08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er ósköp eðlilegt að þessi mál séu tekin til umr. á Alþingi og hefði fyrr mátt vera, því að svo mörg tilefni hafa stjórnarsinnar gefið með ummælum sínum á opinberum vettvangi, og ég vil taka í því sambandi fram: ekki aðeins þeir tveir efnahagsmálanefndarmenn hæstv. ríkisstj., sem nýlega hafa rætt þessi mál við fjölmiðla, heldur jafnframt ráðh. í sjálfri ríkisstj.

Það mál, sem hér er til umr., snýst um tvennt: Annars vegar um efnahagsaðgerðir og tillögur hæstv. ríkisstj. og hins vegar um þinghaldið til jóla. Um s. l. áramót — eftir næstum því heils árs ósamkomulag og aðgerðaleysi — greip hæstv. ríkisstj. til mjög gamalkunnugra ráða. Hún framkallaði hratt gengissig og gengislækkun á íslensku krónunni í lok ársins. Jafnframt tilkynnti hún um 7% kauplækkun 1. mars og enn fremur að beitt yrði sérstöku verðlagsaðhaldi eða verðstöðvun framan af árinu. Allt voru þetta mjög gamalkunnug viðbrögð, sem aðrar ríkisstjórnir, þ. á m. ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar og Framsfl., höfðu áður beitt. Ekkert af þessu var nýtt. Við Alþfl.- menn sögðum, eftir að Alþingi kom saman og þessar ráðstafanir höfðu verið lagðar fyrir það, að miðað við þá reynslu, sem menn hafa af slíkum ráðstöfunum sem iðulega hefur verið gripið til hér á landi, gætu menn gert ráð fyrir að þær hefðu einhver áhrif á verðbólgumælingar ríkisstj. fram eftir þessu ári, hins vegar væri þess ekki að vænta, að ráðstafanirnar um s. l. áramót, sem eru dæmigerðar bráðabirgðaráðstafanir dæmigerðra ríkisstjórna á Íslandi, mundu hafa nein veruleg áhrif. Nú liggur fyrir dómur reynslunnar. Að vísu átti ríkisstj. því að fagna, að hagstæð þróun í utanríkisviðskiptum kom óvænt til liðsinnis við hana og okkur Íslendinga alla eftir að fyrstu mánuðir ársins voru liðnir, og þessar aðstæður hjálpuðu hæstv. ríkisstj. við að halda jafnvægi á s. l. sumri en lengur ekki. Nú eru þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. gerði um s. l. áramót, gersamlega brostnar og það sem meira er: raunar nokkuð langt liðið frá því að þær þrutu. Nú stöndum við í nákvæmlega sömu sporum og við stóðum á sama árstíma í fyrra. Þá er enn hafinn af hálfu hæstv. ríkisstj. nákvæmlega sami leikurinn, verið að ræða út og suður um efnahagsnefndir, um ráðherranefndir, um undirnefndir og guð má vita hvað, sem eru að reyna að leysa málið.

Allt hafa þetta reynst vera dæmigerð bráðabirgðaúrræði og bráðabirgðaviðbrögð fjölmargra íslenskra ríkisstjórna. Í þeim er ekkert nýtt og það hefur allt ræst sem við Alþfl.-menn sögðum á s. l. vetri, að nú eftir þetta stöndum við í sömu sporum og við stóðum, hv. alþm., hér á Alþingi fyrir 12 mánuðum. Horfurnar eru svipaðar fram undan og staða hæstv. ríkisstj. svipuð og þá.

Ég ætla engum getum að leiða að frekari framgangi þessara mála. Ég tel að hæstv. ríkisstj. sé allra ríkisstj. ólíklegust til að grípa til annarra ráða en einhverra slíkra bráðabirgðaráðstafana, þeirra einu ráðstafana sem hún hefur gripið til á valdaferli sínum og hafa útvegað henni starfsfrið, ef starfsfrið má kalla, um 3–6 mánuði í senn. Hins vegar vek ég aðeins athygli á því, hversu undarleg þau vinnubrögð hæstv. ríkisstj. eru, að menn skuli vera að frétta það utan að sér, ekki aðeins í útvarpi og öðrum fjölmiðlum, heldur t. d. af fundum ýmissa hagsmunasamtaka úti um borg og bý, að ábyrgir menn í ríkisstj. skuli þar vera að gefa út alls konar yfirlýsingar um aðgerðir, sem væntanlegar séu, og koma þannig gersamlega í þversögn við samstarfsfélaga sína í hæstv. ríkisstj. Síðast mun það t. d. hafa gerst, að formaður Framsfl., hæstv. sjútvrh., mun hafa flutt ræðu á fundi eða ráðstefnu sem Samband ísl. samvinnufélaga hélt með kaupfélagsstjórum víðs vegar að af landinu. Fréttabréf var gefið út um þann fund og þar var frá því skýrt, að hæstv. ráðh. hefði lýst yfir með margra vikna fyrirvara, að fiskverðshækkun um n. k. áramót verði 14% og henni muni síðan fylgja tilsvarandi ráðstafanir til breytingar á íslenskri krónu o. s. frv., o. s. frv. Eru það nú orðin harla einkennileg viðhorf, þegar farið er að ræða slíkar ráðstafanir opinberlega á fundum kaupfélagsstjóra víðs vegar að af landinu og síðan gefa út tilkynningar af þessu tagi í fréttabréfum Sambands ísl. samvinnufélaga. Það er ekki vonum fyrr þó einhver hv. þm. finni hjá sér hvatningu til þess að spyrjast nokkru nánar fyrir um ætlanir hæstv. ríkisstj., þó svo mér komi ekki til hugar — ef þær verða einhverjar sem ég ekkert um veit — að þær verði með einhverjum öðrum hætti en þær hafa orðið til þessa hjá þessari hæstv. ríkisstj.

Hitt er svo annað mál, að ríkisstj. og einstakir ráðh. hafa gefið út ýmsar yfirlýsingar frá því að þing kom saman um þau mál sem ríkisstj. og ráðherrarnir töldu nauðsynlegt að afgreiða áður en Alþingi færi í jólaleyfi. Auk fjárlaga og lánsfjárlaga hefur t. d. í því sambandi verið nefnd þáltill. um skipan orkumála, eða réttara sagt röðun orkuframkvæmda, og mér er ekki kunnugt um að sú þáltill. sé komin fram.

Ég vek athygli hæstv. forseta á því, að forsetar Alþingis hafa þegar tilkynnt að þeir stefni að því að þinghaldi verði lokið 18. þ. m. Það þýðir að 6–7 starfsdagar Alþingis eru nú eftir. Þegar er ljóst að af þeim 6 eða 7 dögum munu a. m. k. þrír fullir vinnudagar Alþingis aðeins fara í það að afgreiða fjárlög og lánsfjárlög, verði þau þá afgreidd. Það eru því ekki eftir nema fjórir vinnudagar til annars.

Hæstv. ríkisstj. hefur ekkert tal haft af okkur, formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar, né nokkrum stjórnarandstöðuþm. um vinnubrögðin þessa fjóra starfsdaga sem ríkisstj. hefur til ráðstöfunar til þess að afgreiða önnur mál. Er ekki auðvelt um vik fyrir hæstv. ríkisstj. að gera það, því að ég vek athygli á því að forsrh. ríkisstj. er fjarverandi. Staðgengill hans sem venjulega er, hæstv. dómsmrh., er einnig fjarverandi. Formaður Framsfl., öflugasta stjórnarflokksins, hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson, hefur vikið af þingi fyrir örfáum dögum, tekið inn varamann og er ekki væntanlegur, að því er ég best veit, fyrr en einhvern tíma síðla næstu viku, skyldi hann koma þá. Og ekki aðeins eru þessir hæstv. ráðh. og forvígismenn ríkisstj. og stjórnarflokkanna fjarverandi þannig að ekki næst til þeirra til þess að ræða við þá um þinghaldið, heldur eru þingflokkaformenn beggja stjórnarflokkanna einnig í burtu. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., er ekki í landinu og mér er ekki kunnugt um hvenær hann kemur til landsins. Hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., er einnig fjarverandi og mér er ekki kunnugt um hvenær hann kemur til landsins, en mér er sagt að hann sé væntanlegur upp úr helgi. M. ö. o.: það er engar ráðstafanir hægt að gera, hvorki af hálfu ríkisstj., af hálfu forseta Alþingis né af hálfu þeirra stuðningsmanna ríkisstj. sem eftir sitja á Alþingi Íslendinga í dag, til þess að reyna að ná einhverju samkomulagi um þinghaldið til jóla og samkomudag þingsins að jólum loknum. Mér er ekki kunnugt um að það verði hægt að vinna það verk fyrr en undir næstu helgi, þegar eftir lifa af starfstíma Alþingis tveir dagar eða svo, fyrir utan þann tíma sem menn ætla að taka til þess að afgreiða fjárlög og lánsfjáráætlun.

Herra forseti. Þetta er að sjálfsögðu ekki viðunandi og þá því síður þegar hæstv. ríkisstj., a. m. k. einstakir ráðherrar láta í það skína að nauðsynlegt sé að afgreiða ekki aðeins mál, sem þeir hafa þegar skýrt frá opinberlega hver verði, heldur e. t. v. fjölmargar aðrar mikilvægar aðgerðir til viðbótar. Auðvitað er þetta ekki viðunandi ástand hér í þinginu, enda hafa fréttamenn bæði útvarps og sjónvarps vakið sérstaka athygli á því afbrigðilega ástandi sem nú ríkir í þingsölunum.

Ég vil aðeins að lokum leyfa mér að benda mönnum á eitt atriði varðandi þann þátt þinghaldsins sem hlýtur að vekja menn til nokkurrar umhugsunar og styður mjög nauðsyn þess, að menn reyni að ná fljótlega samkomulagi ekki aðeins um þinghaldið til jóla, heldur einnig um samkomudag Alþingis að jólaleyfi loknu.

Eins og öllum er ljóst er fyrirsjáanlegt að a. m. k. einar kosningar verða á komandi vori, þ. e. sveitarstjórnarkosningar. Þær kosningar eiga fram að fara á síðasta helgidegi í maímánuði á undan uppstigningardegi eða í kringum 20.–23. dag maímánaðar, ég man ekki nákvæmlega hvenær maímánaðar það er, en það er um þetta leyti. Menn sjá auðvitað í hendi sér að ekki er unnt að halda þinghaldi áfram við þær aðstæður jafnlengi og menn gera venjulega á vorin eða nokkuð fram yfir mánaðamótin apríl — maí. Það er ekki unnt að halda þinghaldi áfram til 5.—10. maí eins og menn gera iðulega á Alþingi, heldur verða menn að miða við það að láta þingi lokið ekki síðar en einum mánuði fyrir sveitarstjórnarkosningar, og raunar mjög hæpið að hægt sé að halda þingi svo lengi áfram. Það þýðir að Alþingi hefur nú til ráðstöfunar miklu skemmri starfstíma en vani er við þessar aðstæður. Því er, herra forseti, alveg bráðnauðsynlegt að menn reyni að koma sér saman um að nýta þann tíma, sem Alþingi hefur til stefnu, m. a. með þeim hætti að stytta mjög það frí, sem Alþingi tekur sér kringum nýárið og jólin, og undirbúa þm. undir að þurfa að koma fyrr saman á nýju ári en vanalegt er, ekki bara til þess að fjalla um einhverjar till. frá ríkisstj., sem enginn veit enn hvort koma fram né hverjar eru, heldur ekki síður til þess að Alþingi geti lokið hefðbundnum viðfangsefnum sínum á tilsettum tíma, sem hlýtur að verða mun skemmri á þessu þingi vegna í hönd farandi sveitarstjórnarkosninga en vani er.