09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. fjallaði um það mál, sem hér liggur fyrir, og vildi svo halda því fram, að hér væri um hliðstæðar aðgerðir að ræða og gerðar hefðu verið t. d. 1978 og fyrr. Þetta er alger misskilningur hjá hæstv. ráðh. Ráðstöfun gengishagnaðar á þessum árum — því að gengi íslensku krónunnar hefur oft verið breytt vegna verðbólgunnar, — ráðstöfun gengishagnaðar var með allt öðrum hætti þá en nú, eins og hann veit mætavel.

Þá var tekin — og löngu áður — sú stefna í fyrsta lagi að bæta þeim, sem yrðu fyrir stórfelldum hækkunum vegna gengisbreytinga á hverjum tíma, t. d. eigendum þeirra fiskiskipa sem skulduðu í erlendum gjaldeyri, lán þeirra hækkuðu við gengisbreytingu þá eins og þau gera nú — þeir fengu hluta gengishagnaðarins til lækkunar á erlendum lánum þannig að þeir yrðu ekki fyrir jafnþungum búsifjum af völdum gengisbreytingar. Nú er þetta ekki gert. Sömuleiðis var sjómönnum ekki heldur gleymt á þeim árum. Þeir fengu ákveðin framlög til lífeyrissjóðs, orlofshúsa o. fl. Það var m. ö. o. viðurkennt þá, að þeir, sem höfðu aflað þessarar útflutningsvöru sem gengishagnaður var á, ættu að fá hlutdeild í þeim hagnaði. Um það mátti þá deila og má enn, hvort þessi skipting hafi verið réttmæt í alla staði. En þá var ekki farið að kalla það félagsmálapakka, þegar sjómenn fengu þetta í sinn hlut, heldur var þetta bara kallað því nafni sem því var ætlað í lögum. Og þetta fengu sjómenn, þetta fengu útgerðarmenn. Það var ekkert verið að mismuna mönnum í þessum efnum. Þetta gekk jafnt yfir öll erlend lán allra skipa og var reiknað út af Fiskveiðasjóði og enginn ágreiningur um.

Nú er alveg gengið fram hjá þessu. En það má líka bæta því við, að nú eru afurðalánin í erlendri mynt. Því er kannske ekki hægt að gagnrýna ráðstöfun þessa gengishagnaðar, að það sé ekkert tillit tekið til hækkunar á erlendum lánum vegna kaupa og smíði fiskiskipa eða til sjómanna. Því ætla ég að láta þá gagnrýni liggja á milli hluta. En væru þessi lán í innlendri mynt, þá mundi ég gagnrýna harðlega þessa heildarráðstöfun.

En þegar við litum á Verðjöfnunarsjóðinn einan, þá er það hörmulegt sem þar hefur skeð og er auðvitað dæmigert hvernig ráðstafanir hafa verið gerðar, ekki eingöngu síðan þessi stjórn kom, heldur s. l. þrjú ár, varðandi Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Það er hreinlega markvisst að því stefnt að gera þann sjóð gjaldþrota.

Á s. l. þremur árum hafa verið greiddar inn í sjóðinn aðeins 17.3 millj. kr. en út úr honum 239 millj. kr. Það þætti ekki góður bankarekstur það. Og þessi þróun á sér stað á sama tíma og verið hefur mjög hagstætt árferði og hagstætt verð á sölu fjölmargra sjávarafurða, m. a. saltfisks og skreiðar. Þrátt fyrir einhver hagstæðustu ytri skilyrði sem hafa verið til saltfisksverkunar og á saltfisksmörkuðum hefur saltfisksframleiðslan ekki verið látin borga neitt á þessu ári í Verðjöfnunarsjóð. Þetta er nú ráðslag í lagi. Ég sagði frá því í áðan og ætla ekki að endurtaka það, hvernig var farið með loðnuafurðirnar. Það var borgað út úr sjóðnum í fyrra.

Það er lítið gagn að því að hafa ríkisstjórnir sem stefna að því að mynda sjóði til þess að eyða þegar áföll verða, ef svo koma svona sandkassakrakkar til þess að stjórna og eyða öllu og sóa. Það er eins og það megi ekki vera nokkurs staðar króna til, svo að það sé ekki tekið og því sé eytt og sóað. Og svo hrökklast þeir frá og aðrir koma sem byrja að safna á nýjan leik og rétta við.

Þetta er sannleikur málsins, hæstv. viðskrh. Ég er ekki að kenna hæstv. viðskrh. um þetta einum, en óneitanlega á hann þó nokkra sök. Það er ekkert gaman að vera í slæmum félagsskap, jafnvel þó að það séu góðir drengir og bestu börn upprunalega sem lenda þar. Og þetta er sannleikur málsins.

Ég skal, hæstv. viðskrh., fjalla um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins við 2. umr. þessa máls. Ég skal sýna ríkisstj. fyllstu sanngirni í því sem eru vandræði sem hún fær kannske ekki að öllu leyti við ráðið. En við vitum að ástæðan fyrir vandræðum freðfiskdeildarinnar er röng gengisskráning. Það er ekki hægt með jafnmikilvæga atvinnugrein, mikilvægustu atvinnugrein landsmanna, frystinguna, að halda áfram á þessari sömu braut.

Við skulum ekki bera þetta saman við það sem gerðist fyrri hluta árs 1974, þegar varð verðfall á okkar mörkuðum í aðalviðskiptalandi okkar með freðfisk, Bandaríkjunum. Það verðfall hélt áfram út það ár allt, allt árið 1975 og fór ekki að rétta við fyrr en á fyrsta fjórðungi ársins 1976. Það var töluvert annað að standa þá frammi fyrir því að rétta við freðfiskdeildina. Því miður tókst okkur það aldrei á árunum 1974–1978. Þetta er höfuðástæðan fyrir því. En aðrar deildir Verðjöfnunarsjóðsins réttu úr kútnum á þessu tímabili vegna þess að þar var ólíkt hagstæðari rekstrarstaða. Allt þetta gerðist þrátt fyrir tíðar gengisbreytingar. Þá voru ekki gengisbreytingar eingöngu af völdum heimatilbúinnar verðbólgu, heldur einnig vegna verðlækkana og áhrifa í okkar viðskiptalöndum.

Við vitum það og þurfum ekkert að vera að pexa um það, að bölvaldur alls þess, sem er að gerast í okkar þjóðfélagi er, að hér er margfalt meiri verðbólga en í okkar viðskiptalöndum. Ef við höldum áfram á þeirri sömu braut er engin önnur lausn á þeim vanda, ef ekki er ráðist á verðbólguna, en að skrá gengi krónunnar rétt hverju sinni. Höfuðvandinn er að vinna bug á verðbólgunni þannig að hún verði ekki meiri hér en í okkar viðskiptalöndum. Þá verður okkar gjaldmiðill traustur, þegar við höfum náð því marki, en fyrr ekki. Við náum því marki ekki með því að reka höfuðið niður í sandinn og segja að þetta sé með allt öðrum hætti en það er. Það getur enginn læknir læknað meinsemd í nokkrum manni, ef hann segir sjálfum sér að viðkomandi sjúklingur sé ekkert lasinn, hann sé alheilbrigður, eins og núv. ríkisstj. segir í sambandi við hið sjúka íslenska efnahagslíf.