08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

122. mál, Orkubú Suðurnesja

Flm. (Jóhann Einvarðsson):

Herra forseti. Á þsk j. 125 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, Matthíasi Á. Mathiesen, Salome Þorkelsdóttur, Geir Gunnarssyni og Kjartani Jóhannssyni að flytja þáltill. um Orkubú Suðurnesja. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd til að semja frv. til laga um Orkubú Suðurnesja. Nefndin skal þannig skipuð: Tveir fulltrúar tilnefndir af stjórn Hitaveitu Suðurnesja, tveir fulltrúar tilnefndir af stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og einn fulltrúi tilnefndur af iðnrn. Iðnrh. skipar formann úr hópi nefndarmanna.

Nefndin hraði svo störfum að frv. verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Með lögum nr. 100 frá 31. des. 1974 var ákveðið að stofna Hitaveitu Suðurnesja, sem hafa skyldi það markmið að leysa húshitunarmál á Suðurnesjum. Eignaraðild að félaginu var ákveðin á þann veg, að sveitarfélögin sjö á Suðurnesjum skyldu hafa 60% eignaraðild, en ríkið 40%. Í byrjun febrúar 1975 var stjórn félagsins skipuð og tók hún strax til starfa við uppbyggingu fyrirtækisins. Nú er þessu verkefni að mestu lokið, þar með talin tenging flugvallarsvæðisins. Jafnframt því meginmarkmiði að hita upp hús á svæðinu hefur Hitaveita Suðurnesja framleitt raforku til eigin nota og fyrir almennan markað. Afkastagetan er nú 8 mw. í þremur gufuhverflum, þ. e. tveimur 1 mw. og einum 6 mw. hverfli. Möguleikar eru nú taldir á aukinni rafmagnsframleiðslu í Svartsengi án frekari borana um allt að 8–10 mw. Þá væri uppsett afl í Svartsengi komið í 16–18 mw. og framleiðslugetan væri á milli 80–90 gwst. á ári. Á þessu ári er áætlað að raforkunotkun á Suðurnesjum verði 62.1 gwst. til sveitarfélaganna, en á Keflavíkurflugvelli 50.5 gwst., alls 112.6 gwst. Af því má því sjá hversu framleiðslugetan í Svartsengi hefur verið og gæti orðið stór hluti af raforkuþörfinni, ef ráðist yrði í uppsetningu fjórða gufuhverfilsins.

Hér hafa eingöngu verið ræddir þeir möguleikar til raforkuframleiðslu sem fyrir hendi eru nú í Svartsengi, en ekki getið um aðra möguleika á raforkuframleiðslu á Suðurnesjum, sem taldir eru vera umtalsverðir, t. d. með tilkomu sjóefnavinnslu á Reykjanesi, en ráðh. getur heimilað því fyrirtæki að reisa og reka raforkuver allt að 10 mw. að stærð í tengslum við starfrækslu þess. Er ástæða til að ætla að slíkt verði leyft og verði hagkvæmt.

Fyrirkomulag raforkudreifingar á Suðurnesjum er nú í aðalatriðum eftirfarandi:

1. Heildsalan er í höndum Landsvirkjunar, sem selur Rafmagnsveitum ríkisins orkuna, en þær selja síðan rafveitum sveitarfélaga orku til dreifingar í smásölu til neytenda.

2. Rafmagnsveitur ríkisins annast þó smásöludreifinguna í Hafnahreppi og sölu til Keflavíkurflugvallar frá riðbreytistöð.

3. Starfandi eru á svæðinu sex sveitarfélagarafveitur, en þær eru: Rafveita Keflavíkur, Rafveita Njarðvíkur, Rafveita Grindavíkur, Rafveita Miðneshrepps, Rafveita Gerðahrepps og Rafveita Vatnsleysustrandarhrepps.

Fram hafa farið allítarlegar umræður um sameiningu rafveitna sveitarfélaganna. Allir þeir, sem um málið hafa fjallað, hafa verið sammála um hagkvæmni sameiginlegrar rafveitu, enda liggja til þess mörg rök. Í viðræðum þeim, sem fram fóru á milli sveitarfélaganna, kom fram að litið er á sameiningu rafveitnanna sem áfanga að stofnun orkubús á Suðurnesjum — eða eins og segir í nál. sem nefnd á vegum sveitarfélaganna á Suðurnesjum hefur gert um sameiningu rafveitnanna, með leyfi forseta:

Nefndin lítur ekki á sameiningu rafveitnanna sem afgerandi takmark, heldur sem nauðsynlegan lið í stofnun orkubús á Suðurnesjum og telur að hraða beri sameiningunni með það að leiðarljósi. Nefndin álítur, að með sameiningu rafveitnanna náist hagkvæmari rekstur en nú er, og bendir á eftirfarandi:

1. Orkukaup rafveitnanna með einni mælingu yrðu 5% hagkvæmari en við núverandi fyrirkomulag, þar sem orkan er keypt samkv. 6 orkusölumælum.

2. Efniskaup yrðu 20–30% hagkvæmari, þar sem keypt yrði í meira magni og þá beint frá framleiðanda. Nú kaupa rafveiturnar sitt efni eftir hendinni, þó í takmörkuðu magni, frá seljanda í Reykjavík.

3. Stjórnun yrði í þá veru, að einn rafveitustjóri hefði yfirumsjón með svæðinu. Undir hann heyrði hönnun, verklegar framkvæmdir, innkaup, birgðahald, rafmagnseftirlit, orkusala og innheimta. Það er allt á einum stað. Æskilegt er að rafveitustjóri sé rafmagnsverkfræðingur. Rafveitunefnd yrði skipuð einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi og skiptust þeir á um formennsku í eitt ár í senn. Núverandi fyrirkomulag er þannig, að á svæðinu eru 3 rafveitustjórar, 6 rafveitunefndir, birgðabókhald ófullnægjandi, nema hjá Rafveitu Keflavíkur, framkvæmdir takmarkast af fjármagnsgetu á hverjum stað, hönnun er aðkeypt eða þá ófullnægjandi, innheimta, aflestur og bókhald á 6 stöðum.

4. Tækjabúnaður og mælitæki. Tækjaeign er mjög takmörkuð og mikið til sú sama á hverjum stað. Mælitæki eru svo til engin fyrir hendi, heldur hafa verið fengin lánuð annars staðar frá. Með stærri einingu er mögulegt að festa kaup á nauðsynlegum mælitækjum og byggja upp hagkvæmari tækjakost.

5. Bókhald, innheimta og aflestrar eru framkvæmd á hverjum stað. Í Sandgerði, Keflavík og Njarðvík eru rafveiturnar með sérskrifstofur, en í hinum sveitarfélögunum eru þessir þættir framkvæmdir á skrifstofum sveitarfélaganna. Við sameiningu yrði ein skrifstofa sem sæi um alla þessa þætti. Innheimt yrði með gíróseðlum líkt og hjá hitaveitunni. Aflestur færi fram tvisvar á ári, en þess á milli innheimt jafnaðargjald. Starfsmenn yrðu tveir til þrír.

6. Verklegar framkvæmdir yrðu á hverjum stað ýmist með föstum starfsmönnum eða aðkeyptri vinnu. Við sameiningu leggur nefndin til að sérstakur vinnuflokkur verði til að sjá um allar nýlagnir, en í hverju sveitarfélagi séu menn til að sjá um viðgerðir og almenna þjónustu.

7. Eignaraðild sveitarfélaganna væri í hlutfalli við íbúatölu á hverjum tíma. Framlag sveitarfélaganna til sameiningar er dreifikerfið ásamt spennistöðum og búnaði í því ástandi sem það er, annað ekki. Aðrar eignir væru eign viðkomandi sveitarfélags. Við sameiningu nyti Rafveita Suðurnesja arðs af raforkusölu frá þeim degi sem hún tæki til starfa, en sveitarfélögin til þess tíma. Þær skuldir, sem stofnað hefur verið til vegna rafveitna sveitarfélaganna, eru alfarið mál viðkomandi sveitarfélaga.

Í upphafi þessarar grg. er tekið fram, að nefndarmenn telji sameiningu rafveitnanna nauðsynlegan lið í stofnun orkubús á Suðurnesjum og leggi á það megináherslu.

Raforkukaup eru frá Rafmagnsveitum ríkisins sem kaupa orkuna frá Landsvirkjun. Til skamms tíma hefur RARIK lagt 12% á orkuna frá Landsvirkjun vegna flutnings frá spennistöð við Elliðaár. 1. nóv. 1980 var orka frá RARIK hækkuð í 17% ofan á Landsvirkjunarverð og nú nýlega bætt við 6 aura gjaldi á selda kwst. vegna aukins kostnaðar við rekstur dísilstöðva úti á landi. Með tilkomu orkubús á Suðurnesjum, þar sem Hitaveita Suðurnesja, Rafveita Suðurnesja og RARIK mynduðu sameininguna (Rafveita Suðurnesja 60% og RARIK 40% í þeim prósentuhluta sem ákveðið yrði að rafveiturnar hefðu á móti Hitaveitu Suðurnesja, þannig að eignarhluti sveitarfélaganna á Suðurnesjum yrði 60% á móti 40% hluta ríkisins) yrðu aðstæður allt aðrar.

Í fyrsta lagi fengist raforka keypt á Landsvirkjunarverði. Í öðru lagi yrði aukin raforkuframleiðsla í Svartsengi á vegum Orkubús Suðurnesja. Í þriðja lagi yrðu innkaup, innheimta og bókhald á vegum orkubúsins. Í fjórða lagi ykist fjármagn til varanlegra framkvæmda. Og í fimmta lagi hefðu Suðurnesjamenn frjálsar hendur með nýtingu þeirrar orku, sem fengist frá háhitasvæðum við Svartsengi, til atvinnuuppbyggingar og annarra hagsbóta fyrir heimamenn.

Ef sveitarstjórnarmenn samþykkja sameininguna leggur nefndin til að auglýst sé eftir rafveitustjóra sem fyrst og hann ráðinn til að kynna sér rafveitumálin, eins og þau eru nú, svo að hann geti gert tillögur um nýtingu þess mannafla, sem nú starfar á vegum rafveitnanna, og rekstrarform, svo að sem minnst röskun yrði við sameininguna.

Nefndin álítur að hraða beri ákvörðun. Sé ákvörðun jákvæð ber að ákveða dagsetningu þegar sameining fer fram, en nefndin telur að áramótin 1981–1982 séu heppilegur tími. Fram að þeim tíma verði rekstur rafveitnanna óbreyttur.“

Eins og kemur fram í þessu nál., sem ég nú hef lesið, var það hugsað sem megintilgangur með sameiningu rafveitnanna að þær gangi síðan til sameiningar og stofnunar á Orkubúi Suðurnesja. Þegar þessi skýrsla kom fram hjá sveitarfélögunum kom fram sú skoðun hjá a. m. k. tveimur sveitarfélögum, að réttara væri að stíga skrefið til fulls, og í framhaldi af því og þeim rökstuðningi, sem ég tel mig hafa flutt hér að framan, höfum við flm. lagt fram þessa þáltill. um að skrefið verði stigið til fulls nú og orkubúið stofnað með sameiningu Hitaveitu Suðurnesja og rafveitnanna. Er það skoðun okkar, að það sé til mikilla hagsbóta fyrir Suðurnesjasvæðið.

Herra forseti. Að loknum þessum hluta umr. legg ég til að till. verði vísað til allshn.