08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

45. mál, skattafrádráttur

Sigurður Óskarsson:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega vekja athygli á 2. mgr. í þeirri till. sem hér er til umr., þ. e. að fyrirhuguð nefnd skuli athuga sérstaklega hvort ekki megi með auknum frádrætti hjá þeim, sem vinna langan vinnutíma fyrir sömu laun og þeir fá sem vinna miklu skemur, draga úr samanburðarstríði milli stétta.

Mér er kunnugt um að oft þegar talað er um laun við tilteknar starfsgreinar verkafólks gæti ótrúlega mikillar vanþekkingar á þeim vinnutíma og þeim aðstæðum sem liggja að baki launaöflunar. Þessa hefur vissulega gætt hvað varðar störf verkafólks, t. d. verkafólks sem vinnur við virkjanaframkvæmdir. Mér er það sérstaklega kunnugt. Allir þekkja umræður um laun sjómanna, þar sem ævinlega er bent á þá sem hæst laun hafa. Hinum almenna sjómanni með meðallaunatekjur er sleppt úr og ekkert tillit tekið til aðstöðu fjarri heimilum og ótrúlega löngum vinnudegi hjá þessum starfsstéttum — þeim sem ég nefndi og fjölmörgum öðrum. Þess vegna tel ég að hér sé flutt gott mál, að horft sé til þessa fólks.

Ég verð að segja að það hefur furðað mig í umr. hér í kvöld, að þar til nú hafa fulltrúar úr þeim stjórnmálaflokki, sem mest hefur kennt sig við láglaunafólkið og hæst hefur til þess höfðað, ekki til þessa tekið þátt í umr. um þetta mál, sem ég tel að sé ákaflega mikilsvert fyrir láglaunafólk, láglaunamanninn sem á engra kosta völ annarra en leggja á sig óhóflegan vinnutíma til að geta lifað sómasamlegu lífi. Það er nýbúið að semja um lágmarkslaun fyrir dagvinnu, og það dettur engum lifandi manni í hug, sem vill ræða það mál eða hugsa í fullri alvöru, að það sé verið að tala um laun þar sem nægja til sómasamlegrar framfærslu. Þetta fólk á einskis annars úrkosti, ef það á að lifa sómasamlegu lífi, en leggja á sig aukna vinnu ef aukna vinnu er að fá. Það er ekkert ósanngjarnt og ekkert óeðlilegt að tillit sé tekið til þessara aðstæðna og þessa álags þegar lagðir eru á skattar. Ég tel útilokað annað en þm. styðji þær hugmyndir sem í þessari till. felast.

Ég tel að aðrar mgr. þessarar till. séu allrar athygli verðar þó ég ætli ekki að eyða tíma Alþingis í að fjalla um það. Aðrir menn hér þekkja þau mál betur og hafa reifað þau. — En ég fagna því, að á þessi mál er drepið, þau eru hér til umr. og flutt till. til þál. um þau. Þau eru allra góðra gjalda verð.