11.12.1981
Efri deild: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

96. mál, tímabundið vörugjald

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal játa það, að ég á mjög erfitt með að neita hæstv. forseta um þá ósk sem hann hefur hér fram borið, því að hann hefur stjórnað fundum af einstakri prýði og ljúfmennsku. Verð ég þess vegna við ósk hans.

Ég lýsi því hins vegar yfir, að vinnubrögð í þinginu eru með algjörri óhæfu. Ráðh. eru út og suður, sinna ekki sínum skyldustörfum, mæta ekki á fundum og formenn nefnda halda ekki fundi sem þeim ber að halda í nefndum. Og ráðh. mæta ekki til að mæla fyrir sínum málum. Það er algjört upplausnarástand í störfum þingsins og raunar í stjórn þjóðmála yfirleitt, eins og við var að búast, eins og til var stofnað frá upphafi, þar sem allt var byggt á undirferlum og svikum. Þetta er nú allt saman að koma í ljós og mun koma betur í ljós á næstu vikum og mánuðum. En störf þingsins eru með algjörri óhæfu, þ. á m. það, að nú skuli tvö stjórnarfrumvörp vera flutt og mælt fyrir af tveimur ráðh. sem ekki eiga að mæla fyrir þeim. En ég verð við þessari ósk.