. þm. taldi að ekki væri unnt að verða við því, að þessum málum væri frestað. Þær fsp., sem hér eru kynntar á blaði til mín sem staðgengils forsrh., eru svo hljóðandi:

„1. Hverjar eru fyrirætlanir ríkisstj. er snerta þinghaldið fyrir jól eða jólaleyfi?

2. Væntanlegar efnahagsaðgerðir, sem tilkynntar hafa verið í viðtölum við efnahagsmálanefndarmenn?“

Varðandi fyrri liðinn vil ég taka það fram, að ríkisstj. hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um hvenær jólaleyfi Alþingis hefst. Hún telur æskilegt að það geti orðið fyrir helgina 19.–20. des., en ella að loknum fundum á mánudag 21. des. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um samkomudag Alþingis að loknu jólaleyfi. Ég tel eðlilegt að um þessi efni verði rætt við fulltrúa þingflokkanna og forseta Alþingis í þeim tilgangi að leita eftir samkomulagi þar um. Jafnframt tel ég eðlilegt og nauðsynlegt að ríkisstj. leggi fram lista yfir þau mál sem hún óskar að koma í gegnum Alþingi áður en jólaleyfi hefst. Ég mun því koma því áfram til forsrh. að það verði gert, en hans er von á fimmtudaginn kemur.

Í öðru lagi vil ég gera aths. við orðalag þeirrar fsp. sem ég las hér í 2. tölul. Ég veit ekki til þess, að neinar væntanlegar efnahagsaðgerðir hafi verið tilkynntar í viðtölum við efnahagsmálanefndarmenn, eins og fram kemur í fsp. sem mér var send, enda tæpast þeirra hlutverk að gefa slíkar tilkynningar. Um þennan lið fsp. vil ég taka það fram efnislega, að ríkisstj. fylgist náið með framvindu efnahagsmála og á hennar vegum er unnið að athugunum á hinum ýmsu þáttum efnahagslífsins m. a. af efnahagsmálanefnd. Á þessu stigi er á hinn bóginn ekki tímabært að gefa neinar yfirlýsingar um hugsanlegar efnahagsaðgerðir á vegum ríkisstj., enda öll þau mál á umræðustigi. Ríkisstj. mun að sjálfsögðu gera Alþingi og þjóðinni grein fyrir tillögum sínum og hugsanlegum aðgerðum í efnahagsmálum á þeim tíma sem þær kunna að liggja fyrir.

Efnislegar umr. um efnahagsmál eða köpuryrði hv. 1. þm. Reykv. í garð efnahagsnefndarmanna læt ég liggja á milli hluta að þessu sinni.