20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

13. mál, orlofsbúðir fyrir almenning

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég mætti að sjálfsögðu vera ánægður með að vera óbeint valdur að því, að hv. þm. Stefán Jónsson flutti jafngóða og yfirgripsmikla ræðu og hann gerði núna. En í raun og veru get ég ekki talið að hann hafi svarað neinu af því sem fólst í mínu máli. Hann virðist hafa fengið þá hugmynd, að það sé enn staðið að því að láta af hendi byggðalönd við Þingvallavatn og girða þau af hvert fyrir sig. Þetta er hinn mesti misskilningur.

Þeim löndum, sem eru afgirt innan Þingvallasvæðisins og innan þjóðgarðsins, var öllum úthlutað fyrir nærri 50 árum. Þeir bústaðir, sem hafa verið leigðir út í síðari tíð, eru allir í opnum löndum og ekki afgirtir sérstaklega hver fyrir sig. Það, sem ég var að ræða í máli mínu áðan, var að ég taldi að ekki væru byggðir núna sumarbústaðir í Þingvallalandinu án vitundar Þingvallanefndar og bændurnir hefðu þar ekki frumkvæði að, eins og mér virtist koma fram í máli flm. þessarar till. Ég tel að það eigi ekki við rök að styðjast. Samþykkt hefur verið gerð um það, að í raun verði hætt að úthluta byggingarlóðum á Þingvallasvæðinu.

Á sínum tíma gerði Þingvallanefnd þá samþykkt að ákveða byggingar með skipulögðum hætti upp undir Gjábakka. Það var horfið frá þeirri ráðstöfun, en þeim mönnum, sem þá höfðu rétt til að byggja á því svæði, var gefinn kostur á að fá lóðir fyrir sumarbústaði sína í Kárastaðalandi þar sem þeir ekki sáust frá veginum, og þeir eru ekki niður undir vatni. Þarna hafa verið byggðir og eru í byggingu líklega núna einir tveir sumarbústaðir, en þeir eru ekki þar án vitundar Þingvallanefndar og þeir eru ekki byggðir vegna leyfis ábúendanna á þeim jörðum sem þarna er um að ræða.