11.12.1981
Efri deild: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

96. mál, tímabundið vörugjald

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. fjmrh. leyfi ég mér að mæla hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald með áorðnum breytingum, eins og það heitir. Hér er sem sagt um að ræða löggjöf sem á rætur nokkur ár aftur í tímann og hefur verið framlengd á ári hverju. Það er gert ráð fyrir þessum skatti í fjárlagafrv. ársins 1982, og í athugasemdum við fjárlagafrv. kemur fram að gert er ráð fyrir að sérstaki vörugjald skili ríkissjóði í tekjur um 519 millj, kr. Til samanburðar má geta þess, að samkv. fjárlögum fyrir árið 1981 var gert ráð fyrir að tekjur af sérstöku vörugjaldi yrðu 368 millj. kr., en í endurskoðaðri tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1981 er gert ráð fyrir að hið sérstaka tímabundna vörugjald skili 383 millj. kr.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða ítarlega um þetta mál, enda er það nokkuð kunnugt hér í þingsölum. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.