11.12.1981
Neðri deild: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

142. mál, sveitarstjórnarkosningar

Flm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um sveitarstjórnarkosningar sem er flutt á þskj. 164. Auk mín er flm. hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Þetta frv. er ekki mikið að vöxtum, en ég tel býsna nauðsynlegt að þessum málum sé komið í viðunandi horf og vil ég leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa frumvarpstextann eins og hann er á þskj.:

„1. gr.: Við 12. gr. laganna bætist: Þegar kosning er óhlutbundin er kjörstjórn skylt, að talningu lokinni, að setja alla notaða kjörseðla undir innsigli kjörstjórnar. Að kærufresti loknum eða að fullnaðarúrskurði uppkveðnum varðandi kosninguna, ef kosningin hefur verið kærð, skal kjörstjórn eyða hinum innsigluðu kjörseðlum og telst störfum hennar ekki lokið varðandi kosninguna, fyrr en svo hefur verið gert og yfirlýsing þar um innfærð í kjörbók og undirrituð af kjörstjórn.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Stjórnarskráin, lög um kosningar til Alþingis svo og lög um sveitarstjórnarkosningar leggja mikla áherslu á þá leynd sem skylt sé að við sé höfð þegar um kosningar forseta, Alþingis, sveitarstjórna og sýslunefnda er að ræða.

Í 5. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Forseti skal kosinn beinum, leynilegum kosningum af þeim, er kosningarrétt hafa til Alþingis.“

Í 66. gr. laga um kosningar til Alþingis, sem fjallar um utankjörstaðaratkvæðagreiðslu, er lögð rík áhersla á að leynd sé yfir kosningu. Sams konar leynd skal vera um kosningu á kjörstað samkv. lögum um kosningar til Alþingis.

Í 1. gr. laga um sveitarstjórnarkosningar er ákvæði um að lög um kosningar til Alþingis skuli gilda um kosningar til sveitarstjórna og sýslunefnda eftir því sem við eigi, með þeim frávikum sem sveitarstjórnarlög ákveða.

Í 11. gr. sömu laga er enn ítrekað að kosningin skuli vera leynileg.

15. gr. sveitarstjórnarlaga fjallar um kosningu sveitarstjórna. 1. mgr. hljóðar svo: „Sveitarstjórnarmenn skulu kosnir með leynilegum almennum kosningum.“

IV. kafli sveitarstjórnarlaga fjallar um sýslufélög. Í þeim kafla er 95. gr. laganna, en 1. mgr. er svohljóðandi: „Sýslunefndarmenn skulu kosnir með leynilegum almennum kosningum.“

Eins og tilvitnaðar lagagreinar sýna er mikil áhersla lögð á leynd kosninga þegar þær fara fram, og er sú leynd raunar einn af hornsteinum lýðræðisins.

Hin almenna regla um kosningar er sú, að kosið er um einstaklinga eða framboðslista með merki eða listabókstaf.

Í 11. gr. laga um sveitarstjórnarkosningar og í sveitarstjórnarlögum er gert ráð fyrir óhlutbundinni kosningu til sveitarstjórna og sýslunefnda. Reynslan hefur sýnt að óhlutbundnar kosningar til sveitarstjórna og sýslunefnda hafa tíðkast víða um land, sérstaklega í fámennari sveitarfélögum, og má telja líklegt að svo verði enn um sinn.

Þegar óhlutbundnar kosningar eru viðhafðar rita kjósendur nöfn þeirra manna, sem þeir kjósa, eigin hendi á þar til gerða kjörseðla, brjóta þá síðan saman og leggja í kjörkassa á venjulegan hátt. Ekkert er í lögunum að finna um varðveislu notaðra kjörseðla að talningu lokinni eða eyðingu þeirra. Óeðlilegt verður að teljast, þrátt fyrir hina miklu áherslu sem lög leggja á leynilegar kosningar fyrir kjördag, þ. e. utankjörstaðarkosningu, og á kjördegi að ekki séu ákvæði í lögum um þessa þætti, þ. e. um varðveislu eða eyðingu notaðra kjörseðla að kosningum loknum.

Í lögum er ekkert að finna sem hindrar að þeir, sem notaða kjörseðla hafa undir höndum að kosningum loknum, geti tekið þá til athugunar síðar og gefið sér nægan tíma til þess. Þar sem kjörseðlar þessir eru ritaðir eigin hendi með nöfnum og heimilisföngum þeirra sem viðkomandi kaus, sbr. 11. gr. laga um sveitarstjórnarkosningar, og a. m. k. í hinum fámennari sveitarfélögum, þar sem menn gjörþekkja skrift flestra kjósenda í sveitarfélaginu, virðist sem sú leynd, sem stjórnarskráin og kosningalög gera ráð fyrir að við sé höfð þegar kosið er, sé upphafin að mestu leyti að kosningum loknum samkv. því sem ég hef sagt að framan.

Tilgangurinn með flutningi þessa frv. er að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun á vitneskju fenginni af atkvæðaseðlum eftir að kosning hefur farið fram og kosningaúrslit ákveðin, enda er ekkert sem mælir með að þessi gögn séu til eftir að þeirra er ekki lengur þörf sem sönnunargagns við kosninguna sjálfa.

Hér er ekki verið með aðdróttun að kjörstjórum eða kjörstjórnum sem hafa þessi störf með höndum, enda væri ég þá jafnframt að ásaka sjálfan mig því ég þykist þekkja nokkuð til þessara starfa þar sem ég hef annast störf kjörstjóra við allar kosningar í s. l. 20 ár eða rúmlega það, nema að sjálfsögðu ekki við síðustu alþingiskosningar þar sem ég var í framboði. Ég þykist jafnframt vita að kjörstjórnarmenn sýni að jafnaði fyllstu gætni í meðferð kjörgagna, bæði fyrir og eftir kosningar. En með lögfestingu þessa frv. ætti að vera tryggt að gögn varðandi kosninguna lendi ekki að talningu lokinni af vangá eða óvart í höndum einhverra manna sem ekki ættu að hafa þau undir höndum. Eins og áður er sagt er tilgangurinn með frv.-flutningi þessum að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun þessara gagna.

Herra forseti. Að umr. lokinni um frv. óska ég eftir að því verði vísað til allshn. þessarar hv. deildar og 2. umr.