09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

132. mál, framkvæmd eignarnáms

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Í fyrra, þegar mál um þetta sama efni kom hér til umr., áttum við einnig nokkur orðaskipti, við hv. 3. þm. Vesturl. Það kemur raunar ekkert á óvart að í þessari ágætu deild komi töluvert fram sjónarmið þeirra sem telja sig eiga landið sérstaklega og um aðra. En það má ekki horfa fram hjá því sem er auðvitað höfuðatriði þess máls. Höfuðatriði þessa máls er ekki að ganga á rétt eða eigur manna. Höfuðatriði málsins er að tryggja rétt samfélagsins og tryggja rétt einstaklinganna, en koma í veg fyrir óeðlilegan hagnað, óeðlilegt brask, koma í veg fyrir að einstakir landeigendur, sem af tilviljun eiga land í grennd við þéttbýli, hagnist stórlega á kostnað samfélagsins og vegna tilverknaðar samfélagsins. Það er meginatriði þessa máls.

Ég er ósammála hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Vesturl., um að þetta frv. gangi of langt. Raunar gengur þetta frv. kannske nokkru skemmra en norsk lög um hliðstætt efni. Við höfum mjög sniðið okkar löggjöf um mýmörg efni eftir norrænum lögum, og raunar er mikið samstarf ævinlega á döfinni til að samræma norræna löggjöf. Ég get því ekki fallist á þá skoðun hv. þm., að hér sé of langt gengið. Og þær fjölmörgu umsagnir, sem mér bárust frá ýmsum sveitarstjórnarmönnum víðs vegar um landið og ekki kannske síður í dreifbýlishreppum, hnigu mjög í þá átt, svo sem ég hef áður að vikið, að hér væri um eðlilegt mál að ræða sem ætti að fá framgang. Ýmsir bentu að vísu á það, að þarna mætti ekki ganga of langt. Það er ekki heldur hugsunin í þessu. Það er ekki verið að hugsa um að svipta menn einu eða neinu bótalaust. Hins vegar er í stjórnarskrá gert ráð fyrir þessum rétti til að taka eignarnámi. Auðvitað er það ekki gert fyrr en í síðustu lög. Og auðvitað er það ekki heldur gert nema brýnir hagsmunir samfélagsins komi til . Og auðvitað er það ekki heldur gert nema fyrir komi bætur.

Hv. 3. þm. Vesturl. bar hér fram ýmsar spurningar varðandi suma liði frv., t. d. varðandi 4. lið hinnar verðandi 12. gr. Þar er tekið til orða á þennan veg: „en almennt gildir um hliðstæðar landareignir eða fasteignaréttindi tengd landi á viðkomandi svæði“. Þetta getur auðvitað verið matsatriði hverju sinni. Það er mjög erfitt, held ég, að setja þarna föst mörk vegna þess að aðstæður eru mismunandi. Það er ekki sama hvort um er að ræða land á því sem kallað er Stór-Reykjavíkursvæðið, við skulum segja nágrennið hér, milli Reykjavíkur og Garðabæjar og Kópavogs, — hvort um er að ræða land á þessu svæði eða hvort um er að ræða land í 50 km fjarlægð eða 100 km fjarlægð frá þéttbýlisstað úti á landi. Ég held að þarna verði að vera svolítið svigrúm, og ég held að það sé erfitt að setja um þetta alveg fastar og afmarkaðar reglur.

Hv. 3. þm. Vesturl. spurði einnig um þá reglu sem gert er ráð fyrir í 9. lið. Ég skal fúslega viðurkenna að ég er ekki sérfróður um þessi mál þó að ég sé 1. flm. frv. og vilji fá þessum reglum breytt. Hins vegar benti hv. 5. landsk. þm., sem er maður lögvís og lögfróður, mér á það, að sú meginregla, sem er í 9. gr., væri lögfest í vegalögum. Gengið hafa dómar í málum í samræmi við þessa meginreglu þannig að hér er ekki um nýlundu að ræða. Og ef mér ekki skjáflast mun sú regla í vegalögunum raunar vera gerð eftir norskri fyrirmynd nákvæmlega eins og þetta. Ég hygg að það muni rétt vera. Í rauninni held ég að okkur hv. 3. þm. Vesturl. greini kannske ekki verulega á í þessum efnum. Auðvitað er það matsatriði hversu langt skuli ganga. Hann telur hér fulllangt gengið. Ég og aðrir flm. þessa frv. teljum hins vegar hér hæfilega langt gengið til að vernda rétt samfélagsins og hagsmuni sveitarfélaga. Einkum eru það þéttbýlissveitarfélögin, sem þetta mál snertir, vegna þess að það getur í ákaflega mörgum tilvikum skipt sköpum fyrir vöxt þeirra og viðgang að geta fengið að þróast með eðlilegum hætti, — þeim hætti sem er þeim hagstæðastur og því fólki sem þar býr. Það má segja að hér vegist á hagsmunir fjöldans og hagsmunir þeirra tiltölulega örfáu einstaklinga sem tilviljanirnar hafa gert að landeigendum í nánd við þéttbýli. En ég á von á að sú nefnd, sem fær frv. til umfjöllunar, muni skoða þetta mjög gaumgæfilega og huga að þeim ábendingum sem fram komu í máli hv. 3. þm. Vesturl. Ég held að í ágreiningi okkar sé um stigsmun frekar en eðlismun að ræða.