14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

154. mál, stuðningur við pólsku þjóðina

Frsm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Á fundi utanrmn. í morgun voru rædd þau viðhorf sem hafa skapast eftir atburði gærdagsins í Póllandi, þá uggvænlegu atburði sem nú hafa markað þáttaskil í mannréttindabaráttu pólsku þjóðarinnar. Það varð samkomulag í utanrmn., að hún skyldi sameiginlega flytja till. til þál. er farið væri fram á að fengist afgreidd hér í dag. Mér var falin framsaga málsins og er framsaga mín fyrst og fremst fólgin í því að greina frá þeirri þáltill. sem nefndin gekk frá til Alþingi en hún er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir samúð Íslendinga með pólsku þjóðinni og stuðningi við mannréttindabaráttu frjálsra pólskra verkalýðssamtaka og harmar algera valdatöku kommúnistaflokksins og hersins í Póllandi.

Slík valdbeiting og ofbeldi í skjóli erlends valds kemur í veg fyrir friðsamlega þróun í lýðræðisátt, sem hafin var í Póllandi, og kann að leiða til blóðugra átaka með hörmulegum afleiðingum, um leið og friði í Evrópu er stofnað í hættu.

Á örlagastundu óska Íslendingar þess af einlægni, að Pólverjar fái aukin réttindi og taki sjálfir ákvarðanir um framtíð sína í frjálsum kosningum á grundvelli opinna umræðna, en séu ekki sviptir mannréttindum með valdbeitingu og ógnun um innrás.“

Ég tel ekki ástæðu til að flytja frekari framsögu með þessari till., en tek það fram, að auðvitað hlýtur að koma til kasta Alþingis og ríkisstj. í kjölfar samþykktar slíkrar till. að íhuga vel í hverju geti falist stuðningur okkar við pólsku þjóðina sem nú berst fyrir lífi sínu og þarfnast stuðnings allra frjálsborinna manna.