08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Nú eru allar líkur á því, að fram undan séu alllangir fundir á Alþingi, og hæstv. forseti hefur m. a. boðað fund í kvöld. Ég vil í því sambandi leyfa mér að vekja athygli hæstv. forseta á því, að ráðherrar Alþb. eru nánast hættir að taka þátt í þingstörfum og sitja þingfundi hér á Alþingi, nema því aðeins að um sé að ræða mál sem varða þá sjálfa. Séu slík mál ekki á dagskrá hverfa þeir af þingfundi þegar í stað og hann hefur verið settur. Séu slík mál á dagskrá hverfa þeir af þingfundi og úr húsinu þegar umr. um þessi mál er lokið. Einnig er það orðið í augu stingandi, að þm. Alþb. sitja mjög illa þingfundi og eru yfirleitt ekki viðstaddir umr. Ég vil leyfa mér að vekja athygli hæstv. forseta á því, að þessi afstaða Alþb. getur þýtt að hv. Alþingi komi ekki fram afgreiðslu mála þar eð stjórnarsinnar og hæstv. ráð. gæta ekki þingskyldu sinnar. Ég vil einnig benda hæstv. forseta á að hinar miklu fjarvistir stjórnarsinna og utanlandsferðir þeirra gera það að verkum að nefndir þingsins, t. d. í hv. Ed., sem hæstv. forsrh. á sæti í, eru nánast óstarfhæfar, ef um mikilvæg ágreiningsmál er þar að ræða, á meðan þessir hv. þm. eru fjarverandi. Ég vil eindregið skora á hæstv. forseta, að hann ásamt deildarforsetum geri ráðstafanir til að þessir hæstv. ráðherrar sinni þingskyldum sínum, eins og okkur öðrum þm. er ætlað að gera, svo að hægt sé þó að ljúka þeim málum sem ríkisstj. kann að koma sér saman um að ljúka þurfi.

Í annan stað vil ég taka undir það, sem menn hafa hér sagt, að það er ekki sanngjarnt að beina spurningum um væntanlegar efnahagsaðgerðir, ef einhverjar slíkar eru á döfinni, til hæstv. landbrh. eða manna úr Sjálfstfl. sem eiga aðild að ríkisstj., því ef marka má blaðafréttir og frásagnir af þeim umr., sem eiga sér stað í hæstv. ríkisstj., eru hæstv. landbrh. og flokksbræður hans í ríkisstj. varla aðilar að þeim málum. Því er ekki sanngjarnt að beina spurningum til hæstv. ráðh. og flokksbræðra hans um þau mál, en erfitt um vik að beina spurningum til annarra þar sem formaður þingflokks stærsta stjórnarflokksins er erlendis og forustumenn hins stjórnarflokksins mæta ekki á þingfundum. Vil ég taka undir með mönnum um að ekki er sanngjarnt að ætlast til þess, að hæstv. landbrh. upplýsi Alþingi um þessi mál.

Þá vil ég enn fremur vekja athygli á því í lokin, að hv. þm. Geir Hallgrímsson upplýsir okkur alþm. um að flokkur hans, Sjálfstfl., hafi tekið þá afstöðu að þm. Sjálfstfl muni ekki greiða atkv. tillögu um frestun á fundum Alþingis ef ekki liggi fyrir að ekki sé ætlunin hjá hæstv. ríkisstj. að endurtaka þau vinnubrögð um setningu brbl. í jólaleyfi sem ríkisstj. viðhafði í fyrra. Þar með liggur fyrir afstaða eins flokkanna í þinginu til þessa máls. Nú er alveg ljóst, að þessi afstaða nær ekki til þeirra þm. í Sjálfstfl. sem jafnframt eru ráðherrar í hæstv. ríkisstj. Spurningin er þá sú, til hvaða þm. Sjálfstfl. þessi afstaða tekur. Tveir aðrir af þm. flokksins hafa, a. m. k. í sumum málum, verið stuðningsmenn ríkisstj., hv. þm. Eggert Haukdal og hv. þm. Albert Guðmundsson. Við alþm. hljótum að vilja fá það upplýst frá formanni Sjálfstfl. eða formanni þingflokks Sjálfstfl., hvort uppi er sama á teningnum og oft áður, að þessir tveir þm. telji sig þess umkomna að taka aðra afstöðu en kynnt hefur verið sem afstaða flokks þeirra.