08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

45. mál, skattafrádráttur

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það kom mér ekki á óvart, fyrst einn tollheimtumaður fannst í salnum, að hann mundi vera á móti þessu máli. Það er að sjálfsögðu hv. þm. Halldór Ásgrímsson. Þótt við höfum unnið vel saman í fjögur ár, árin 1974–1978, og staðið þá sameiginlega að ýmsum efnahagsaðgerðum sem ég taldi af hinu góða, að minnsta kosti verið að reyna að byggja upp atvinnuvegina sem nú er markvisst unnið að að brjóta niður, — þó hann hafi þá unnið vel, sem ég veit hann gerir endranær, er það að nokkru leyti eðlilegt því þá var hann í góðum félagsskap, en hann hefur lent í slæmum félagsskap síðan og þar af kemur að hann kannske metur ekki þær staðreyndir, sem fyrir okkur liggja sem förum með hagsmunamál launþega, eins og við gerum nú. Hins vegar er það misskilningur að ég hafi ekki verið að hrósa því sem gerðist á launamarkaði fyrir stuttu. Ég var einmitt að hrósa því, að það tókst að vinna nokkurn áfangasigur fyrir þá sem ekki hafa náð fram á þeim vettvangi til þessa.

Það er hægur leikur að snúa nokkuð út úr orðum hv. þm. þegar hann fór að bera saman það mál, sem við flytjum, ég og hv. þm. Halldór Blöndal, og svo það, að hann skuli ekki fá skattafrádrátt fyrir að vinna á kvöldin á Alþingi við fundarstörf. En auðvitað veit ég og við vitum allir að það er ekki það sem þm. átti við, heldur var hann að taka þetta sem dæmi um erfiðleikana á því að ná fram réttu framtali vinnustundanna sem um er að ræða. Það kemur mér satt að segja mjög á óvart að hann, sem hefur að sérmenntun endurskoðun, skuli láta efnislega þau orð falla hér að það sé mjög lítil regla á vinnutímaskráningu. Ég spyr: Hvernig fara þeir, sem hann hefur þessa reynslu af, að því að gefa upp til skatts? Hvernig fara þeir að því að standa skil á lögbundnum greiðslum af vinnutíma og launum? Ég hélt satt að segja að í hverri einustu atvinnugrein væri skráður vinnutími nema þar sem tveir hæstv. ráðh. hafa viðurkennt að það væri logið til og falsaður vinnutími manna„ þótt lögbundinn væri, og þar á ég við vinnutímann á fiskiskipunum. Að vísu eru þeir hinir bestu drengir og bjóðast til að bæta um og eru búnir að setja nefnd í málið að sjálfsögðu til að rannsaka hvernig þetta megi vera. Ég er alveg viss um að auðvitað kemur bónusfólkið þessu ekki við. Ef það er ekki til klukkustundaskráning þar sem fólkið vinnur í ákvæðisvinnu segi ég eins og fleiri verkalýðsleiðtogar hafa sagt: Er ekki orðið tímabært að sett verði löggjöf um hámarksvinnutíma fyrir þá sem vinna ákvæðisvinnu — eða gerir fólk sér ekki neina grein fyrir því, hvað ákvæðisvinna er? Ákvæðisvinna er vinnan þar sem miklu meira álag er lagt á menn en undir öðrum kringumstæðum. Því fá þeir bónus greiddan eða álagskaup. Auðvitað á það fólk ekki að fá að vinna nema ákveðinn klukkustundafjölda. Ég er hins vegar að tala um þá sem ekki búa við þær kringumstæður, en verða að vinna samkv. lögum. Þeir eru kallaðir „sjóræningjar“ annars um borð í skipum, og það eru lög sem skipa þeim að taka við hverri skipun sinna yfirmanna um vinnu þótt hún sé langt yfir það manneskjulega. Þetta vita allir og það veit ég að þessi hv. þm. veit manna best sjálfur því hann kemur úr kjördæmi þar sem þetta er vel þekkt.

Í marga áratugi hefur verið síendurtekin krafa launþegasamtakanna, á Alþýðusambandsþingum og fleiri þingum þar sem launþegar koma saman og ræða sín mál, að það ætti að veita skattaívilnanir vegna eftir- og næturvinnu við framleiðslustörf þjóðarinnar. Guði sé lof að íslenskir launþegar, sem vinna þessa vinnu, hafa enn þá það mikla samvisku að þeir telja að það sé nauðsynlegt að bjarga undan skemmdum þeim verðmætum sem komið er með að landi og þeir hafa ekki talið eftir sér að koma þegar kall kemur um að vinna þessa vinnu. Það er þetta fólk sem við flm. erum að leitast við að koma á móti. Við leggjum til að það verði athugað hvort ekki sé hægt að koma á móti óskum þessa fólks. Ég hef heyrt margs konar rök gegn þessu, m. a. frá sveitarstjórnarmönnum, um að ef þetta væri tekið bæði af tekjuskatti og tekjuútsvari mundu lítil sveitarfélög ekki þola það. Auðvitað mundu þau þola slíkt ef ríkið flytti til þeirra eitthvert fé, eitthvað af sinni skattheimtu allri. Við vitum auðvitað að það er aldrei hægt að brúa það bil, sem er á milli þess, sem vinnuveitendur geta greitt almennu verkafólki, og þess, sem það þarf að hafa til að sjá sér farborða, öðruvísi en taka úr ríkissjóði og flytja það til fólksins eða atvinnuveganna á einn eða annan hátt. Endar nást ekki saman öðruvísi. Ég tel að fyrir ríkissjóð, í þeirri stöðu sem hann er í, væri þetta kannske skynsamlegasta leiðin ef hægt væri að fara hana. Nú segir þessi þm.: Þetta er ekki hægt, lögin eru svona. Lögin eru svona og það má auðvitað ekki breyta þeim. Ég veit auðvitað að samstarfsmaður hans, hæstv. heilbrmrh., mundi benda okkur á að fara í kjallarann til hv. þm. og ná í það sem þar er, í Seðlabankann, en ég geri ráð fyrir að það sé ekki einhlítt ráð heldur.

Hv. þm. hefur sjálfsagt eitthvað misskilið mig í sambandi við gamla fólkið sem kæmi inn á heimilið. Ég endurtek að okkur er öllum kunnugt um að aldrað fólk fær sína tekjutryggingu, en okkur á líka að vera kunnugt um að aldrað fólk, sem hefur ekkert annað en ellilífeyrinn og fær sína tekjutryggingu, þarf að fá miklar fjárhæðir til viðbótar ef það fer inn á dvalarheimili aldraðra eða elliheimilin. Það, sem ég á við, er auðvitað ekki það, að gamla fólkið ætti að fá viðbót ef það væri tekið inn á og því væri búið heimili hjá ungu fólki. Ég átti við að fólkið, sem væri að búa hinum öldruðu heimili, fengi nokkurn skattafrádrátt fyrir, jafnvel þótt hinn gamli einstaklingur borgaði því líka af sínu umráðafé, en það mundi jafnframt gera honum kleift að hafa meira handa á milli en ella.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa fleiri orð um þetta. Það hafa verið farnar ýmsar leiðir til að koma á móti einstökum hópum. Sumir hafa verið þrýstihópar. Hv. þm. Halldór Blöndal benti á það áðan hvernig þeir hefðu farið að. Ég minnist þess líka að á sinni tíð var ein stétt manna ekki nógu hörð í sínum þrýstingi. Þegar hv. núv. stjórnarflokkar tóku við eftir 1971 var breytt tekjuskattslögunum. Fyrir þann tíma höfðu sjómenn skattafrádrátt sem náði bæði yfir tekjuskatt og tekjuútsvar. Hér í Reykjavík fengu farmenn þetta t. d. líka, enda höfðu farmenn samið um í kjarasamningum að fá þann frádrátt. En þetta var afnumið á einni nóttu af vinstri stjórninni sem tók við af viðreisnarstjórninni. Auðvitað hefðu farmenn átt að stöðva flotann og ganga þá í land og segja: Það er verið í fyrsta sinn um margra ára skeið að rjúfa þá kjarasamninga sem við höfum gert. — Því hefur svo verið haldið áfram æ síðan og enginn af þessu liði lætur sér blöskra lengur þótt það sé gert nær vikulega.