20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

20. mál, ár aldraðra

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem við þm. Sjálfstfl. flytjum, varðar það, að Alþingi álykti að tileinka árið 1982 málefnum aldraðra. Í sjálfu sér kemur það engum okkar á óvart þótt slík till. sé lögð hér fram því að á liðnum árum hefur orðið mikil umræða um mál aldraðra. Það má segja að með þeirri miklu umræðu, sem hefur orðið á yfirstandandi ári og verður væntanlega, auk aðgerða og framkvæmda, á næsta ári, sé um að ræða uppskeru hjá þeim mönnum sem hafa beitt sér árum saman fyrir framgangi umbóta á þessu sviði.

Ég hef áður minnst á það opinberlega í blaðagrein, að líklega eigi enginn einn Íslendingur frekar lof skilið fyrir árvekni sína á þessu sviði en Gísli Sigurbjörnsson forstjóri á Elliheimilinu Grund, og þykir mér rétt að draga hans nafn sérstaklega fram í þessu sambandi hér svo að það sé skráð í þingsögu okkar.

Við verðum að horfast í augu við það, Íslendingar, að við erum á eftir sumum nágrannaþjóðum okkar á einstökum sviðum í sambandi við þjónustu við aldraða og allan aðbúnað. Það má hins vegar líka segja að við séum á þýðingarmiklu sviði á undan þeim og stöndum þeim framar. Þar á ég við, þótt mörgum þyki á skorta hér heima, atvinnu sem er miklu almennari hjá öldruðu fólki hér á landi en í nágrannalöndum okkar, enda máske skiljanlegt þegar horft er til þess mikla atvinnuleysis sem þar ríkir hjá öllum stéttum þjóðfélagsins. Hér hefur vissulega verið ýmislegt gert til að útvega gömlu fólki vinnu við sitt hæfi, auk þess sem mikil vinnuaflseftirspurn hefur að sjálfsögðu kallað á það til almennra starfa við atvinnuvegi okkar eins og heilsa þess hefur leyft.

Ég tel að þó að við höfum í sumu verið á eftir þeirri þróun sem hefur átt sér stað í nágrannalöndum okkar sé það af því góða, þótt sumum megi virðast undarlegt. Ég á þar við að mér sýnist að oft og tíðum hafi verið farið þar fram af miklu kappi í sumum félagsmálum, en oft með minni forsjá. Ég held einmitt að við Íslendingar getum nú á næstu misserum, þegar við förum að leggja enn meiri þunga á störf á þessum sviðum, lært mikið af þessu. Ég held að þær nágrannaþjóðir okkar, sem einmitt hafa tekið þá afstöðu, séu á þeirri braut sem ég persónulega mundi helst vilja að við Íslendingar gætum komist á og þannig losnað við að falla í sumar þær gryfjur sem hinir kappsömu hafa fallið í á liðnum árum.

Ég sé ekki ástæðu til að þreyta hv. þdm. með því að rekja sögu öldrunarmála hér á Íslandi, enda má segja að hún nái allt til fyrstu búsetu hér á landi. Í sjálfu sér þurfa Íslendingar ekki að skammast sín í neinu í samanburði við aðrar þjóðir fram eftir öllum öldum. En því miður, eins og á mörgum öðrum sviðum, varð okkur á að fara nokkuð aftur úr því sem gerðist hjá öðrum og því má segja að skipulögð öldrunarþjónusta sé ekki nema um 6–7 áratuga gömul hér á landi í þeirri nútímalegu mynd sem við þekkjum hana. Það er nokkurt umhugsunarefni, að einmitt á árinu 1982, á ári aldraðra hér á Íslandi, ef till. þessi verður samþykkt, verður stofnun eins og Elliheimilið Grund 60 ára gömul og á þessu sama ári verður Ás í Hveragerði, sem stofnað var til af Grund og þeim sem þar voru að verki, 30 ára, og á þessu sama ári verður Hrafnista í Reykjavík 25 ára. Þrjár stærstu stofnanir á þessu sviði hér á landi, sem hafa kannske mótað meira í öldrunarmálum en margan grunar, eiga allar merkisafmæli á þessu ári. Það eitt sér væri full ástæða til þess að minna sérstaklega á á Alþingi.

Sú mikla umræða, sem ég vitnaði til, hefur átt sér stað ekki aðeins hér á Alþingi, heldur líka utan Alþingis. Ég minni á að árið 1980 var samþykkt tillaga sem ég flutti með fjölda formanna og forustumanna úr verkalýðshreyfingunni á þingi Alþýðusambandsins það ár, hún var samþykkt shlj. Að vísu hafði önnur till. svipaðs eðlis verið samþykkt fjórum árum áður, en Alþýðusamband Íslands eða miðstjórnin hafði ekkert gert við þá till. í fjögur ár. Skömmu eftir að þessi till. var samþ. 1980 skipaði Alþýðusambandið mþn. til að vinna að þessum málum, og sýnir það nokkuð þá þróun sem hefur orðið innan þessara þýðingarmestu samtaka hér á landi.

Það eru sérlög gildandi um öldrunarþjónustu og sérhannað húsnæði aldraðra, en um húsnæði aldraðra er að sjálfsögðu getið nú í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það eru lög um dvalarheimili frá 1972. Fyrir frumkvæði Magnúsar H. Magnússonar heilbr.- og trmrh. í stjórn Alþfl., jólastjórninni svokölluðu, var nefnd manna að störfum sem samdi frv. um vistunar- og þjónustustörf fyrir aldraða. Það frv., sem var tilbúið skömmu áður en sú stjórn fór frá völdum, fann ekki náð fyrir augum þeirrar ríkisstj. sem þá tók við, og var ráðuneytisstjóra heilbrmrn. falið að semja nýtt frv. sem ekki heldur fann náð fyrir augum hæstv. heilbrrh. Lagði hann eftir samvinnu við samstarfsfólk sitt fram frv. sem hér var til umr. á síðasta þingi, um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða. Um það frv. urðu miklar umr. og því var að lokum vísað til ríkisstj. aftur, en þó var hluti þess frv. tekinn út úr og samþykktur sem sérstök lög: lög um Framkvæmdasjóð aldraðra.

Nú hefur núv. hæstv. heilbrmrh. skipað nýja nefnd til að hefja enn eina smíði frv. á þessu sviði og eiga þar sæti bæði aðilar frá Alþingi og frá ýmsum félagasamtökum, sem láta sig þessi mál skipta, og enn fremur stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, sem þeir skipuðu í sameiningu, hæstv. félmrh. og hæstv. heilbrmrh.

Hér á Alþingi voru á s. l. vetri fleiri mál til umræðu sem varða aldrað fólk. Flutt var hér frv. um sérhannað húsnæði aldraðra. Flutt var frv. um breytingu á lögum um lögheimili sem einmitt fjallaði um þennan þátt, en því miður var gerð breyting á því í Ed., sem eyðilagði tilgang þess, af ástæðum sem ég veit ekki enn hverjar hafa verið. Þá má líka minna á mjög ítarlega og víðfeðma þáltill. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri sem einnig var vísað til ríkisstj.

Öll þessi umræða hér á landi og margt annað, erlendar ráðstefnur sem Íslendingar hafa sótt, ráðstefnur sem hafa verið haldnar hér heima og stofnun nýrra félaga sem þegar eru komin á fót og fjalla um þessi málefni, — allt þetta hefur auðvitað kallað á þá ákvörðun að tímabært væri að hvetja þjóðina til sérstaks átaks á sviði öldrunarmála. Þegar ákveðið var samkv. samþykkt Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 4. des. 1978 að undirbúa heimsráðstefnu um ellimál á árinu 1982 þótti okkur flm. og reyndar fleiri, sem utanþings standa, orðið tímabært að flytja till. hér á Alþingi þess efnis, að Alþingi álykti að tileinka árið 1982 málefnum aldraðra og jafnframt að Alþingi kjósi sjö manna nefnd til að vinna að framgangi þeirra og hún eigi samvinnu við stjórnskipaða nefnd, sem ég hef þegar minnst á, sem vinnur að lagasetningu um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða. Í ályktunartill. segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Skal nefndin vinna að því að meta þörf brýnna átaka og úrbóta auk framtíðarverkefna, bæði staðlægra og á landsmælikvarða, og vinna að fjáröflun og framkvæmdum á þessu sviði.

Stefnt verði að því að ljúka sem flestum verkefnum á ári aldraðra og lagður grundvöllur að þeim sem lengri tíma taka.

Sérstaklega skal lögð áhersla á samvinnu og þátttöku þeirra samtaka, sem vinna að hagsmunamálum aldraðra, og þeirra klúbba og félaga, sem alltaf eru reiðubúin til að leggja mannúðar- og menningarmálum lið.

Í samræmi við ályktun þessa skal hin þingkjörna nefnd skipa undirnefndir til starfa innan landshluta, kjördæma, heilsugæslusvæða eða einstakra sveitarfélaga.“

Samþykkt sú, sem ég vitnaði til, frá Sameinuðu þjóðunum var ítrekuð með ályktun í des. 1980 og þá ætlunin að á þessari ráðstefnu yrði hleypt af stokkunum alþjóðlegri áætlun sem miðaðist við að tryggja efnahagslegt og félagslegt öryggi aldraðs fólks svo og að skapa tækifæri til framlaga í þessum efnum af hálfu einstakra þjóða. Enn fremur samþykkti þing Sameinuðu þjóðanna ályktun sem hafði verið borin fram af efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna, þar sem þess er óskað m. a. að ritarinn undirbúi alþjóðlega framkvæmdaáætlun í samráði við aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna.

Eins og segir í grg. lagði aðalritari Sameinuðu þjóðanna til í dagskrá sinni fyrir atþjóðaráðstefnu um öldrunarmál, að öldrunarmálin skyldu hugleidd í nánum tengslum við þróun efnahags- og félagsmála í heiminum, svo að menn geti gert sér grein fyrir, hve margþætt þau eru, og átti sig á að öldrunarmálin eru vandamál hvers samfélags í heild. Með þetta í huga taldi aðalritari ráðlegt að skipa skyldum málum á alþjóðaráðstefnunni í tvo aðalflokka: mannúðarmál og þróunarmál. Hann lagði hins vegar áherslu á, og það hafa þeir gert sem um þetta mál hafa fjallað í viðkomandi heimalöndum, að þessir tveir málaflokkar væru háðir hvor öðrum og nátengdir innbyrðis. Mannúðarsjónarmiðin hafa áhrif á ýmsa valkosti á sviði þróunar og verða jafnframt fyrir áhrifum af þeim.

Um einstök viðfangsefni innan þessara tveggja aðalmálaflokka er svo fjallað nánar í þessari umræddu dagkrá sem ég hef getið um, og þau eru frekar skilgreind. Þannig eru mannúðarmálin skilgreind sem þau mál sem fjalla um sérstakar þarfir einstaklinga þegar aldurinn færist yfir þá. Þar verður athyglinni einkum beint að heilsufari, húsakosti og umhverfi, félagslegri velferð, tekjum, tryggingum, menntun og fjölskyldumálum, eins og þessi atriði snerta þarfir hinna öldruðu. Þróunarmálin eru þau mál sem fjalla um vandamál tengd „öldrun hópa“ innan samfélagsheildarinnar. Verður þar einkum fjallað um hækkandi aldur þjóða og áhrifin af breyttri aldursflokkaskiptingu á félagslega og efnahagslega þróun og þá einkum í dreifbýli. Þá verður og fjallað um hlutverk aldraðra í þróunarrásinni þar sem þeir eru bæði orsakavaldar og þiggjendur.

Í samræmi við það, sem ég hef getið um hér í sambandi við frv. ríkisstj., sem vísað var til hennar aftur að mestu leyti, og eins þáltill. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þá hef ég og aðrir flm. þessarar þáltill. talið eðlilegt að við þá nefnd, sem situr að störfum á vegum heilbrmrn. eða heilbrmrh., væri haft fullt samstarf, þótt Alþingi kysi þá nefnd sem hér er lagt til að kjósa, og það verði unnið að þeim málum, sem á er bent í einum lið ályktunartillögu Sameinuðu þjóðanna, og jafnframt að þeim málum sem snerta viðkomandi þjóðlönd og þá í þessu tilfelli okkur Íslendinga sérstaklega.

Það, sem er lagt til með þessari till., er þegar hafist handa í okkar nágrannalöndum, á hinum Norðurlöndunum. Þar hafa þegar tekið frumkvæði ýmis frjáls félagasamtök sem eru þar mjög sterk, bæði sterk í sínum heimalöndum og eins á vettvangi Norðurlandanna allra og eins reyndar á vettvangi Evrópusamvinnu. Þessi samtök eiga eftir að láta mjög að sér kveða í sambandi við ráðstefnuna og þau mál sem verða tekin þar til meðferðar. Mín hugsun er sú í sambandi við flutning þessarar till., að okkur takist með þessu að laða til starfa enn fleiri aðila en að þessum málum vinna nú; fáum eitthvað af þeim mikla fjölda sem alltaf er boðinn og búinn að hjálpa til þegar eitthvað bjátar á eða eitthvert verk þarf að vinna. Viðhöfum mörg dæmi um þetta frá liðnum árum — þeim árum sem hafa verið helguð ýmsum málefnum. Við höfum sérstaklega og getum haft sérstaklega í huga framtak ýmissa félagasamtaka með opinberum aðilum og undir þeirra stjórn og í samráði við þá, þótt stundum hafi nokkuð á það skort á því ári sem er að líða, ári fatlaðra.

Ég bendi á í lok grg. að nú er verið að stofna samtök í Reykjavík. Á morgun verður haldinn stofnfundur Öldrunarráðs Íslands sem er sambærilegt við samtök sem starfa í nágrannalöndum okkar og hafa þar orðið öflug. Í þeim samtökum eru ekki aðeins áhugamenn, heldur og aldraðir menn sjálfir. Það hefur nefnilega oft og tíðum vantað rödd aldraðra sjálfa í umræður hjá mönnum sem fjalla um af góðum hug, vil ég segja og hafa fjallað um hvað eigi að gera fyrir aldraða, hvernig eigi að búa að þeim. Ég held einmitt að í slíkum félagsskap, þar sem sterkari aðilar eru til hjálpar og leiðbeiningar og til þess að taka mál þeirra upp, geti almenningur, þing og sveitarstjórnir fengið að heyra raddir þeirra frekar en ella. Í grg. bendi ég á að ég telji sjálfsagt að slíkir aðilar verði kallaðir til. Með flutningi þessarar till. og samþykkt hennar verða hæg heimatökin fyrir þingflokka að kalla til slíkt áhugafólk og fulltrúa aldraðra sjálfra úr þeirra félögum til að móta það sem gera þarf. Við leggjum jafnframt til að undirnefndir verði skipaðar sem snúi sér að staðbundnum verkefnum, sem bæði er verið að vinna að og æskilegt væri að komast sem lengst með í allra nánustu framtíð. Við, sem flytjum þessa þáltill., höfum trú á að samþykkt hennar og aðgerðir í samræmi við hana geti orðið til að koma af stað slíkri hreyfingu um allt land. Það er víða vel að verki staðið og margt gott hefur þar verið gert á undanförnum árum. En ég hef þá trú, að með slíkri samstöðu og samvinnu aðila frjálsra félagasamtaka með opinberum aðilum getum við stigið stór og merk spor fram á við í þessum málum. Ég held einmitt að það sé kominn rétti tíminn til að fara þá leið nú.

Herra forseti. Það hefur verið ákveðið að tvær umr. skuli verða um þessa þáltill., og ég legg til að þegar þessari umr. verður lokið verði málinu vísað til hv. allshn.