14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

154. mál, stuðningur við pólsku þjóðina

Utanrrh. (Ólafur Jóhannessori):

Herra forseti. Hörmulegir atburðir hafa gerst í Póllandi. Herlög hafa verið sett, landinu hefur verið lokað, fundafrelsi, félagafrelsi og málfrelsi afnumið. Forustumenn hinna frjálsu verkalýðsfélaga haf verið hnepptir í fangelsi og máske fleiri. Þetta er sú mynd sem blasir við nú. Fregnir eru annars allar óljósar enn frá Póllandi.

Það má segja að þeir atburðir, sem nú hafa gerst, hafi ekki komið algerlega óvænt. Á síðustu dögum hefur verið nokkuð ljóst að blikur voru á lofti og að vel gat til tíðinda dregið.

Við Íslendingar hljótum að lýsa djúpri hryggð yfir þessum atburðum og við vottum pólsku þjóðinni samúð okkar. Margar hörmungar hafa dunið yfir pólska þjóð bæði fyrr og síðar. Íslendingar hafa dáð pólsku þjóðina og hetjulega baráttu hennar á ýmsum tímum.

Á milli Íslands og Póllands hafa löngum verið góð tengsl. Þess vegna hafa ótíðindin frá Póllandi nú valdið Íslendingum miklum sársauka og Íslendingar harma þau og fordæma það ofríki sem þar í landi hefur verið beitt. Það hefur verið stefna okkar, að Pólverjar ættu að fá að vera í friði og reyna sjálfir að finna lausn á vandamálum sínum án íhlutunar utan frá. Við höfum viljað vinna að því, að Pólverjar gætu fengið og ættu að fá sjálfsákvörðunarrétt um sín málefni, þ. á m. um sitt stjórnarform og efnahagskerfi. Þó að það hafi verið stefna og sé stefna, að Pólverjar eigi að reyna að leysa þessi vandamál sín sjálfir og það sé ekki alveg loku skotið fyrir að enn kunni það að geta tekist, því að eftir því sem maður veit best eru viðræður í gangi þar, hlýtur það samt að vera svo, að þegar þvílíkir atburðir sem þessir gerast hljóta menn að lýsa í orðum afstöðu sinni til þeirra. Það hljóta Íslendingar að gera. Það hefur ríkisstj. þegar gert með sinni ályktun, og það er gert í þeirri till. sem hér liggur fyrir. Það er vel að mínum dómi að Alþingi Íslendinga, æðsta stofnun íslensku þjóðarinnar, láti í ljós með ótvíræðum hætti vilja sinn og afstöðu til atburðanna sem þarna hafa gerst.

Ég lýsi fullu samþykki við þá till. sem hér liggur fyrir til umr. og atkvgr. síðar, og mér er ljúft að lýsa því yfir í nafni Framsfl. að hann stendur einhuga að þessari ályktun.