09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að beina fyrirspurn til staðgengils hæstv. forsrh. út af einu tilteknu atriði og spyrja hvernig á því standi, að þm. fá ekki í hendur áfangaskýrslu starfsskilyrðanefndar sem rn. skipaði. Nefndin sendi frá sér þessa skýrslu, að því er ég best veit, í septembermánuði s. l.

Formaður nefndarinnar er Jóhannes Nordal seðlabankastjóri og í henni munu vera þrír menn auk hans. Á fundi í Félagi ísl. iðnrekenda, sem haldinn var 4. des. til þess að ræða um stöðuna og horfur í iðnaðinum, barst þessi skýrsla í tal. Ég hygg að öllum þm. hafi verið boðið til þessa fundar, en við sátum hann aðeins þrír þm. og einn var inni eina klst. eða svo. Þarna var spurt hvað þessu máli liði, hvað þm. hugsuðu sér að gera og af hverju þeir létu ekkert í sér heyra. Menn urðu nokkuð hvumsa þegar við sögðum að við hefðum ekki fengið að sjá þessa áfangaskýrslu. Okkur er ljóst að hún hefur verið send til nokkurra manna, ég veit ekki hversu margra, framámanna í atvinnurekstri, en þó bítur nú höfuðið af skömminni þegar blöðin eru farin að birta kafla úr skýrslunni eins og átti sér stað í einu dagblaðanna fyrir u. þ. b. 10 dögum.

Athugasemd mín er sú, að ég tel að það eigi engir fyrr að fá að sjá slík verkefni sem þessi, þó að um áfangaskýrslu sé að ræða, en alþm. og auðvitað ríkisstj. Það er hart undir því að liggja að fá ákúrur fyrir það, að þm. taki ekkert við sér þegar slík gögn liggja fyrir, og geta engu svarað á þeim vettvangi öðru en því, að við sem þm. höfum ekki séð þessa skýrslu. Ég ræddi þetta lauslega við staðgengil forsrh. í morgun og sagði honum að ég óskaði eindregið eftir að fá formlegt svar við þessari fsp. Jafnframt leyfi ég mér að gera, a. m. k. fyrir mína hönd, kröfu um að fá þessa skýrslu í hendur, því að ég tel að sem þm. eigi ég ekkert síður rétt á að fá hana í hendur en ýmsir framámenn í atvinnulífi sem hafa haft hana undir höndum undanfarna mánuði.