09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

134. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Enn mun það fara svo, að erindi mitt í ræðustólinn liggur svo nærri erindi hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar að ég þarf ekki að segja ýmislegt af því sem hann sagði hér. Aftur á móti kem ég hingað upp í ræðustólinn til þess að leggja áherslu umfram allt á þetta atriði. Þegar hv. þm. Stefán Guðmundsson fer að greina frá umr. að þessu sinni norður í landi hafði ég svolitlar áhyggjur vegna þess að blæ ber frá Norðurlandi vestra yfir í Norðurland eystra. Þá má hann ómögulega leggja orð mín — og raunar alls ekki sannleikanum samkv. orð Eyjólfs Konráðs Jónssonar- út á þann veg, að við viljum leggja Byggðasjóð niður. Af því að hv. þm. gaf okkur skoðanabræðrum einkunnina axarskaftasmiðir, þá má ég e. t. v. nota hina sömu fornu líkingu þegar ég greini á milli hlutverks og gagnsemi Byggðasjóðs og Framkvæmdastofnunar á þá lund, að öxin er Byggðasjóður, axarskaftasmiðjan hefur aftur á móti reynst vera Framkvæmdastofnun.

Vel má það vera — og ég vil raunar þakka hv. þm. Davíð á Arnbjargarlæk fyrir innlegg hans í málið — það er alveg rétt, að það er erfitt fyrir Borgfirðinga, sem sinna skógrækt, að leita erindisloka austur á Hallormsstað, og eins og hann gaf í skyn er það, sem liggur til grundvallar, að koma málunum ekki þannig fyrir að menn þurfi að endasendast um allt landið. Það liggur ekki fyrir útreikningur á Borgarfjarðar- og Kjósarsýslu í mannkílómetrum, en það vil ég fullyrða, að enn þá fráleitara er að þeir Austfirðingarnir, sem sinnt hafa skógræktinni af mestu þoli og þar sem flestar hafa verið gerðar tilraunirnar um nytsemi skógræktar, þurfi að sækja lausn erinda sinna til Reykjavíkur varðandi skógræktina. Ætlunin var að reyna að koma þessu skynsamlegar fyrir en svo, að menn þyrftu að vera svo í förum á milli landsfjórðunga.

Loks aðeins þetta. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég sagði áður, að það beri brýna nauðsyn til að við dreifum þjónustu í einstökum greinum sem mest um landsbyggðina og setjum til menn með fullkomið umboð frá æðstu stöðum til þess að leysa úr hinum almennu málum úti í byggðunum.