08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

45. mál, skattafrádráttur

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Okkur þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu er löngu ljóst að efnahagsstefna ríkisstj. er byggð á sandi og blekkingum, og æ fleiri stuðningsmönnum ríkisstj. er þetta einnig ljóst, jafnvel þeim sem eru komnir í salinn í kvöld, og reyndar hlýtur sumum hæstv. ráðh. sjálfum að vera þetta ljóst, þótt þeir komi ekki hingað á þennan fund til að viðurkenna það, enda hafa þeir ekki manndóm í sér til að viðurkenna það þótt til þess þurfi ekki annað en vilja. Í stað þess, eins og kom fram í umr. síðdegis í dag, hefur aðstoðarmaður forsrh. verið sendur fram í fjölmiðlum til að viðurkenna hrun efnahagsstefnu ríkisstj. og viðurkenna þá staðreynd um leið, að niðurtalningin er orðin að upptalningu. Nýja krónan rýrnar með hverjum degi. Talið er af fróðum mönnum að a. m. k. 3–5 verðbólgustig eða jafngildi þeirra séu fljótandi ofan á þeirri óðaverðbólgu sem mælist og dagprísar eru á fjölda vörutegunda.

Fjölmenn launþegasamtök telja sig á stjórnartímabilinu frá 1978 til dagsins í dag, en ég tel þetta vera samfellt stjórnartímabil vinstri flokka, búa við um 20% lakari kaupmátt en þá, og er þó miðað við úreltar neysluvenjur. Fyrir þessu virðast opinberar stofnanir, eins og verðlagsyfirvöld og Þjóðhagsstofnun, loka augum og eyrum og því miður oft tala eins og ráðh. óska. Ein af fáum stofnunum ríkisins, sem allur landslýður treystir, Hagstofa Íslands, er of bundin skylduverkefnum til þess að hægt sé að leita þar ásjár um hlutlausar og áreiðanlegar upplýsingar sem annars staðar er að unnið. Við þessar aðstæður, sem er aðeins lauslega lýst með þessum orðum mínum, er að sjálfsögðu tæplega við að búast að þm. stjórnarandstöðu séu ýkjafúsir til að leggja sig fram um að kanna leiðir sem leysa megi hluta þeirra vandamála sem alls staðar blasa við. Þeir vita að ráðh. og þm. stjórnarinnar telja það höfuðskyldu sína að hafna öllu sem frá stjórnarandstöðunni kemur, sérstaklega þó ef það er eyrnamerkt flokkssamþykkt viðkomandi þingmanna.

Auðvitað láta þm. ekki þetta hræða sig og við flm. þessarar þáltill. viljum leggja fram nokkuð til þess að máske geti orðið ákveðin umræða um vandamál sem blasa við á vinnumarkaðinum ekki aðeins núna, heldur þó enn frekar um næstu áramót, og er það kannske ekki mikill vandi á við þann sem menn sjá fyrir sér þegar kemur fram á vorið og núverandi bráðabirgðasamningar Alþýðusambands Íslands og annarra launþegasamtaka við samtök vinnuveitenda eru gengnir úr gildi.

Við flm. viljum með flutningi þessarar þáltill. benda á, að það sé meira en tímabært að kanna nýjar leiðir sem styrkja stöðu ýmissa hópa með jákvæðum aðgerðum ríkisvaldsins — starfshópa sem m. a. eru að lenda í vinnudeilu, en hafa ekki möguleika á að rétta sinn hlut eftir venjulegum samningaleiðum, m. a. vegna samanburðarkrafna annarra hópa. Úrlausn eftir þeirri leið, sem við bendum á með þessum þáltill. -flutningi, hefur m. a. það í för með sér að okkar mati, að félagslegt réttlæti mun aukast og kostnaður ríkisins kemur ekki fram fyrr en eftir á, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða af þessu.

Við vitum og kunn er sú staðreynd og hefur verið um nokkuð langan tíma, að það virðist vanta 15–20% í að náist saman það sem vinnuveitendur telja sig þurfa til að geta rekið fyrirtæki sín — og hér er það almennt talað — og það sem launþegar telja sig vanta upp á til að halda þeim kaupmætti sem þeir telja sér nauðsynlegt að hafa og hafa náð fram í samningum áður en farið var markvisst að skerða þann kaupmátt af stjórnvöldum.

Við erum með þessari till. að benda á hugsanlega leið til lausnar á einum hluta vandamála sem Alþingi og ríkisstj. hafa áratug eftir áratug verið að glíma við. Það væri að vísu full ástæða til að taka fleiri þætti inn í en þá sem við bendum hér á, og ég hefði satt að segja búist við að á þessu hausti hefðu orðið jákvæðari umræður um þessi mál af hendi sumra þm. stjórnarliðsins, sem hafa öðrum fremur staðið í baráttu fyrir sína félagsmenn á vinnumarkaðinum, en því miður er því ekki að heilsa.

Það hefur t. d. nýlega verið bent á að frá því að núverandi stjórnarsamfylking komst til valda 1978 hafi lánskjaravísitalan ekki verið skert þrátt fyrir endurtekin kauprán og valdbeitingu til að breyta gerðum kjarasamningum á þessu tímabili, sem hefur haft það í för með sér, að kaup hefur ekki haldist í hendur við skráð verðlag, hvað þá lánskjaravísitölu. Hefði mátt búast við að þm. stjórnarliðsins, a. m. k. sumir hverjir, hefðu beitt sér fyrir því, að t. d. ríkisbankarnir fetuðu í fótspor SAL, lífeyrissjóðanna almennu, sem hafa skilað nokkru af hagnaði sínum til lántakenda sem hafa búið við þessi lánskjör.

Það hefur ekkert verið unnið að því á þessu sama stjórnartímabili að flytja fjármuni og um leið framkvæmdagetu og vald heim í sveitarfélögin, heldur hefur þvert á móti verið stefnt æ hraðar og markvissar í miðstýringarátt. Það eru fleiri en við sjálfstæðismenn sem hafa bent á nauðsyn sjálfsábyrgðar í meðferð skatttekna í héruðunum sjálfum, auk þess sem flestir menn viðurkenna að þar er fyrir hendi hin staðlæga þekking á vandamálum héraða og einstakra sveitarfélaga og því eðlilegt að þetta vald sé þar. Ef slíkt væri flutt heim í héruð, sá háttur yrði tekinn upp, þá mætti búast við miklu raunverulegri og virkari þátttöku og eftirliti borgaranna sjálfra bæði um meðferð og stjórnun, að ég tali ekki um áætlanagerð að fyrirhugðum framkvæmdum hjá sveitarstjórnarmönnum. Þetta mundi allt stóraukast.

Við höfum lifað það nú ár eftir ár að miklum fjármunum er varið til niðurgreiðslu landbúnaðarvara. Samkv. fjárlögum nú eru ætlaðar til þess um, að mig minnir, 160 millj. nýkr. og virðist ekki nein breyting vera fyrirhuguð hjá ríkisstj. eða stjórnarflokkum á þessu kerfi. Ég hefði talið, með hliðsjón af því sem blasir við á vinnumarkaðinum, að það hefði kannske verið alvarlega athugað hvort þetta væri ekki hægt. Það hefur náðst fram nýlega gamalt baráttumál okkar sjálfstæðismanna í launþegasamtökunum um lágmarkslaun verkafólks, en um áratugaskeið hafa bændur búið við þessi kjör. Þeir hafa haft tryggð lágmarkslaun og tekjur þeirra verið miðaðar við ákveðnar stéttir. En þessu lágmarkskaupi bænda hefur verið náð með gerviverði á framleiðsluvörum þeirra. Þær hafa verið stórlega niðurgreiddar og hafa þar af leiðandi skert fjölda þátta í þjóðarbúskap okkar.

Fyrst við erum búnir að stíga það spor að koma á lágmarkskaupi fyrir flesta þegna þjóðfélagsins, því þá ekki að stíga sporið til fulls og borga bændum lágmarkskaup og láta þá svo reka sín fyrirtæki, eins og aðrir framleiðendur verða að gera, í samræmi við framboð og eftirspurn? Þessi fyrirtæki — búin — yrðu síðan að greiða skatt og skyldur eins og önnur fyrirtæki og þar á meðal að sjálfsögðu líka auðlindaskatt af sínum rollum, sem ganga á jarðeignum almennings inn til fjalla, þegar upp verður tekinn auðlindaskattur á fiskiskipin.

Ég gladdist við þegar ég heyrði það í umr. um daginn að hæstv. heilbr.- og félmrh. hafði haft í huga þá leið sem við erum hér að benda á að verði athuguð, ég og hv. þm. Halldór Blöndal, í sambandi við skattafrádrátt. Hann sagði mér hins vegar frá því á eftir í einkaviðtali, að hann hefði fengið heldur óblíðar móttökur hjá ýmsum embættismönnum sem hefðu fundið því allt til foráttu að fara slíka leið. Það hafa fleiri en hann. Ég hef lengi haft þá skoðun, að það væri hægt að fara þessa leið. Ég hef orðið var við að það hefur verið flutt frv. nú um að auka hlutdeild skattborgaranna í skattafrádrætti. Það hafi verið flutt frv. í hv. Nd. um það. En það er eftirtektarvert, að í hvert skipti sem breytingar hafa verið gerðar á skattalögunum á liðnum árum höfum við alltaf hreint fengið að heyra frá embættismönnum, sem hafa fjallað um þessi mál, að sérstakir frádráttarliðir sem aðeins ná til lítils hluta skattgreiðenda, væru til mikils ama í öllu skattheimtukerfinu. Það er um mikla aukavinnu að ræða í þessu sambandi og margir erfiðleikar á skattúrvinnslu af þessum sökum. Þetta álit embættismanna og stjórnmálamanna, þ. á m. fyrrverandi fjmrh., sem ég hlustað á tala um þetta og þetta mál hefur heyrt undir, hefur verið ein meginástæðan fyrir niðurfellingu frádráttarliða og samruna annarra. En það eru samt sem áður til slíkir liðir sem halda sér og ná til þrengri hópa, fyrst og fremst vegna þess að það er verið að ná fram félagslegu réttlæti sem illmögulegt er að ná öðruvísi. Ég bendi sérstaklega á sjómannafrádráttinn, sem fyrst og fremst er vegna hinnar sérstöku vinnuaðstöðu, sem sá hópur manna hefur, og stöðugrar sannanlegrar hættu í því starfi. Því fylgja líka sannanleg dauðsföll sem eru marktæk í prósentum árlega og hafa verið um áratugaskeið hér á Íslandi.

Ég skal viðurkenna að fyrir fækkun og samruna slíkra frádráttarliða á liðnum árum megi finna mörg jákvæð rök, en það eru líka, þegar rætt er um að taka upp nýja liði, þessi sömu rök til að ná fram lagfæringu á þjóðfélagslegum vandamálum.

Úrvinnsluvandi, sem á hefur verið bent, getur ekki lengur verið fyrirstaða í augum þeirra sem fylgjast með þeim möguleikum sem nútímatæknibúnaður býður. Við, sem erum á miðjum aldri, höfum lifað hverja byltinguna á fætur annarri, sem hefur gengið yfir í sambandi við tölvubúnað og tölvuvinnslu, og nú síðast örtölvubyltinguna. Þessar tækniframfarir hafa haft í för með sér svo miklar breytingar og reyndar enn ófyrirséða möguleika á úrvinnslu gagna þegar leita þarf svara við ótrúlegustu vandamálum, að ég tel að slíkur fyrirsláttur sem úrvinnsluvandi geti tæplega staðist. Alla vega tel ég að þingmenn, sem óska eftir að þessi leið verði könnuð, séu orðnir það margir að þeir eigi orðið fulla heimtingu á því að fá bæði það sem mælir með og móti slíkum leiðum í sambandi við skattheimtuna. Það gera sér að sjálfsögðu allir þess grein, að það fylgir mikill kostnaður tölvuvæðingu, bæði tæknibúnaðurinn sem til þarf, nám starfsmanna, upplýsingasöfnun og launakostnaður o. fl., o. fl. En við flm. teljum að þótt um kostnað sé að ræða í sambandi við slíka fjárfestingu eigi ekki að setja hann fyrir sig þegar haft er í huga að allur þessi búnaður og nám, sem notkun hans fylgir, er ekki bundið neinu einu verkefni, en má nota sem nauðsynlegt hjálpartæki á nær öllum sviðum okkar daglega lífs og kemur að margs konar gagni í okkar flókna nútímaþjóðfélagi.

Það hefur verið talað um að ein meginandstaðan gegn því að fjölga slíkum frádráttarliðum væri fyrirhugað staðgreiðslukerfi skatta. Ég verð ekki var við annað en hvar sem er, hjá launþegasamtökum og öðrum, sé vaxandi andstaða gegn staðgreiðslukerfi skatta. Er stutt síðan ég var á fjölmennum fundi, þar sem forustumenn launþega voru, þar sem allir lögðust gegn því, en töluðu hins vegar um að það mætti þá frekar fara styttri áfanga, styttri leið, sem menn hafa kallað samtímagreiðslu skatta, að mig minnir. Ef við sníðum staðgreiðslukerfi skatta eftir því kerfi sem við búum við í skattheimtu, þegar við erum með tuttugu til þrjátíu tegundir skatta, en hjá þeim þjóðum, sem miðað er við þegar leitað er fordæma að staðgreiðslukerfi skatta, eru kannske tíu, tólf skattar sem þarf að spanna yfir, þá sjáum við að það mun kosta stórfé, svo mikið fé að við getum ekki mælt það enn, að taka þetta kerfi upp, bæði í mannahaldi og tækjabúnaði. Í þessari tillögu okkar er vikið að tveimur meginatriðum sem við höfum óskað eftir að láta kanna samkvæmt þingsályktunartillögu okkar um aukinn skattafrádrátt, sem við flytjum og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa sjö manna nefnd til að kanna möguleika þess að nota skattafrádrátt til frekari jöfnunar á skattbyrði þjóðfélagsþegnanna.

Nefndin skal sérstaklega athuga hvort aukning frádrátta hjá þeim, sem vinna langan vinnutíma fyrir sömu laun og þeir fá sem vinna miklu skemur, geti dregið úr samanburðarstríði milli stétta og um leið úr verðbólguhvata.

Enn fremur hvort sérstakur frádráttur hjá þeim, sem búa öldruðu fólki heimili, geti dregið úr vistrýmisþörf stofnana sem mikill skortur er á, enda mjög dýrar í byggingu og rekstri.

Nefndin skal njóta aðstoðar og fyrirgreiðslu ráðuneyta og embættismanna sem til er leitað. Hún skal skila áliti til Alþingis áður en þing kemur saman haustið 1982.

Allur kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Við flm. höfum dregið fram í grg. þann vanda sem fylgir þessum málaflokkum. Annars vegar er um að ræða stöðugt samanburðarstríð, sem er á launamarkaðinum, og misrétti í skattheimtu og óréttlæti sem því fylgir. Hins vegar erum við með þessu að benda á óbeina aðstoð við aldraða og þeir fái dvalist sem lengst á eigin heimilum án þess að leita til dýrra stofnana.

Það hefur verið mikið talað, og sérstaklega á undanförnum vikum, um þann hluta þjóðarinnar sem hjá sumum hefur fengið samheitið „láglaunafólk“. Þótt það sé ekki algilt munu flestir sammála um að efnislega flokkist í þann hóp þeir sem vegna langvarandi veikinda, aldursfötlunar eða annarrar vanhæfni til starfa á hinum almenna vinnumarkaði ná ekki einhverju ákveðnu tekjulágmarki. Um þá fjallar þessi till. ekki sérstaklega, enda næsta auðsætt hverjir flokkast þannig. Það er líka sérstakt tillit tekið til afkomu þeirra í lögum, þótt mörgum, þ. á m. okkur alþm., þyki að þar sé ekki nóg að gert nú frekar en endranær.

Ég hef áður haft orð á því hér á Alþingi, að mér hefur þótt skorta á skilgreiningu þess hjá mönnum, þegar er verið að tala um láglaunafólk, hvaða hópar það séu á hinum almenna vinnumarkaði sem eiga að flokkast undir láglaunahugtakið og hvort ómanneskjulegur vinnutími, sem ég kalla, eigi að skera úr um hvort svo sé eða ekki. Við vitum um hvað gert var í samningum fyrir skömmu. Þá var reynt að bæta launakjör þeirra sem ekki eiga þess kost að afla tekna fram yfir dagvinnutíma með yfirvinnu. Það er farin mjög áþekk leið í þessum samningum og farin var af ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar veturinn og vorið 1978. Það er auðvitað öldungis rangt hjá forseta Alþýðusambands Íslands þegar hann lætur hafa eftir sér í fjölmiðli að það eigi alls ekki við að bera þetta saman. Ef það er gert lauslega má sjá að þessir samningar, sem gerðir voru núna, hafa ekki áhrif á eftir- og næturvinnu. Nú eru lægstu laun hækkuð, en í stjórnartíð Geirs Hallgrímssonar voru hæstu laun lækkuð. Sameiginlegt með báðum þessum aðgerðum er að eftir- og næturvinna og álög eru skert, en það er verið að leitast við að bæta lág laun.

Við bendum á það í grg. okkar, að flestir horfi á samanlagðar tekjur í árslok eða á styttri tíma og þannig sé litið á það af alltsjáandi auga skattheimtunnar hvar menn standi í þessum launastiga, hvort þeir séu láglaunamenn eða ekki. Það er ekki tekið tillit til þess við skattheimtuna, hver vinnutímafórn er að baki hjá þeim sem teknanna afla. Það hefur oft valdið gremju minni að þegar verið er að tala um láglaunafólk vilja menn ekki gera sér grein fyrir því, að það er ekki réttlát skattheimta þegar verið er að leggja sama skatt á tvo sambærilega einstaklinga sem hafa aflað jafnhárra tekna, annar með því að vinna sjö til átta klukkustunda vinnu á dag fimm daga vikunnar, en hinn 10–12 klst. á dag sex til sjö daga vikunnar. Það er ekki heldur tekið tillit til þessa þegar farið er í tekjusamanburð sem undanfara kröfugerðar við gerð launasamninga. Okkar hugsun er sú, að ef skattafrádráttur verður tekinn upp hjá þeim sem t. d. verða að vinnu yfirvinnu hvernig sem á stendur, og hér á ég bæði við fiskimenn og fólk sem vinnur í fiskvinnslu, — það verður að koma þegar kallað er til að bjarga verðmætum sem eru verðmæti allrar þjóðarinnar, — okkar hugsun er að það eigi að vera hægt að veita skattafrádrátt, ekki fyrir krónurnar sem fást fyrir þessa vinnu, heldur fyrir klst., sem unnar eru, og búa til einhverja viðmiðunartölu þar.

Ég geri mér fulla grein fyrir því, að það eru margir annmarkar á þessu, en við förum fram á að kannað sé, hvort hægt sé að fara þessa eða áþekka leið til að koma í veg fyrir þetta vandamál, og höfum, eins og ég tók fram áðan, í huga vandamál sem fram undan eru á vinnumarkaðinum.

Hitt vandamálið er m. a. og fyrst og fremst vegna þeirra miklu breytinga sem hafa orðið á allri okkar þjóðfélagsbyggingu á síðustu áratugum, — þjóðfélagsbyggingunni, lífsháttum, atvinnu, búsetu og fjölskyldulífi, eins og við segjum í grg. okkar, sem hafa haft meiri áhrif á þá, sem teljast til eldri kynslóðarinnar, en flesta aðra.

Þessar breytingar eru ekki bundnar ákveðnum árum, heldur má fullyrða að hver einstaklingur, sem náð hefur því aldursskeiði að teljast til aldraðra á síðari helmingi tuttugustu aldarinnar, hafi lifað einhverjar af framangreindum breytingum sem veruleg áhrif hafa haft á líf hans. Stöðugar framfarir á sviði rannsókna, lyfjagerðar og lækninga, samfara fyrirbyggjandi aðgerðum gegn sjúkdómum og hrörnun, auk alhliða heilsuverndar, stuðla að auknu langlífi og hafa í för með sér hækkaðan meðalaldur og mikla fjölgun í efri aldurshópunum. Meðalaldur karla á Íslandi er nú um 73 ár og kvenna 79 ár. — Þar er „sexið“ sem skilur eins og oftar áður.

Það má líka leiða rök að því, að stöðubreyting konunnar síðustu áratugina og stóraukin þátttaká hennar í störfum utan heimilis hafi á þéttbýlissvæðum a. m. k. gert hugmyndir fólks um endurnýjun „stórfjölskyldunnar “ endanlega að engu. Það má einnig nefna ýmis hegðunarform, sem yngri kynslóðir temja sér, og eitt og annað, sem fylgir, sem eldra fólki er ekki að skapi. Flest af þessu hefur í för með sér einangrun aldraðra frá börnum sínum, ef þau eru til staðar, eða frá fjölskyldu sinni. Einangrun þeirra, sem hvorki eiga börn né fjölskyldu, verður enn þá tilfinnanlegri að sjálfsögðu. Þessari sömu einangrun fylgir ótti og öryggisleysi, en þessir þættir eru auk sjúkdóma meginástæða þess hve margir aldraðir á Íslandi sækja í það samfélag, sem ég vil kalla, sem finna má innan veggja á dvalar- og elliheimilum og í öðrum sérhönnuðum íbúðum fyrir aldrað fólk.

Það hefur verið gert mikið á undanförnum árum að því að byggja slíki húsnæði, og fyrir dyrum stendur að gera stórátak í þeim efnum og eru allir alþm. sammála um það, að ég hygg. En það mun ekki verða nóg samt sem áður. Eins og öllum er kunnugt ríkir hér á höfuðborgarsvæðinu neyðarástand, sérstaklega vegna þeirra sem þurfa á sérstakri umönnun og hjálp og eftirliti og hjúkrun að halda. Það er unnið að þessum málum núna af ríkisskipaðri nefnd, sem mun leggja fram frv. þegar þing kemur saman væntanlega úr jólaleyfi, ef jólaleyfi verður veitt, og geri ég ráð fyrir að þá verði teknar upp umr. um þessi mál almennt. Skal ég ekki fara frekar út í þau að sinni.

En við erum sammála um það, og það eru flestir, að æskilegt sé fyrir þá, sem eru komnir á efri ár, að geta búið á eigin heimili þar til yfir lýkur. Það, sem við viljum láta kanna í öðru lagi í þessari till., er hvort slíkur hvati sem skattafrádráttur geti orðið til hjálpar við að leysa þann vanda sem hér er drepið á.

Það hefur oft verið drepið á það af aðilum, einstaklingum og félagasamtökum, að hugsanlegt væri að greiða fólki beint fyrir þetta. Ég hef stundum rætt þetta við aldrað fólk og við félög aldraðra, og þeim ber öllum saman um að þetta mundi í augum þeirra sjálfra og þeirra, sem í kringum þá stæðu, verka sem ölmusa, alla vega hjá mörgum þeirra. Því tel ég að það sé fyllilega þess virði að athuga hvort leið skattafrádráttar megi ekki fara.

Það þekkjast mörg dæmi þess, að það hefur tekist að ná því, sem við bendum á, að aldrað fólk sem býr í eigin húsnæði fái til sín til búsetu yngra fólk eða aðra sem eru húsnæðisþurfi, einnig að fólk, sem er heilbrigt, en komið yfir miðjan aldur og börn þess farin að heiman og býr í rúmu húsnæði, geti tekið inn á heimili sitt aldrað fólk sem leitar úr einveru til öryggis og nokkurrar hjálpar. Þetta gildir að sjálfsögðu einnig um yngra fólk sem hefur komið sér upp húsnæði í rýmra lagi. Það er oft sem konur eiga í slíkum tilfellum ekki heimangengt vegna ungs barns eða barna. Þessa finnast líka dæmi hér í Reykjavík og hefur reynst vel. Hefur það fólk kannske ekki sést áður en slík sambúð var tekin upp.

Ég endurtek að ég tel það þess virði að athuga hvort skattafrádráttur geti orðið heppilegri leið en beinar greiðslur til að slíkar leiðir séu farnar. Því er þetta annað meginefni þessarar till. minnar og hv. þm. Halldórs Blöndals.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa till., nema sérstök ástæða gefist til, og ég legg til að þegar umr. lýkur verði málinu vísað til allshn.