09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Þessi umr. hefur breyst nokkuð eins og oft vill verða og ekkert er í sjálfu sér óeðlilegt. Ég vil fara nokkrum orðum um erlendu lánin í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Reykv. og gera grein fyrir því., hvers vegna erlend lán hafa vaxið á undanförnum árum. Það er ekkert nýtt að þau hafi vaxið, en þau hafa vaxið meira núna en áður um sinn og eru ýmsar ástæður sem valda því fyrst og fremst.

Ég vil nefna eina ástæðu sem er okkur gersamlega óviðráðanleg. Það er hækkun vaxta á erlendum lánamörkuðum. Vextir hækkuðu upp undir 20%, þegar þeir voru hæstir í Bandaríkjunum, en geysimikið af okkar erlendu lánum er í dollurum eins og kunnugt er. Þetta hefur valdið því, að greiðslubyrði okkar vegna erlendra lána hefur auðvitað farið verulega vaxandi og það hefur áhrif á okkar stöðu.

Í öðru lagi er þess að geta, að lögð hefur verið mikil áhersla á framkvæmdir í orkumálum og menn hafa að sjálfsögðu stofnað til innlendra skulda vitandi vits vegna þeirra framkvæmda. Það hefur orðið mikill árangur, sem kemur þó til með að skila sér enn þá betur þegar til lengri tíma er litið, eins og t. d. í sambandi við upphitun húsa. Þegar upphitunarstyrkur var tekinn upp fyrst vegna olíuhitunar 1974 voru styrkir samtals 95 þús. Nú eru þeir komnir niður í 25 þús. og verða eftir örskamman tíma komnir niður fyrir 20 þús. Þetta stafar af því, að það hefur verið hraðað gífurlega mikið framkvæmdum m. a. í uppbyggingu og stækkun á hitaveitum. Auðvitað hefur þetta kostað gífurlega mikið fé og það hefur auðvitað aukið á erlendar skuldir í stórum stíl. Þetta hafa menn gert með opin augun. Menn hafa talið skynsamlegt, enda þótt erlendar skuldir ykjust um sinn vegna þessara stórframkvæmda, að ráðast í þær með tilliti til þess, að það mundi skila sér þegar til lengri tíma er litið.

Við höfum lent í erfiðleikum sem hafa haft áhrif á stöðu okkar í gjaldeyrismálum og erlendri skuldastöðu, þar sem eru okkar stórkostlegu erfiðleikar í samgöngumálum við útlönd, hallareksturinn í sambandi við samgöngur við útlönd, sem er gífurlegur eins og kunnugt er. Það hefur þurft að grípa til alveg sérstakra ráðstafana til að bjarga þar við málum og sjá menn þó ekki fram úr því enn þá, hvort því verði bjargað til fulls, en við skulum vona það.

Það kostar náttúrlega mikið fé að halda uppi framkvæmdum og greiða stofnkostnað af Kröfluframkvæmdum. Það kostar mikið fé. Fyrst var þetta greitt úr ríkissjóði, t. d. árið 1979 voru greiddir beint úr ríkissjóði, að því er mig minnir, 2 milljarðar gkr. til þess að greiða fjármagnskostnað við Kröflu. Frá þeim tíma hefur þetta verið tekið að láni vegna þess að virkjunin hefur ekki skilað arði. Þetta eru orðnar býsna miklar fjárhæðir og þetta hefur áhrif í þessum málum einnig. Síðan eru framlög til framkvæmda eins og t. d. til Járnblendiverksmiðjunnar, sem hafa verið veruleg. Ég nefni þetta af handahófi án þess að fara að gera allsherjar úttekt á þessum málum. Það eru margar ástæður fyrir þessu sem eru fullkomlega réttlætanlegar, og verður ekki hægt að gagnrýna ríkisstj. fyrir það.

Varðandi erlend eyðslulán, þá hefur nú ekki verið mikið um þau svo að mér sé kunnugt um. Eitthvað hefur það stundum verið áður, en ekki mikið. Langsamlega mest hefur farið til orkuframkvæmda, til framlaga ríkisins til þess að greiða fjármagnskostnað við Kröflu, til þess að greiða hækkaða vexti, og síðan hafa komið til erfiðleikar í fluginu við útlönd, svo að dæmi séu nefnd.

Viðskiptajöfnuðurinn hjá okkur stendur mjög sómasamlega, vil ég segja. Hann var neikvæður í fyrra um líklega 2.4% af þjóðartekjum, en ég held að óhætt sé að fullyrða að hann verði hagstæðari á þessu ári en hann var í fyrra. Ég skal engu spá um það, hver hann verður endanlega, það kemur í ljós við áramót. En ég held að það séu allar horfur á að hann batni miðað við fyrra ár, ef miðað er við birgðastöðu, og það er miklu betri staða en hægt er að segja um mörg okkar nágranna- og viðskiptalönd sem eiga í miklum erfiðleikum vegna stórkostlegs halla á viðskiptum við útlönd.

Ég vil hins vegar ekki á neinn hátt draga úr því, að það er vandi í efnahagsmálum. Það er mikill vandi í efnahagsmálum hjá þjóð sem býr við 40–50% verðbólgu. Það er engin spurning og ég skal ekki draga neitt úr því að neinu leyti. Og sá vandi fer vaxandi eftir því sem verðbólgan verður lengur svona mikil, m. a. vegna þess að þjóðin sparar ekki nægilega mikið í svona mikilli verðbólgu og það hefur þau áhrif, að menn verða að leita út fyrir landssteinana til þess að taka erlend lán í bráðnauðsynlegar framkvæmdir í stað þess að nota innlendan sparnað. Ég skal ekkert draga úr þeim erfiðleikum. Það er engin ástæða til þess og væri rangt, vegna þess að auðvitað verður þjóðin að vita um og gera sér grein fyrir þeim erfiðleikum sem hún stendur í og fram undan eru til þess að menn taki þátt í því að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leysa þann vanda.

Varðandi þetta sérstaka mál, sem hér er um að ræða, erum við algjörlega ósammála. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé verið að fara svipaða leið og farin var af ríkisstj. hv. 1. þm. Reykv. vorið 1978. Þá var gengishagnaður eða gengismunur gerður upptækur með lögum. Það höfðu stofnast skuldir í freðfiskdeild og loðnudeild Verðjöfnunarsjóðs og gengishagnaðinum var ráðstafað að óskiptu til að greiða upp þessar skuldir. Það var um að ræða tilfærslu frá öðrum greinum til freðfisksins og loðnuvinnslunnar á þeim tíma. Hér er að mínu mati um að ræða mjög hliðstæða stefnu og þá var gripið til. Í báðum tilfellum var um að ræða skammtímaráðstafanir. Það má sjálfsagt deila um það, hvort skynsamlegt sé að leysa mál með þessum hætti um sinn. Menn hafa gripið til þess, en ég get ekki fallist á að hér sé um að ræða nýlundu í þessum efnum, heldur fari menn hér troðnar slóðir.