10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að það skuli koma fram hjá formanni þingflokks Alþb. að þeir Alþb.-menn hafi tekið tillit til þeirra ábendinga minna að hvetja þá til að sinna frekar þingskyldum sínum, bæði ráðh. og óbreytta þm., en þeir hafa gert á umliðnum vikum, þegar þeir hafa nánast vart sést í þingsalnum nema þegar þingfundir hafa verið settir. Hins vegar virðist það vera alger forsenda þess, að Alþb.-menn sitji á fundum, að hv. formaður þingflokks Alþb. taki alls ekki til máls, því að vart hafði hann stigið í ræðustól þegar flestallir þeir þm. Alþb., utan tveir, sem í salnum voru þegar hann hóf sína ræðu, viku af fundi. Á meðan hv. þm. flutti ræðu sína komu þessir þm. og fleiri Alþb.- menn nokkrum sinnum í gættina, en um leið og þeir sáu hver í stólnum stóð og flutti tölu hurfu þeir á braut. Forsenda þess, að þm. Alþb. sinni þingskyldum sínum og sitji hér á fundum, virðist sem sé vera sú, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., flytji ekki ræður hér í þinginu. Vænti ég þess, að það hafi verið ákveðið nokkuð jafnsnemma af þeim Alþb.-mönnum að ráðherrar og þm. Alþb. tækju á ný að sinna þingskyldum sínum hér á Alþingi og að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks þeirra, talaði ekki mjög mikið, mjög oft og mjög lengi hér á Alþingi Íslendinga.

Hins vegar vil ég aðeins vekja athygli á því, að hv. þm. Eiður Guðnason spurði þingflokksformann Alþb. einnar spurningar. Hann spurði þingflokksformanninn að því, hvort ræða sú, sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir flutti hér, þar sem hún kynnti sína afstöðu, væri til marks um afstöðu Alþb. eða ekki. Formaður þingflokks Alþb. var spurður þeirrar einföldu spurningar, hvort þm. Guðrún Helgadóttir túlkaði stefnu Alþb. í málinu eða hvort hún gerði það ekki. Hv. þm., formaður þingflokks Alþb., kvaddi sér þegar í stað hljóðs og sú fsp. hafði verið borin fram og flutt langa ræðu. En ég heyrði ekki annað en hann forðaðist að svara þeirri fsp. sem til hans var beint. Hann hefur kannske í öllum orðaflaumnum gleymt fsp. og er þá skiljanlegt að hv. þm. hafi ekki svarað henni. Þess vegna vil ég endurtaka þá fsp. sem hv. þm. Eiður Guðnason bar fram til þingflokksformanns Alþb.: Var hv. þm. Guðrún Helgadóttir í ræðu sinni að lýsa afstöðu þingflokks Alþb. til þessa máls? Ef hún var ekki að gera það, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, hver er þá afstaða þingflokks Alþb.?

Um ferðir erlendra kafbáta við strendur annarra landa vitum við þm. Alþfl. ekki meira en við lesum í fréttum. Hins vegar er formaður þingflokks Alþb. landskunnur heimshornaflakkari og er rétt nýlega kominn úr ferð til útlanda, þannig að fyrst í morgun var hægt að taka til við nefndarstörf í fjh.- og viðskn. Ed. þingsins um mál sem lögum samkv. ber að afgreiða fyrir jól. Hv. þm., sem dvelst svo mjög erlendis og er nýkominn að utan, gæti e. t. v. frætt þingheim eitthvað um ferðir erlendra kafbáta meðfram ströndum annarra landa.