20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

13. mál, orlofsbúðir fyrir almenning

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Þegar þáltill. á þsk j. 13 er til umr. ætla ég ekki að taka þátt í umr. um Þingvelli eða það sem þar er að gerast, heldur leiða hugann að öðru. Þessi þáltill. er ósköp meinleysisleg að sjá, en kynni að vera leikur í skák. Við vitum að það er deilt töluvert mikið hér á landi um eignarrétt, ýmiss konar eignarrétt á löndum m. a. Það hafa verið umræður og deilur á þessu landi um rétt almennings til að ganga um land annarra manna. Mér virðist að hér séum við komin að stærra deilumáli en ætta mætti e. t. v. með því að lesa þessa till. til þál., enda boðaði frsm. að þetta væri liður í stærra máli. Segir í niðurlagi grg., með leyfi forseta:

„Á þinginu í vetur munu þingmenn Alþfl. flytja þessa stefnu með nýjum hætti — þ. e. í stað þess að flytja hana í formi þáltill. um atmenna stefnumörkun munu þeir flytja mörg sjálfstæð þingmál er lúta að hverjum einstökum þætti þess máls að tryggja þjóðarheildinni afnota- og umgengnisrétt yfir eigin landi,“ segir þar.

Þessi sami flokkur hefur, ef ég man rétt, talið að almenningur ætti að hafa umgengnisrétt yfir allt land. Þetta verðum við að hafa í huga. Ef við setjum þessa byrjun á þskj. 13 upp sem byrjun á tafli gætum við hugsað okkur að frv. til l. á þskj. 14, þar sem sami flm. er að, sé annar leikur í taflinu, einhver biðleikur. Við vitum ekki um áframhald skákarinnar, en við vitum að allar skákir er reynt að tefla til vinnings. Það er að sjálfsögðu ekki maklegt af mér að gera flm. till. upp hugsanir. Ég verð að halda mig við það sem í till. stendur að sjálfsögðu, en ég get ekki varist því að álykta sem svo, að hér séu fyrstu leikir í tafli, eins og boðað er í niðurlagi grg. Ég bendi því mönnum á að skoða stöðuna strax og fylgjast með leiknum. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga þótt nefnd manna sé skipuð til að athuga eitthvert mál, tel það raunar sjálfsagt. En vegna þess að þessi mál hafa verið til umr., þ. e. lítt skorðaður umgengnisréttur manna um land annarra manna, og við vitum að það er deilumál, þá kynnum við kannske að þurfa að leiða hugann að því hvort þetta er ekki þáttur í þeirri umfjöllun.