11.12.1981
Efri deild: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

96. mál, tímabundið vörugjald

Forseti (Helgi Seljan):

Vegna þeirra orðaskipta, sem hér hafa farið fram, er sjálfsagt að verða við mjög eindregnum óskum varðandi þetta. Ég tók þetta mál á dagskrá með framsögu hæstv. heilbr.- og trmrh. vegna þess að ég vissi um erfiðar aðstæður hjá hæstv. fjmrh. til að mæla fyrir þessu frv. nú og reiknaði með að hv. dm. mundu geta komið athugasemdum sínum fram, eins og hæstv. ráðh. tók fram, við 2. umr. þessa máls, sem oft hefur verið rætt hér og mikið er deilt um, eins og réttilega kom fram hjá hv. 5. landsk. þm. Ég vil nú fara þess á leit til þess að greiða hér fyrir fundum — vegna þess að ég hafði hugsað mér að við héldum fund þegar að loknum þessum fundi og tækjum þá fyrir það eina mál sem er hér til 3. umr., þ. e. verðjöfnunargjald af raforku, og síðan væri deildin laus í dag og við þyrftum trúlega ekki heldur að mæta hér á morgun — að reynt yrði að greiða þannig fyrir þingstörfum að við gætum komið þessu máli til nefndar. Ég vil þess vegna óska eftir því við hv. 5. landsk. þm., að hann falli frá ósk sinni, að því tilskildu að fjmrh. verði að sjálfsögðu viðstaddur 2. umr. málsins og svari öllum þeim athugasemdum sem þar kunna fram að koma.