09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það, sem kemur mér til að takaþátt í þessum umr., eru þau orð ráðh., að hér sé rætt um ráðstöfun gengishagnaðar. Ég skil ekki hvað ráðh. meinar með því, að hér sé um gengishagnað að ræða. Frv. þetta til l., sem er á þskj. 42,42. mál, fjallar um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslensku krónunnar hinn 26. ágúst 1981. Það, sem ég vil undirstrika — ég hef gert það áður úr þessum ræðustól, þá að sjálfsögðu ekki í sambandi við umr. um þetta sérstaka frv. — er að þeir, sem framleiða og flytja út afurðir sem eru undirstaða að velferð og velmegun þjóðarinnar, fá ekki greitt út á sama gengi og aðrir þeir sem fá greiðslu í erlendum gjaldeyri. Það er alveg sama hvaða þjónustugrein er tekin til samanburðar, hvort það eru innflytjendur sem fá greitt fyrir þjónustu sína, aðilar sem fá umboðslaun eða annað, allir þessir aðilar fá greitt út úr bönkunum á daggengi og ekkert dregið frá. En þegar kemur að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar er dregið frá daggenginu og mismunurinn settur í þá sjóði sem Seðlabankinn gerir tillögu um, í þessu tilfelli Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Þetta þýðir að sú prósenta, sem hér um getur og greinir frá eðlilegum greiðslum fyrir gjaldeyrisskil undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar, er ekki fyrir hendi þegar tilkostnaður allur hækkar. Það vantar a. m. k. það sem dregið er frá Verðjöfnunarsjóði til þess að reksturinn á undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar standi í stað, t. d. um orkukaup o. fl. Af hverju er þetta gert?

Ég vil vekja athygli á því að með þessum vinnubrögðum er Seðlabanki Íslands með samþykki ríkisstjórnar Íslands að skapa þörf fyrir nýja gengislækkun, vegna þess að það vantar upp á kostnaðarhliðina hjá fyrirtækjunum af þessum ástæðum. Og þetta er því furðulegra þegar þess er gætt, að við það að tilkostnaðurinn eykst, annaðhvort inniendis eða erlendis, þá skal ríkið alltaf halda sinni prósentuálagningu á allt saman og þar með auka tilkostnað við rekstur og fleira sem þar kemur inn í. Ég vil aðeins benda á þetta atriði. Ég tel að með þessum lögum og með þessum aðgerðum Seðlabankans komi fram slík hugsanavilla í rekstri á þjóðfélaginu að furðu sætir. Aðgerðirnar nær kalla á aðrar keðjuverkandi neikvæðar aðgerðir.