11.12.1981
Neðri deild: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

66. mál, iðnráðgjafar

Frsm. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti iðnn. um frv. til. laga um iðnráðgjafa, 66. mál þessarar hv. deildar.

Þetta mál fékk góðar undirtektir hér í hv. deild þegar það var til l. umr., og sömu sögu er að segja um athugun þess og umræður í iðnn. Frv. var sent til umsagnar til Sambands ísl. sveitarfélaga, Iðntæknistofnunar, Félags ísl. iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna, Alþýðusambands Íslands og fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Allir þessir aðilar sendu umsagnir, þrátt fyrir mjög takmarkaðan tíma sem þeim var veittur til þess, og ber sérstaklega að þakka hvað skýr og greið svör komu.

Umsagnirnar voru allar jákvæðar og eru án athugasemda frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Iðntæknistofnun. Fjárlaga- og hagsýslustofnun gerði athugasemd við kostnað ríkissjóðs, þ. e. launakostnað vegna iðnráðgjafanna, án þess að beinar tillögur væru þar um breytingar, þótt bent væri á að takmarka mætti framlag ríkissjóðs við föst laun iðnráðgjafa. Nefndin sá þó ekki ástæðu til að leggja til viðvíkjandi þessum þætti frv. að neinu yrði breytt.

Félag ísl. iðnrekenda og Landsamband iðnaðarmanna bentu á að æskilegt væri að frv. kvæði ákveðnar á um að iðnráðgjafar skyldu hafa samstarf við samtök iðnaðarins. Nefndin varð sammála um að leggja til að 4. gr. frv. yrði breytt á þann hátt að þar yrði þeirri ósk þessara aðila fullnægt. Kemur fram á þskj. 175 sú breyting, þ. e. að samkv. tillögum nefndarinnar skal greinin orðast þannig: Tryggð skuli tengsl iðnráðgjafa við tækni- og þjónustustofnanir og samtök iðnaðarins og störf þeirra samræmd o. s. frv.

Þá varð nefndin sammála um að leggja til að í 1. mgr. 1. gr. frv. yrði bætt inn orðunum: á sinum vegum. Er það til aukinnar áherslu á stjórnun þeirra aðila sem í greininni eru nefndir, þ. e. samtök sveitarfélaga og iðnþróunarfélög, og yrði sú grein þá samkv. þskj. 175 þannig: Ákveði samtök sveitarfélaga eða iðnþróunarfélög, sbr. 2. gr., að ráða iðnráðgjafa til starfa á sínum vegum er heimilt o. s. frv.

Þarna er bætt inn í „á sínum vegum“. Þessar brtt. báðar eru á þskj. 175. Með þessum breytingum mælir iðnn. með samþykkt frv.

Við 1. umr. um þetta frv. flutti hæstv. iðnrh. ítarlegar skýringar á frv. Ég sé því ekki ástæðu til að ræða það efnislega. Ég vil þó lýsa þeirri skoðun minni, að með samþykkt þessa frv. verði stigið framfaraspor til stuðnings atvinnuuppbyggingu og að það auðveldi vinnu að og framgang hinna ýmsu áætlana sem hv. Alþingi hefur samþykkt að gerðar skuli í sambandi við atvinnuuppbyggingu, m. a. ýmissa iðnþróunaráætlana, t. d. þeirrar samþykktar sem gerð var á síðasta þingi fyrir Vesturland, jafnframt því að styðja að og styrkja á ýmsan máta þann atvinnurekstur sem fyrir er.