08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

120. mál, starfslaun íþróttamanna

Flm. (Jóhann Einvarðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Friðrik Sophussyni, Helga Seljan og Árna Gunnarssyni að flytja till. til þál., sem kemur fram á þskj. 123, um starfslaun íþróttamanna. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að skipa þriggja manna nefnd til þess að semja frv. til l. um starfslaun íþróttamanna.

Nefndin skal vera þannig skipuð: Formaður Íþróttasambands Íslands, formaður Ungmennafélags Íslands og Íþróttafulltrúi ríkisins og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar.“

Áhugi á frjálsum íþróttum virðist vera almennari úti á landi en hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta má vafalaust að nokkru skýra með því, að aðstaða til almennra íþróttaiðkana hefur óvíða verið fyrir hendi nema þá til knattspyrnu. Fyrst og fremst er þó skýringin sú, að ungmennafélögin hafa lagt mikla áherslu á þessa grein íþrótta.

Það hefur verið stefna ungmennafélaganna að stuðla að sem almennastri þátttöku í íþróttastarfinu, fá sem flesta til að vera með, en leggja minna upp úr afrekunum. Með þessu hefur fengist veruleg breidd í þann hóp, sem íþróttir stundar, þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður víða. Slík breidd er undirstaða þess, að unnt sé að koma auga á hæfileikamennina. Þetta starf hefur líka skilað góðum árangri.

Sú stefna ungmennafélaganna að leggja megináherslu á breiddina er tvímælalaust rétt, en hinu er ekki að leyna, að þessi stefna hefur ásamt aðstöðuleysinu fram að þessu verið nokkuð á kostnað afrekanna. Hingað til hafa flestir sigurvegarar á mótum verið hæfileikafólk, sem hefur haft mjög takmarkaða aðstöðu til þjálfunar.

Á síðasta landsmóti ungmennafélaganna var greinilegt að á þessu hefur orðið veruleg breyting. Í fyrstu sæti raðaði sér nú fólk sem haft hefur aðstöðu til að stunda æfingar og þjálfun um lengri eða skemmri tíma, enda munu ekki hafa verið sett færri en 16 landsmótsmet. Þetta er mjög gleðileg þróun og ætti að gefa von um glæsilegan árangur á sviði frjálsíþrótta á næstu árum. En óhjákvæmilega vaknar sú spurning, hvað taki við hjá þessu efnilega fólki og hvaða aðstöðu það hafi til áframhaldandi þjálfunar. Það vekur einnig þá spurningu, hvort tími algjörrar áhugamennsku sé ekki liðinn og hvort ekki beri skylda til að styrkja þetta fólk sérstaklega til frekari dáða.

Það hefur verið mjög áberandi á undanförnum árum, hve stuttur ferill margra efnilegra frjálsíþróttamanna hefur orðið. Menn hafa tekið þátt í keppni nokkur sumur með góðum árangri, en eru svo allt í einu horfnir af keppendaskránni. Skýringin er oftast sú, að menn hafa stofnað heimili, eru að byggja, önnum kafnir við nám eða uppteknir við vinnu. Út yfir tekur þó þegar okkar bestu afreksmenn verða að hætta keppni vegna féleysis.

Fyrir nokkrum vikum var frá því sagt, að Óskar Jakobsson, kastarinn snjalli, sem dvaldist s. l. vetur í Bandaríkjunum við æfingar, væri farinn austur á land í símavinnu til að vinna fyrir skuldum og hefði ekki efni á frekari þátttöku í keppni að sinni. Þetta dæmi sýnir okkur, svo ekki verður um villst, að komið er að þáttaskilum í þessu efni. Við getum ekki lengur farið svona með okkar bestu íþróttamenn. Við verðum að gera okkur ljóst, að afreksíþróttir verða ekki stundaðar í tómstundum með fullri vinnu eða námi.

Flm. telja að ekki verði lengur komist hjá því að stofna til „starfslauna íþróttamanna“, sem úthlutað yrði til besta íþróttafólks okkar. Við höfum þegar nokkra skákmenn á launum hjá ríkinu og þykir sjálfsagt og árlega er úthlutað starfslaunum til hóps listamanna. Það gæti því varla talist nein fordild þótt við hefðum íþróttamenn á launum í svo sem þremur til fimm stöðugildum. Hversu langt gæti Einar Vilhjálmsson, sem setti glæsilegt met í spjótkasti á landsmótinu, náð ef hann fengi aðstöðu til að helga sig íþróttum eingöngu í nokkur ár — eða Kristján Harðarson, ungi pilturinn frá Stykkishólmi sem sigraði í langstökki þótt hann sé aðeins 16 ára gamall og er af mörgum talinn efnilegasti stökkvari sem komið hefur fram í mörg ár?

Hér hefur eingöngu verið rætt um frjálsíþróttir, en hið sama gildir auðvitað um aðrar einstaklingsíþróttir, svo sem lyftingar, júdó og sund. Í þessum greinum eigum við afreksmenn sem ástæða væri til að styrkja á sama hátt.

Það kynni kannske einhver að spyrja, hvort ekki væri bara verið að þenja hér út kerfið, færa út kostnaðarliði ríkissjóðs. En ég vil minna þm. á að það muna sjálfsagt allir eftir þeirri gleðibylgju, sem fór um landið þegar Vilhjálmur Einarsson vann hið glæsilega afrek í Melbourne á sínum tíma, og hina ýmsu sigra sem við höfum unnið á íþróttasviðinu, bæði í flokka- og einstaklingsíþróttum.

Við flokkaíþróttir, svo sem knattspyrnu, handknattleik, körfuknattleik, blak, verður varla komið við slíkum starfsstyrkjum, en kanna mætti hvort þjálfarar og leiðbeinendur í slíkum íþróttagreinum gætu ekki komið til greina við úthlutun „starfslauna íþróttamanna“.

Að lokum legg ég áherslu á að gæta þarf vel að því, að áhugamannaréttindum verði ekki kasttað fyrir borð. Við erum sennilega ein af fáum þjóðum sem enn eru eingöngu með áhugamennsku í íþróttunum. Frá því vil ég ekki víkja. Ég tel það að vísu verkefni þeirrar nefndar, sem till. gerir ráð fyrir að verði skipuð, að finna m. a. lausn á því vandamáli.

Herra forseti. Að loknum þessum hluta umr. legg ég til að till. verði vísað til allshn.