10.12.1981
Neðri deild: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

96. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það má til sanns vegar færa að gjöld á innfluttar hljómplötur, vörugjöld og tollar, séu óeðlilega há. Þetta sjónarmið hefur m. a. komið fram í mínum flokki og á þar miklu fylgi að fagna. En það má vissulega benda á, að heildarinnflutningsgjöld á mörgum vörutegundum eru allt of há. T. d. má nefna algeng heimilistæki og búsáhöld og margt fleira sem ekki getur talist til sérstakra lúxusvara. Ég held að óhjákvæmilegt sé að stefna að því, að þessi háu gjöld verði lækkuð, en hitt er augljóst, að þarna er um verulega fjármuni að ræða og verður ekki auðvelt að leggja þessi gjöld niður öðruvísi en til þess sé hugsað að afla annarra tekna í staðinn eða að lækka útgjöld ríkisins með öðrum hætti. Það er auðvitað algert ábyrgðarleysi að koma með till. um stórfellda lækkun á ríkisútgjöldum án þess að einhver grein sé gerð fyrir því, hvernig á að afla tekna í staðinn eða hvað á að skera niður í staðinn.

Ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, að þessi mál hafa verið til athugunar. Það er sérstök nefnd að vinna að jöfnun á innflutningsgjöldum, og ég vænti þess, að árangur verði að því starfi innan tíðar. En meðan niðurstaða liggur ekki fyrir af þeirra athugun er algerlega ótímabært að taka þennan sérstaka vöruflokk út úr án þess að aflað sé þá annarra tekna á móti eða einhver frekari grein gerð fyrir hvernig á að fylla það skarð sem þarna myndast. Því segi ég nei.