09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég treysti mér ekki að fullu til að verða við ósk forseta um að blanda hér ekki saman þeim umr., sem fram fóru í gær, og þeim, sem fara fram nú. Þar sem hv. 3. þm. Vestf. hefur hafið þann leik þykir mér rétt að koma hér við skýringum.

Hv. 1. þm. Vestf. og 3. þm. Vestf. vitnuðu báðir í Fréttabréf samvinnumanna og gátu um þá frétt sem þar er og víkur að fiskverði. Sá stóri munur var þó á málflutningi þessara tveggja manna, að annar las upp orðrétt hvað þar stóð og fór rétt með. Það þarf sennilega varla að taka það fram, að það var 1. þm. Vestf. Hinn aftur á móti gjörbreytti merkingu þeirrar greinar sem vitnað var til og fullyrti að þar hefði staðið hvert fiskverð yrði eftir áramót. Það er alrangt . Ég vænti þess, að menn hafi tekið eftir því, hvernig þetta var upp lesið af hv. 1. þm. Vestf. í gær og það þurfi ekki frekari skýringa við.