11.12.1981
Efri deild: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Iðnn. þessarar hv. deildar hefur haft til umfjöllunar frv. til l. um breyt. á lögum nr. 83/1974, um verðjöfnunargjald af raforku, ásamt síðari breytingum. Hæstv. iðnrh. mælti að sjálfsögðu fyrir þessu frv. og ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir því. Það setti e. t. v. öðruvísi svip á umfjöllun iðnn. um þetta mál en verið hefur að við fengum engar heimsóknir norðan úr landi í þetta sinn. En eins og kunnugt er er gert ráð fyrir í frv. að iðnrh. sé heimilt að endurgreiða Rafveitu Siglufjarðar verðjöfnunargjald sem innheimt verður á árinu 1982. Að sjálfsögðu hörmuðum við það mjög að fá ekki neinar slíkar gleðiheimsóknir rétt fyrir jólin, menn eru orðnir svo vanir því, en við þökkum fyrir kveðjur. Það er þó skemmtilegra að tala auglitis við menn.

Iðnn. mælir með samþykkt þessa frv. eins og það var lagt fram. Að vísu hefur það komið fram hér í umr., enda þótt það væri ekki tekið til ítarlegrar umfjöllunar í iðnn., að fjárhagsstaða Rafmagnsveitna ríkisins er alls ekki of góð, því miður, en ég fer ekki út í að ræða þau mál hér nú. Undir þetta nál. skrifar Kjartan Jóhannsson með fyrirvara.