10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði réttilega að þessar umr. væru komnar á kaldastríðs- og dellustig. En ég legg það í dóm hv. þm. hver það er sem hefur komið þessum umr. á dellustigið. Ég veit ekki betur en það sé hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Það var hann sem byrjaði fyrst að tala um kafbáta. Og úr því að hann talar um kafbáta má geta sér þess til, hvað þessi mesti loftbelgur meðal alþm. hefur vit á kafbátum. Skýringin er sjálfsagt fólgin í því, að innan flokka þeirra, sem hann hefur starfað í, er hann hinn mesti kafbátur að sögn samherja sinna á hverjum tíma. En í málflutningi sínum hér á Alþingi á hann það sammerki með loftbelg að það er nóg að stinga hann með títuprjóni og þá er allur vindur úr honum.

Það var merkilegt og sýnir umræðustig hv. þm., að hann tilgreinir Bretland sem sitt uppáhaldsland, jafnvel umfram fósturjörðina. En látum það vera. Forsendurnar, ástæðurnar voru alveg með eindæmum. Hann tilgreindi tvær. Önnur var sú, að þaðan hefði fjölskyldufyrirtæki mitt flutt inn vörur sem það hefði grætt mest á. Hin ástæðan var að í Bretlandi væri einmitt verið að reyna leiftursóknina. Vel vissi ég um umhyggju og velvild hv. þm. í minn garð og áhyggjur hans af fjárhagsafkomu minni og fjölskyldu minnar. Og ekki ber að draga í efa heldur að honum er umhugað um tilraunina með leiftursóknina. Hann hefur áhuga á leiftursókninni, enda er jafnvel sagt sem svo að að sumu leyti líkist stefna núv. ríkisstj. á Íslandi í nokkrum tilbrigðum stefnu ríkisstj. í Bretlandi. En ég held því miður að það sé helst í þeim tilvikum sem síst skyldi.

Þessi hv. þm. fór að tala um tillögur þær sem ég flutti við stjórnarmyndunartilraunir í janúarmánuði 1980, og hv, þm. vitnaði í leiðara Tímans í dag. Ég efast nú um að hv. þm. sé reiðubúinn að vitna í leiðara Tímans upp á hvern dag, vegna þess að leiðarahöfundur Tímans annars vegar og Þjóðviljans hins vegar berast nú á banaspjótum um stefnumótun ríkisstj. í yfirstandandi deilum um efnahagsmál. En úr því að hann telur sér ávinning í því að vitna í leiðara Þórarins Þórarinssonar í Tímanum í dag, þá má segja sem svo, að þær tillögur, sem ég flutti við stjórnarmyndunartilraunirnar í ársbyrjun 1980, hafi verið að efni til samkv. mati Þjóðhagsstofnunar þá til þess fallnar, ef í framkvæmd hefðu komist, að koma verðbólgustiginu niður í 26–30% þegar haustið 1980. Og það er víst og öruggt, að kaupmáttur verkafólks hefði verið meiri, ef þær tillögur hefðu komist í framkvæmd, heldur en raun ber vitni nú. Ég er því mjög fús að gangast við þessum tillögum og ákaflega ánægður með að þær skuli komast til umræðu., einkum og sér í lagi þegar haft er í huga hvert stefnir nú í verðbólgu- og efnahagsmálum. (Gripið fram í.) Það er ég sem hef orðið. Ég vænti þess, að forseti sjái til þess, að ég hafi frið til að flytja mína ræðu. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson þarf ekki að vera svo ókyrr undir orðum mínum eða ræðu að hann þurfi að taka fram í fyrir mér.

Hv. þm. nefndi það að ég hefði farið utan til að sækja fund einn dag og hefði tekið mér hálfs mánaðar frí. Mála sannast er að þessi fundur var fundur þm. í EFTA-ríkjunum til þess að hitta þm. í Efnahagsbandalagsríkjunum. Þessir fundir stóðu í þrjá daga og fundarsóknin tók með ferðalögum heila vinnuviku. Við erum hér tveir þm. íslenskir sem tökum þátt í þessu samstarfi. Það er hæstv. forseti Sþ., Jón Helgason, og ég. Við gerðum báðir það sama, að taka okkur leyfi frá störfum í tvær vikur, sem er skemmsti tími sem þm. geta tekið sér leyfi. Og við gerðum báðir það sama, að taka varamann inn í staðinn fyrir okkur. Ég held að það sé sæmra að taka inn varamann, sem gegnir störfum þm., heldur en að fara á flandur út um lönd og taka ekki inn varamann í sinn stað sem gæti þá gegnt skyldustörfum þm. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem formaður þingflokks Alþb. hefur vanrækt það ásamt með formanni þingflokks framsóknarmanna og ásamt með ríkisstj. í heild sinni að ráðgast við stjórnarandstöðuna hvernig haga skuli þingstörfum nú áður en til jólaleyfis kemur. Það var gagnrýnt hér á fundum í fyrradag og raunar einnig nokkuð í gær.

Það er svo sem ekki að furða að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kveinki sér við það, að ég tók inn varamann í minn stað. Varamaðurinn, frú Ragnhildur Helgadóttir, hirti hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, að því er mér er tjáð, í umr. um utanríkismál. Það er von að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kveinki sér. Það furðar sig enginn á því sem hlustaði á umr., eftir því sem mér er sagt.

Þá sagði hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson að afskipti mín af olíuviðskiptamálum hefðu reynst þjóðinni dýr. En hann bætti við: ekki vegna þess að ég væri höfundur að stofnun og tilkomu olíuviðskiptanefndar. Nei, það var ekki vegna þess, heldur vegna ákvörðunar ríkisstj. í olíuviðskiptum annars vegar og vegna skrifa minna og viðtals um olíuviðskipti hins vegar. Ég vildi gjarnan verja nokkrum tíma ásamt með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og fá jafnvel sérfróða menn til að reikna út hver ábatinn eða tapið var af því sem farið var eftir mínum tillögum. Ég er ánægður með að vera talinn höfundur að stofnun olíuviðskiptanefndar. Ég er ekki síst ánægður yfir því eftir ræðu hæstv. félmrh. sem ítrekaði það, að stefna sú, sem ég boðaði með tillögu um stofnun olíuviðskiptanefndar, að við yrðum að eiga fleiri kosta völ í olíuviðskiptum en viðskipti við Sovétríkin ein, hefur nú hlotið samþykki og fylgi jafnvel Alþb.-manna sem þangað til þessi olíuviðskiptanefnd var komin á fót einblindu svo á Sovétríkin í þessum efnum — sem og í svo mörgum öðrum efnum — að þeir gátu ekki hugsað sér neitt annað. En batnandi mönnum er best að lifa og við skulum vona að þessi bati sé varanlegur. En ég held að til þess að svo sé þurfi þeir Alþb. enn töluvert aðhald.

Þá var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson að spyrja mig um afstöðu mína til hugmynda Alberts Guðmundssonar, þeirra er hann flutti í utanrmn. og hann skýrði hér áðan. Albert Guðmundsson hefur svarað þeirri fyrirspurn hvað mig snertir. En það kom greinilega fram í ræðu hv. þm. Alberts Guðmundssonar að málið strandaði á ríkisstj., þeirri ríkisstj. sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson styður og er málsvari fyrir. Þess vegna réð ríkisstj. úrslitum, enda er það ekki á verksviði utanrmn. að kveða á um hvert beina skuli olíukaupum. Það ætti hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson að vita.

Það er merkilegur útúrsnúningur sem hæstv. félmrh. viðhefur hér þegar hann heldur því fram, að mín orð í ræðu hér fyrr í dag hafi átt að túlka sem svo, að ég vildi alls ekkert tillit taka til nær 20% þjóðarinnar eða 11 þingmanna Alþb. af 60 þingmönnum. Það, sem ég sagði, var að 20% þjóðarinnar eða minna en fimmtungur þjóðarinnar ætti ekki að ráða ferðinni gegn vilja yfir 80% þjóðarinnar, að 11 þingmenn Alþb. ættu ekki að hafa neitunarvald þegar 49 þingmenn væru sammála um að koma máli í framkvæmd. En það er þetta merkilega lýðræði sem hefur verið komið á. Og þá er það „lýðræði“, eins og þeim Alþb.-mönnum og sósíalistum er svo tamt að nota orðið, að minni hlutinn eigi að ráða ferðinni og minni hlutinn eigi að hafa stöðvunarvald. Það er þetta fyrirkomulag sem núv. ríkisstj. hefur undirgengist með leynisamningnum alkunna. Ef Alþb. sem minnihlutaaðili á Alþingi eða í ríkisstj. fellir sig ekki við að mál nái fram að ganga, þá er það rétt þingræðis- og lýðræðisregla, að Alþb. geri upp við sig hvort það vill starfa áfram í ríkisstj. eða segja af sér ráðherraembættum. En það á ekki að hafa vald til þess að stöðva framgang mála sem meiri hluti þingmanna fylgir. Og ég treysti því bæði hvað snertir það mál, sem nú er á dagskrá, og önnur mál sem mikilvæg eru fyrir íslenska þjóð, að það takist ekki að beita þessari einkennilegu „lýðræðis“ -reglu og set ég þá það orð enn á ný innan gæsalappa. Það er auðvitað gamall og nýr leikur kommúnista að nota almenn orð í allt annarri merkingu til þess að villa mönnum sýn. Svo hættulegt og skaðlegt sem það út af fyrir sig er, þá er þó enn hættulegra og skaðlegra ef þeim tekst í framkvæmd það sem þeir hafa þó ekki komist upp með í lýðræðisríkjum nema í orði hingað til. Það er þessi tvískinnungur og skilgreining orða og hugtaka sem er nógu skaðlegt í orði þótt þeir komist ekki upp með það í framkvæmd.

Það má geta sér nærri um það, hvernig kommúnistar mundu hegða sér ef þeir væru 49 á þingi og ættu 11 andstæðinga. Þeir mundu ekki taka neitt tillit til þessara 11 þingmanna af 60 ef staða þeirra væri orðin svo sterk. En sem betur fer er ekkert útlit fyrir að fylgi kommúnista vaxi. Þess eru engin dæmi að kommúnistar hafi náð meiri hluta þar sem lýðræði ríkir. Það er eingöngu þar sem þeir hafa komist til valda með ofbeldi sem þeir nú ráða. En við skulum vera á verði gegn undirróðursstarfsemi þeirra, gegn ólýðræðislegum vinnubrögðum. Og við skulum umfram allt gæta sóma og virðingar Alþingis og þess, að meirihlutavilji Alþingis fái að njóta sín og ráða ferðinni, en ekki örlítill minni hluti, eins og um er að ræða þegar núv. ríkisstj. á í hlut.

Hæstv. félmrh. og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ítrekuðu báðir að þeir væru ekki búnir að gera upp hug sinn varðandi aðild að Alþjóðaorkustofnuninni, gagnstætt því sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir tilkynnti þingheimi, að hún væri andvíg þeirri aðild. Þess vegna gegnir það meiri furðu hve þessir þm., hæstv. ráðh. og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, æstu sig mikið upp þegar um þetta mál var rætt. Það hefur aldrei staðið til annað en að þetta mál yrði rannsakað í nefnd, í utanrmn., og allar hliðar þess kannaðar. Ég er sannfærður um að það er mjög mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að gerast aðilar að Alþjóðaorkustofnuninni.

Hæstv. félmrh. taldi mögulega tvo kosti við aðild, þ. e. varðandi birgðasöfnun og upplýsingamiðlun, en velti fyrir sér hvort ná mætti þeim kostum með öðrum hætti. Þetta voru fullkomlega eðlilegar vangaveltur. En hann tiltók einn annmarka eða verulegan galla, að því er mér skildist að hans mati, á aðild að Atþjóðaorkustofnun. Sá galli væri að aðildinni fylgdu kvaðir t. d. varðandi miðlun á olíubirgðum. En í því felst að mínum dómi e. t. v. einhver stærsti kostur aðildarinnar, einmitt sá kostur að þessi Alþjóðaorkustofnun er með nokkrum hætti gagnkvæmt tryggingarfélag þeirra þjóða sem taka þátt í stofnuninni. Ég hygg að það sé e. t. v. meiri ávinningur fyrir litla þjóð eins og okkur Íslendinga en jafnvel fjölmennari þjóðir að taka þátt í slíkri gagnkvæmri tryggingastarfsemi heldur en að standa utan stofnunarinnar.

Herra forseti. Ég vænti þess, að till. verði vísað til utanrmn., nefndinni gefist kostur að fara vel yfir málið og gera till. hér á Alþingi sem flestir alþm. geti sameinast um.