08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

40. mál, sjúkraflutningar

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka þær umr. sem hér hafa þegar farið fram um þetta mál. Ég efast ekkert um að hv. alþm. hafa áhuga á þessu máli, eins og raunar hefur komið fram áður hér á Alþingi. Í sambandi við þá þáltill., sem hér er flutt, kom fram að hún er flutt af algerri tilviljun á mjög svipuðum tíma og frv. sem flutt er í Ed. af hv. þm. Alþfl. og ég er efnislega mjög sáttur við. Þessi till. varð fyrst og fremst til vegna nýrra áskorana og erinda, sem höfðu borist, og enn fremur í sambandi við það, sem kom fram á heilbrigðisþingi og hefur þegar verið kynnt og margir hv. þm. hafa sjálfsagt undir höndum, og jafnframt af því að flm. fannst eins og fleirum að þær starfandi endurskoðunarnefndir eða laganefndir, sem eru í þessum málum, ekki síst að því er varðar endurskoðun á almannatryggingum og endurskoðun á heilbrigðislöggjöfinni, væru nokkuð seinar eða þunglamalegar þegar þess er gætt, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl., að sviðið, er þessar nefndir taka, er allt of yfirgripsmikið, í stað þess að taka út úr þau atriði, sem mest gildi hafa, til að leysa úr vanda, jafna misrétti og gera framkvæmd þessara laga aðgengilegri og um leið réttlátari.

Ég fagna því sem hér kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl., sem ég raunar vissi um, að sú nefnd, sem er að endurskoða lögin um heilbrigðisþjónustuna, hefur þegar lagt fram drög að frv. Ég hef lesið þau yfir og ég hef gert það vegna þess að þetta er búið að vera nokkuð lengi í meðferð hjá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún hefur gert nokkuð margar tilraunir til að fá fram vissar leiðréttingar á lögunum um heilbrigðisþjónustu og sent frá sér til heilbrmrn. ákveðnar tillögur um lagfæringar á heilbrigðislöggjöfinni, þ. á m. að því er varðar skipulag og framkvæmd á sjúkraflutningum. Eins og ég sagði í framsöguræðu er þetta mál sem hefur verið mjög erfitt viðureignar hjá mörgum sveitarfélögum í landinu. Sveitarfélögin hafa þá sjálfsögðu skyldu að bera kostnað af sjúkraflutningum, en þetta mál hefur verið ákaflega erfitt viðureignar á undanförnum árum og hefur alls ekki verið auðvelt að leysa fyrir mörg sveitarfélög í landinu og þess vegna hefur Samband ísl. sveitarfélaga unnið að því um nokkurt skeið að reyna að hafa áhrif á að lög um heilbrigðisþjónustu yrðu endurskoðuð og þetta atriði sérstaklega ásamt mörgum fleiri, sem ég ætla ekki að nefna hér, yrði tekið inn í þessa endurskoðun.

Ég fagna því, að drög að lagabreytingu hafa þegar verið send til kynningar hjá stjórnarflokkunum a. m. k. Þó að margt sé þar sem þarf enn að athuga að mínu mati, sýnist mér þó sá kafli, sem fjallar um sjúkraflutninga, fljótt á litið a. m. k. fullnægja því sem fyrir okkur flm. vakir að því er varðar ákvæði um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga. Ég vænti þess, að áfram verði haldið á þeirri braut að reyna að koma þessari lagabreytingu á þó margt annað í þessu frv. muni að vísu þurfa mikillar skoðunar við og ég efist ekkert um að margir séu ekki sammála um ýmislegt sem þar er.

Að því er varðar hitt atriðið, sem hér hefur borið á góma, um greiðslu kostnaðar eða jöfnun á þeim mikla aðstöðumun sem fólk í landinu býr við, er hér um að ræða atriði sem er löngu tímabært að taka til afgreiðslu því að þær reglur og reglugerðir sem Tryggingastofnun ríkisins hefur gefið úr og starfað eftir, eru allt of flóknar og allt of þunglamalegar í öllum tilfellum og hafa bakað, eins og ég sagði í minni framsögu, mjög mikil vandamál víða í meðferð. Ég tel þess vegna að það komi til greina, að út úr þessum umr. öllum og frv. og þáltill., sem hér hafa verið sett fram, ætti að geta komið að Alþingi ætti að geta afgreitt þetta mál þannig að við fáum viðunandi breytingar á lögum um almannatryggingar sem leysi síðara atriðið, sem þáltill. fjallar um, þannig að sjúkrasamlögin greiði kostnað vegna flutnings sjúklinga á þann hátt að hægt verði að ná því réttlæti sem allir virðast nú vera sammála um að verður að ná fram í þessari löggjöf.

Ég vænti þess, að Alþingi fylgi þessu máli eftir og áður en þingi lýkur verði komin viðunandi skipan á þessi mál í báðum atriðum er þáltill. fjallar um.