10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þessar umr. hafa verið fróðlegar og hafa leitt margt í ljós í sambandi við okkar olíu- og orkumál og það er ekki að ófyrirsynju. Hér er um að ræða mjög stóran og þýðingarmikinn málaflokk, sem skiptir mjög verulegu máli í öllum lífskjörum landsmanna.

Á árinu 1979 gerðist það, að olíuverð margfaldaðist þannig að við urðum að verja 20% af útflutningstekjum okkar til innkaupa á olíu í staðinn fyrir 10% áður. Þar var um að ræða efnahagslegt högg sem þjóðarbúið varð fyrir og var mjög tilfinnanlegt og var mjög erfitt fyrir þjóðina að glíma við og hafði alvarleg áhrif á alla efnahagþróun, kaup og kjör í landinu líka, og m. a. á verðbólguþróun, þetta gerði þeirri ríkisstj., sem þá sat í landinu, mjög erfitt fyrir hvað það mál varðar, eins og kunnugt er, og varð síðan til þess að einn af þáverandi stjórnarflokkum sprakk á limminu á haustdögum 1979.

Varðandi það mál sem hér hefur verið rætt um, hefur mér stundum fundist eins og menn telji sjálfgefið að Íslendingar eigi skýlaust, þegar svona mál koma upp, að segja: Já, takk. Við eigum að ganga inn í þessa stofnun. Menn eigi í raun og veru ekki að þurfa að rökstyðja það mikið vegna þess að ýmsar aðrar þjóðir séu þegar orðnar þarna aðilar og vegna þess að Alþb. sé á móti því. Það eru þau meginrök sem hv. þm. Geir Hallgrímsson hefur yfirleitt þegar hann talar um mál af þessum toga hér á Alþingi t. d. Það eru alveg nægjanleg rök, að ef Alþb. sé andvígt einhverju máli hljóti hv. þm. Geir Hallgrímsson að vera með því.

Varðandi þetta mál efnislega vil ég segja það, að það eru tvö meginatriði sem hafa verið borin fram sem rök sem ég tel fullgild í málinu. Annað er birgðahald á olíu og hitt er aðgangur að upplýsingarstreymi, aðgangur að upplýsingum í sambandi við þróun olíu- og orkumála í heiminum. Ég verð að segja það, að ég hef ekki séð neitt sem útilokar að við getum tryggt þetta hvort tveggja þó að við séum ekki aðilar að Alþjóðaorkustofnuninni. Ég held að við getum vel tryggt auknar birgðir í landinu af olíu þó að við séum ekki aðilar að þessari stofnun. Spurningin þar er um hver á að borga kostnaðinn við birgðahaldið, hvernig það á að dreifast á olíunotendur í landinu á hverjum tíma. Það er ljóst að það kostar mjög verulegar upphæðir ef við ætlum t. d. að tvöfalda birgðarými og tvöfalda brigðir hér í landinu. Það eru mjög verulegar upphæðir í fjármagnskostnaði sem menn þurfa þá að horfa framan í.

Við í Alþb. höfum að okkar leyti langt frá því hafnað þeim möguleika að við stóraukum birgðir okkar af olíu. Þvert á móti. Ég minni á að hæstv. núv. fjmrh. flutti um það frv. hér á Alþingi hvað eftir annað fyrir nokkrum árum að Íslendingar kæmu sér upp auknu birgðarými og auknum birgðum af olíu. Það varð ekki vart við það þá, að hv. þm. úr öðrum flokkum sýndu þessu máli verulegan áhuga, því miður. Ég held að slík ákvörðun hefði betur verið tekin fyrir alllöngu. Ég tel að hún sé brýn, að við reynum að birgja okkur upp í þessum efnum. En þá þurfum við að svara þeirri spurningu um leið, hver á að bera kostnaðinn. Kostnaðurinn verður í raun ekki borinn uppi öðruvísi en í olíuverðinu sjálfu. Þá yrðu menn að taka ákvörðun um að hækka mjög verulega olíuverð. Menn þurfa þá að horfa framan í þá ákvörðun. Það hefur ekki bara áhrif á lífskjörin, á vísitöluna á hverjum tíma, vegna þess að þetta er ekki aðeins spurningin um bensínið, heldur er þetta líka og sérstaklega spurning um gasolíu og svartolíu fyrir fiskiskipaflota okkar. Þetta er annað atriðið sem menn hreyfa sem rökum.

Hitt atriðið, sem menn nefna sem rök í þessu efni, er aðgangur að upplýsingum í orkumálum. Ég segi: Er það fullvíst að ekki sé hægt að ná þessum upplýsingum með öðrum hætti en að gerast einmitt aðili að þessari stofnun? Ekkert hefur komið fram um að það sé ekki hægt að ná þessum upplýsingum t. d. í tengslum við OECD og það orkumálasamstarf, sem þar er um að ræða og orkumálaumræður, eða aðrar alþjóðlegar stofnanir, sem Íslendingar eru aðilar að eða eiga aðgang að, t. d. Sameinuðu þjóðirnar ellegar Norðurlandaráð. Þess vegna finnst mér að menn geti ekki gefið sér að við hljótum að verða aðilar að þessari stofnun af þeim ástæðum sem hér hafa verið nefndar og eru oftast bornar fram sem rök.

Hvað er það þá fyrst og fremst sem er á móti því, að Íslendingar verði aðilar að þessari stofnun? Ég tel að það sé fyrst og fremst á móti aðild að þessari stofnun, sem nefnt hefur verið, að hún er þannig skipulögð, að ef einhver þjóð er þar aðili gefur það öðrum þjóðum kost á íhlutun um hvernig ráðstöfun birgða verður hagað á tímum þegar um er að ræða þrengingar eða neyðarráðstafanir. Ég tel að þetta sé mál sem við þurfum að athuga mjög vandlega, og mér finnst það satt að segja ekki ábyrg afstaða að slá því föstu að við getum samþykkt hér og nú fyrirvara- og skilyrðislaust till. eins og þessa: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni.“ Ég gæti ekki samþykkt svona tillögu. Ég get ekki annað en greitt atkv. á móti till. eins og hún er hér. Hins vegar vil ég ekki útiloka að við getum samið þarna um skilyrði sem væru aðgengileg fyrir Íslendinga, en það þurfum við að athuga mjög vandlega. En till. eins og þessa gæti ég ekki samþykki fyrir mitt leyti. Það er útilokað.

Varðandi þau mál önnur, sem hér hafa verið rædd, hefur margt fróðlegt komið fram. Það, sem ýtti við mér að koma upp í stólinn, var m. a. ákveðin setning Sem hv. 1. þm. Reykv. viðhafði áðan um Alþb. Það kemur fyrir aftur og aftur í umr. hér á hv. Alþingi, að þegar rætt er um Alþb. og afstöðu þess segir hv. 1. þm. Reykv., sem hefur gegnt forsætisráðherrastarfi í þessu ríki um fjögurra ára skeið, að það sé í raun og veru hneyksli og fráleitt að taka mark á Alþb. Innan við fimmtungur þjóðarinnar, segir hann aftur og aftur, þessi hv. þm., og á þá við að það sé fráleitt í rauninni að gera við Alþb. nokkra samninga um nokkurn skapaðan hlut í stjórnmálum þessa lands. Hér er um að ræða ólýðræðislegt viðhorf, ólýðræðislegt og forkastanlegt viðhorf, sem á rætur að tekja til kaldastríðstímans þegar þessi hv. þm. meðtók uppeldi sitt í stjórnmálaskólum Heimdallar. Hér er um að ræða það viðhorf, að við flokk, sem hefur á bak við sig jafnvíðtækan stuðning og Alþb., sem fer vonandi vaxandi, eigi ekki að tala í sambandi við stjórn landsins á hverjum tíma og það sé í raun og veru fráleitt að slíkur flokkur sé hafður með í ráðum nokkurs staðar. Ég ætla ekki að lýsa þeirri fyrirlitningu sem ég tel að komi fram í þessari afstöðu þm., ekki aðeins á okkar lýðræðislega þjóðskipulagi á Íslandi, heldur einnig á einstökum alþm. Ég segi: Hver einasti einn alþm. hefur sinn lýðræðislega rétt, þó að hann sé ekki nema 1/60 partur af löggjafarsamkomu þjóðarinnar. (Gripið fram í.) 1/60 partur. Þetta grundvallaratriði eiga menn að hafa í huga.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem iðkar aðallega pólitísk afskipti á Alþingi með frammíköllum, er hins vegar annarrar skoðunar, þeirrar sömu og hv. 1. þm. Reykv., að það eigi að útiloka þm. Alþb. sem kosnir eru með lýðræðislegum hætti. Þessi viðhorf sýna fyrirlitningu á lýðræðislegum grundvallaratriðum þessa þjóðfélags. Ég hlýt að fordæma þessi viðhorf vegna þess að þau eiga ekkert skylt við þau meginatriði mannhelgi og virðingar fyrir mannréttindum sem samfélag okkar á að byggjast á. Ég get vel skilið að menn eins og hv. þm. Geir Hallgrímsson eða hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson telji stundum að fjármagnið eigi að hafa hér meiri rétt en maðurinn, að fjármagnið eigi að meta meira en fólkið og vald fjármagnsins, vald hlutabréfanna sé meira virði en áhrif og lýðræðislegur réttur fólksins. Ég er ósammála þeim sjónarmiðum. Ég stóð hér upp vegna þess að ég andmæli enn og aftur þeim ólýðræðislegu sjónarmiðum sem aftur og aftur koma fram hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni í garð Alþb.

Á kaldastríðsárunum þótti það góð latína hér á hv. Alþingi að útiloka Alþb. og Sósíalistaflokkinn frá aðild að ýmsum nefndum þingsins, utanrmn. m. a. Þegar þessir flokkar, sem skreyta sig með nafninu „lýðræðisflokkarnir þrír“ ætluðu að vera allra lýðræðislegastir létu þeir kjósa til Norðurlandaráðs í báðum deildum þingsins, í sitt hvorri deildinni, til þess að það væri tryggt að sósíalistar kæmust ekki í Norðurlandaráð. Aftur og aftur, þegar fjallað hefur verið um utanríkismál á hv. Alþingi, hafa þessir menn komið hér upp með yfirlýsingar eins og þær, að það sé fráleitt að rætt skuli vera við Alþb. um utanríkismál, þegar þó skyldi ætla að það ætti að vera skylda hvers einasta alþm., sem tekur sitt starf sæmilega alvarlega, að stuðla að sem víðtækastri umræðu og helst sem víðtækastri samstöðu um þau mál sem fjallað er um á hverjum tíma gagnvart öðrum þjóðum. Það kæra þessir hv. þm. sig ekki um sem skreyta sig með nafni lýðræðisflokkanna þriggja. Þeir hika ekki við að fótumtroða grundvallarsjónarmið lýðræðisins ef það má verða til þess að halda Alþb. utan við áhrif í íslenska þjóðfélaginu.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson vék síðan að því kraftaverki, sem hann vann sumarið 1979 þegar hann telur sig hafa bjargað því hneyksli í olíumálum sem ég hafði verið skrifaður fyrir þá hann hafi í raun og veru verið sá maður sem leiddi þjóðina gæfuveginn þrátt fyrir að á viðskrh. stóli sæti maður af mínu tagi. Geir Hallgrímsson má gjarnan þakka sér eitt og annað. Hann má gjarnan gera það og sjálfsagt veitir hv. þm. ekki af. Ég ætla ekki að fara að taka eitt eða neitt af honum í þeim efnum. En ég vil minna á að það hefði verið bókstaflega hættulegt ef við hefðum á árinu 1979, eins og sviptingarnar voru þá í olíuheiminum, rofið viðskiptatengslin við Sovétríkin án þess að vera áður búnir að tryggja okkur jafnhagstæð og jafnörugg olíuviðskipti. slík pólitík — að rjúfa þannig áratugagömul viðskiptasambönd — hefði verið ábyrgðarlaus ævintýrapólitík og alveg fráleit. Hitt hefur alltaf verið mín skoðun í þessum efnum, að Íslendingar eigi að haga innkaupum sínum á olíu þannig að þeir séu ekki einum aðila háðir. Hann má ekki heita Sovétríkin, hann á ekki að heita Noregur, hann á ekki að heita Bretland. Við eigum ekki að vera einum aðila háðir. Við þurfum að haga okkar olíuinnkaupastefnu þannig að við getum sem víðast leitað fanga. Það er mitt grundvallarsjónarmið í þessum efnum. En það er tiltölulega auðvelt að halda slíku sjónarmiði fram á tímum eins og núna þegar ekki er mjög mikil spenna í olíuviðskiptum. T. d. höfum við á þessu ári getað keypt einstaka farma af bensíni og olíu af vestrænum olíufélögum. Við höfum keypt olíu frá Portúgal o. s. frv. En það er mjög erfitt að ná slíkum samningum við marga aðila þegar spenna er í olíuviðskiptaheiminum, eins og var á árinu 1979. Þess vegna þarf að halda þannig á olíukaupamálum Íslendinga á tímum eins og þeim sem nú eru, að við undirbúum að við getum tekið á móti þeim tímum þegar spennan er mest í þessum efnum og þurfum þá ekki að vera einum sérstökum aðila háðir. Það má ekki verða. Lægð eins og nú er í olíuviðskiptaheiminum er heppilegur tími að mínu mati til að undirbúa að við getum tryggt að við getum leitað sem víðast fanga þegar þrengir að á þessu sviði.

Auðvitað var það ekki þannig á árinu 1979, eins og hv. þm. Geir Hallgrímsson lét liggja að áðan, að við værum í rauninni að pína Íslendinga til að skipta við sovétríkin á því ári. Ég er sannfærður um að við gátum losað okkur við þau viðskipti hvenær sem var. En það alvarlega, sem við stóðum frammi fyrir á árinu 1979 í þessum efnum, var að á stjórnartíma ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar 1974–1978 var ekkert gert til að tryggja Íslendingum sæmilega traustan aðgang að olíuviðskiptum víðar í heiminum en einmitt í sovétríkjunum. Enginn slíkur undirbúningur hafði farið fram. Ekkert hafði verið gert af ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar heldur til að tryggja olíubirgðarými hér í landinu. Það var sá alvarlegi vandi sem við stóðum frammi fyrir. Þarna leið tími andvaraleysis. Það var ekkert gert. Svo öskruðu menn 1979, þegar vandinn kom upp: Nú skulum við rjúfa þessi viðskiptatengsl við Sovétríkin. — Á því ári hefði slíkt verið óábyrg ævintýrapólitík eins og sakir stóðu. En ég endurtek: Nú tel ég að við eigum að nota þá lægð, sem með vissum hætti er í olíuviðskiptaheiminum, til að búa okkur undir að við getum tekist á við vanda eins og þann sem upp kom 1979 og 1973 því að slíkur vandi getur komið upp hvenær sem er.

Því er spáð núna, að það líði ekki mjög mörg ár þangað til verð á olíuvörum fari mjög verulega hækkandi. Ég nefndi áðan að verðið hefði tvöfaldast í raun miðið við útflutningstekjur okkar á árinu 1979. Því er spáð, að verðið fari enn hækkandi. Ég veit að hv. þm. átta sig á því, hvað það getur þýtt fyrir þjóðarbú okkar ef olíuverðið fer eins hækkandi þegar staðan er þannig að 20% af tekjum fiskiskipaflotans, 20%, fimmti hver fiskur, fara í að borga olíu eins og sakir standa. Ef olíuverð á eftir að hækka í raun mjög verulega sjáum við allir á þessum stað hvaða afleiðingar það getur haft fyrir þjóðarbú okkar og lífskjör. Undir það þurfum við að búa okkur og undir það hefur núv. hæstv. ríkisstj. búið þjóðina með vissum og ákveðnum hætti með þeim ákvörðunum sem liggja þegar fyrir að því er varðar orkumál. Meginatriði þessara mála er að Íslendingar verði sjálfstæðir í orkumálum um næstu aldamót þannig að þar getum við staðið á eigin fótum og þurfum ekki að verða neinum einum háðir í þeim efnum.