14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

1. mál, fjárlög 1982

Frsm. 1. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Í upphafi vil ég fyrir hönd okkar þremenninga, sem skrifum undir nál. 1. minni hl. fjvn., þakka formanni nefndarinnar fyrir lipurð og þolinmæði í okkar garð. Ég þakka ritara nefndarinnar og hagsýslustjóra fyrir ómetanlega aðstoð. Starfsmönnum hagsýslunnar og meðnefndarmönnum okkar þakka ég fyrir mjög ánægjulegt samstarf.

Starfið í fjvn. er erilsamt. Þar eru teknar ákvarðanir um viðkvæm mál. Ég vil taka undir það með formanni nefndarinnar, að samstarfið í fjvn. hefur þrátt fyrir þetta verið til mikillar fyrirmyndar undanfarin ár.

Fjvn. flytur að venju sameiginlegar till. til breytinga á frv. með venjulegum fyrirvara af hálfu minni hlutans sem áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Minni hluti nefndarinnar er á hinn bóginn algerlega andvígur stefnu frv. og þeirri efnahagsstefnu ríkisstj. og stuðningsmanna hennar á Alþingi sem frv. endurspeglar. Í nál. okkar er þessi miðstýringar- og haftastefna gagnrýnd. Hún hefur leitt til stöðnunar og versnandi lífskjara, þrátt fyrir vaxandi afla ár frá ári og góð ytri skilyrði þjóðarbúsins. Því er þörf á gerbreyttri stefnu, jákvæðri uppbyggingu í anda frjálshyggju, eins og sú grundvallarstefna er sem Sjálfstfl. hefur boðað frá öndverðu.

Í nál. minni hl. fjvn. fyrir árið í ár segir svo orðrétt, með leyfi forseta: „Núverandi ríkisstjórn fylgir eindregnari vinstri stefnu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum en þær ríkisstjórnir á síðasta áratug sem sjálfar hafa kallað sig vinstri stjórnir.“

Þessi staðreynd kemur æ betur í ljós eftir því sem tíminn líður. Forustumenn Alþb. hafa staðfest þetta opinberlega. Einn þeirra sagði í blaðaviðtali s. l. vor orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Efnahagsstefna ríkisstj. ber mjög svipmót þeirrar afstöðu sem Alþb. hefur haft síðan 1978. Sú afstaða varð undir í ríkisstjórninni 1978–1979, þ. e. vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar. Nú hefur hins vegar verið tekið tillit til sjónarmiða Alþb. og árangurinn er að koma í ljós.“

Hér er skýrt að orði kveðið og ekki um að villast að íslenskir vinstri sósíalistar og kommúnistar í Alþb. telja stjórnarstefnuna sér þóknanlegri en stefnu vinstri stjórna sem setið hafa fyrr. Hvað sem þessu liður hafa Alþb.-menn og framsóknarmenn ráðið mestu um stjórnarstefnuna í rúm þrjú ár eða frá hausti 1978. Á þessu tímabili hafa ríkt illvíg verðlagshöft, afturhaldsstefna gagnvart atvinnuvegunum, smáskammtalækningar í verðbólgumálum, gegndarlaust skattahækkunarflóð, aukin ríkisafskipti og ríkisumsvif.

Ríkisfjármálin og stefna fjárlaga eru á hverjum tíma óaðskiljanlegur hluti efnahagsstefnu viðkomandi ríkisstj. Það er ætlun mín við þessa umr. að ræða stefnuna í ríkisfjármálum og efnahagsmálum á þessu valdaskeiði Alþb. og Framsóknar. Ég vík hér fyrst að nokkrum aðalatriðum efnahagsstefnunnar síðan haustið 1978 í örstuttu máli, en ræði síðan nánar hvert og eitt atriði.

Þegar litið er yfir þetta tímabil blasa við eftirfarandi efnahagsstaðreyndir:

1. Sjávarafli hefur stóraukist vegna friðunaraðgerða fyrr á árum. T. d. veiðist sennilega í ár um 130–150 þús. tonnum meira af þorski en 1978. Verðlag á sjávarafurðum okkar erlendis hefur yfirleitt verið gott. Þrátt fyrir þennan stórkostlega búhnykk hefur þjóðarframleiðsla aukist sáralítið og kaupmáttur taxtakaups launþega rýrnað að mun. Svo er einnig um kaupmátt lífeyris elli- og örorkulífeyrisþega. Þessi kaupmáttarrýrnun nemur allt að 10% frá þriðja ársfjórðungi 1978 til sama tíma í ár.

2. Verðbótavísitala hefur tíu sinnum verið skert á þessu tímabili, samtals um rúm 26%. Verðbólgan var, þegar ríkisstj. tók við, um eða yfir 50% yfir árið. Hún er í raun í sama illkynja farinu. Hinn 1. nóv. var hækkun framfærsluvísitölu síðustu 12 mánuði tæp 48% og verðbólguhraðinn fer vaxandi, eins og talsmenn ríkisstj. viðurkenna. Seðlabanki Íslands segir í bréfi til fjh.- og viðskn. Alþingis dagsettu 8. des. s. l., að verðbólgustigið sé nú nálægt 50%. Á miðju ári 1977 komst verðbólgan niður fyrir 30% og var í byrjun áratugarins tæp 4%.

3. Gengi íslensku krónunnar hefur verið formlega fellt fimm sinnum síðan í ágúst 1978, bæði með gengislækkunum og gengissigi. Bandaríkjadollar hefur hækkað gagnvart íslenskri krónu um 213.9% á þessu tímabili. Verðgildi nýkrónunnar, sem átti að verða stöðugt, hefur minnkað svo að verð á Bandaríkjadollar í nýkr. hefur hækkað yfir 30% frá því hún kom í umferð um síðustu áramót.

4. Skattaálögur á almenning hafa aukist svo mjög, að á næsta ári greiðir hver fimm manna fjölskylda í landinu um 20 þús. kr., 2 millj. gkr. hærri beina og óbeina skatta en sama fjölskylda hefði gert að óbreyttum skattalögum sem giltu 1977. Skattbyrðin þyngist enn 1982 samkv. fjárlagafrv. og nýr skattur er enn boðaður, svonefnt byggðalínugjald.

5. Skattbyrði eignarskatta til ríkisins er nú tvöföld miðað við það sem hún var 1977 og tekjuskatta 50% meiri.

6. Þensla eyðsluútgjalda ríkissjóðs er gífurleg. Aukin ríkisumsvif hafa átt sér stað með skattahækkunum og að auki með stórauknum lántökum til hins opinbera. Erlend lán til A- og B-hluta ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja hafa rúmlega þrettánfaldast samkv. fjárlagafrv. frá árinu 1978.

7. Greiðslubyrði erlendra lána hefur aldrei verið meiri en nú og hefur þyngst verulega undanfarin ár, þótt stórfelldur samdráttur verði í ár og einkum á næsta ári í stóriðju- og orkuframkvæmdum. Samkvæmt lánsfjáráætlun eru erlendar skuldir taldar verða 39% af þjóðarframleiðslu í árslok 1982 að mati Seðlabankans og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. Þetta hlutfall var 31.6% 1977.

8. Fjárveitingar til framkvæmda- og atvinnuvegasjóða hafa ár eftir ár verið skornar miskunnarlaust niður að raungildi og eru lægri nú í ár samkv. fjárlagafrv. t. d. til grunnskóla og hafnargerða, en verið hefur a. m. k. frá árinu 1974.

9. Fjárfesting í atvinnulífinu hefur dregist saman, nema e. t. v. í fiskveiðiflotanum, og svo er þrengt að atvinnuvegunum að allar undirstöðugreinar atvinnulífsins eru reknar með stórfelldum halla og skuldasöfnun. Jafnvel ríkisfyrirtækin ná aðeins endum saman með því að slá erlend lán, svo sem Sementsverksmiðja ríkisins. Flest ríkisfyrirtæki í atvinnurekstri eru rekin með verulegum halla, svo sem fram kom í svari iðnrh. á Alþingi fyrir nokkru.

10. Íbúðabyggingar á vegum einstaklinga hafa dregist saman ár eftir ár og enn má búast við stórfelldum samdrætti í íbúðabyggingum einstaklinga á næsta ári.

Það er sérstakleg athyglisvert, þegar litið er yfir þetta tímabil, hversu mjög hefur þrengt að einstaklingum og frjálsum félagasamtökum þeirra. Það er ótvírætt erfiðara en áður fyrir unga menn að ráðast í að byggja sér íbúðir eða leggja út í nýjan atvinnurekstur við núverandi aðstæður. Þannig er í reynd komið í veg fyrir að atorka einstaklinganna verði virkjuð á hagkvæman hátt fyrir þjóðfélagið, en þá frumorku er ekki síður þörf að virkja en aðrar auðlindir lands og þjóðar.

Ég vík þá að stefnu fjárlaga undanfarinna ára og stefnu fjárlagafrv. fyrir árið 1982.

Fjárlagafrv. fyrir árið 1982 felur í sér sömu meginstefnu og fjárlög undangenginna ára, þ. e. frá árinu 1979. Það felur í sér þenslu eyðsluútgjalda ríkissjóðs, aukna skattbyrði, niðurskurð fjárveitinga til framkvæmda og framlaga til sjóða atvinnuveganna. Áfram er haldið á þeirri braut að taka markaðar tekjur og skatta, sem lagðir voru á til ákveðinna verkefna, til almennrar eyðslu ríkissjóðs og taka lán til opinberra þarfa í stórum stíl og ýta þannig vandanum á undan sér. Koma tímar og koma ráð, gætu verið einkunnarorð hæstv. fjmrh. og ríkisstj. undangengin ár að þessu leyti, svo rík er sú árátta að koma af sér óþægilegum vanda og færa yfir á þá sem síðar taka við stjórnartaumunum.

Fjárlagafrv. er byggt á þeirri meginforsendu sem svo er lýst í grg. þess, með leyfi hæstv. forseta: „Reiknitala fjárlagafrv. varðandi hugsanlega hækkun verðlags og launa er miðuð við 33% milli áranna 1981 og 1982.“ Sérstaklega er tekið fram að reiknitalan sé „ ekki hugsuð sem verðbólguspá fyrir komandi ár“. Á það lagði hæstv. fjmrh. af einhverjum ástæðum sérstaka áherslu við 1. umr. Þessu var öfugt farið í fyrsta fjárlagafrv. núv. hæstv. ríkisstj. fyrir árið 1980. Þar er „niðurtalningunni“ lýst nákvæmlega. Þar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stjórnarsáttmálanum eru boðaðar eftirtaldar aðgerðir í verðlagsmálum í því skyni að draga úr verðbólgu: 1. Verðhækkunum á þeim vörum og þjónustu, sem verðlagsráð fjallar um, verði sett eftirgreind efri mörk ársfjórðungslega á árinu 1980: Til 1. maí skulu mörkin vera 8%, til 1. ágúst 7% og loks til 1 nóv. 5%. Á árinu 1981 verði ákveðin tímasett mörk í samræmi við markmið um hjöðnun verðbólgu. Um verðhækkanir af erlendum uppruna, sem ekki rúmast innan ofangreindra marka að mati verðlagsráðs, setur ríkisstj. sérstakar reglur. Þessar sérstöku reglur hafa ekki áhrif á gildandi ákvæði um útreikning kaupgjaldsvísitölu.

2. Verðhækkanir á búvöru fylgi sams konar reglum, enda verði niðurgreiðslur ákveðnar sem fast hlutfall af útsöluverði árin 1980 og 1981.

3. Fyrir maí/júní 1980 skulu afgreiddar sérstakar hækkunarbeiðnir fyrirtækja og stofnana sem nauðsynlegar kunna að teljast til þess að verðbreytingar slíkra aðila geti síðan fallið innan þess ramma sem framangreind mörk setja.“

Hér er ekkert verið að skafa utan af nákvæmri forskrift niðurtalningarinnar, hvernig nákvæmlega skuli telja niður verðlag. Síðan segir orðrétt í grg. frv. fyrir 1980, með leyfi hæstv. forseta:

„Í samræmi við þetta er frv. miðað við það, að verðhækkun frá upphafi til loka árs 1980 verði um 31% og meðalhækkun verðlags 1979–1980 verði 45–46%.“

Því má kannske skjóta hér inn í að það er svo með meiri háttar bröndurum í íslenskri pólitík upp á síðkastið, að nú keppast hæstv. ráðherrar ríkisstj. við að segja að þessi niðurtalningarforskrift, sem þeir tíunduðu svo nákvæmlega í fyrsta fjárlagafrv. sínu, hafi gefist svo vel að það hafi stefnt í 70% verðbólgu í staðinn fyrir 30% sem þeir settu sér sem markmið. Og verðbólgan er nú 50% eins og um getur í bréfi Seðlabankans.

Í öðru frv. til fjárlaga frá núv. hæstv, ríkisstj., fyrir árið 1981, segir svo einnig orðrétt, með leyfi forseta: „Meginforsendur þessa frv. eru eftirfarandi:

4. að verðlagshækkanir frá miðju ári 1980 til miðs árs 1981 verði um 42%, sem er nokkru minni verðbólga en verið hefur nú um skeið.“

Þannig var í tveimur fyrstu fjárlagafrv. hæstv. núv. ríkisstj. sett fram ákveðin stefna. Þar var alla vega leitast við að hafa stefnu og setja fram markmið í verðlagsmálum á því ári sem viðkomandi fjárlagafrv. fjallaði um. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1982, sem hér er til umr., er hvergi minnst á „niðurtalningu“, ekkert markmið er lengur til í viðureigninni við verðbólguna, að eins „reiknitala“ út í bláinn. Þetta er augljóslega staðfesting á algerri uppgjöf ríkisstj. á þeirri margfrægu niðurtalningu, enda átti verðbólgan að vera 31% árið 1980 samkv. henni og fara niður í 10% á þessu ári. En því miður eru litlar líkur til þess, svo vægt sé til orða tekið.

En hvað þýðir þessi reiknitala? Í bréfi frá Þjóðhagsstofnun til fjvn. segir svo. með leyfi hæstv. forseta: „Ef hækkunin dreifist jafnt yfir árið felur þetta í sér 27% hækkun frá upphafi til loka ársins. Ferlarnir yfir árið gætu verið með ýmsum hætti, hækkunin gæti verið tiltölulega meiri framan af ári og minni á síðari hluta ársins, en til þess að meðalhækkun fari ekki yfir 33% yrði hækkunin frá upphafi til loka ársins að vera töluvert minni.“ Sem sagt, reiknitalan þýðir að verðbólgan má í hæsta lagi verða 27% frá ársbyrjun til ársloka á næsta ári ef reiknitalan á að standast.

Miðað við þær aðstæður, sem nú eru í efnahagsmálum og öllum eru ljósar, jafnvel talsmönnum ríkisstj. og sérfræðingum þeirra, vekur það athygli að þessi reiknitala stenst alls ekki nema stórlega dragi úr verðbólgunni og hún verði ekki meiri en 27% frá ársbyrjun til ársloka, eins og ég sagði áðan. Bresti þær forsendur og verðbreytingin reynist meiri milli ára en 33% og 27% frá ársbyrjun til ársloka á næsta ári hlýst augljóslega af því verðrýrnun allra fjárveitinga að raungildi sem eru fastar í krónutölu, t. d. allra framkvæmdaframlaga í landinu.

Hér skal tekið dæmi sem Vegagerð ríkisins reiknaði og forráðamenn hennar tóku með sér á fund fjvn. til að lýsa áhyggjum sínum yfir.

Fjárvöntun, til þess að framkvæmdagildi fjárveitinga til vegagerðar haldist, yrði sem hér segir: Í fyrsta lagi, ef verðhækkun verður 33% milli áranna, eins og frv. gerir ráð fyrir, vantar 3.7 millj. kr. á að vegáætlun haldi framkvæmdagildi sínu. Í öðru lagi, ef verðbreyting verður 40% milli ára vantar 17.3 millj. kr. Og í þriðja lagi, ef verðbreyting verður 45% milli ára vantar hvorki meira né minna en 34.4 millj. kr. til þess að fjárveiting til vegagerðar haldi raungildi sínu. Þannig hefur slíkur reiknitöluútreikningur sjálfvirkan niðurskurð í för með sér á framkvæmdafé í fastri krónutölu ef verðbólgan verður meiri en 27% frá ársbyrjun til ársloka á næsta ári.

Að því er vikið í grg. frv., að heildarútgjöld samkvæmt því verði 28.1% af þjóðarframleiðslu, eða svipað hlutfall og er í ár. Þessi útreikningur er auðvitað villandi og gefur alranga mynd af aukningu ríkisumsvifanna. Eyðsluútgjöld ríkissjóðs hafa hækkað langt umfram verðlagshækkanir á síðustu árum. Samkv. fjárlögum fyrir árið 1981 hækkuðu rekstrarliðir samtals um 55.7% frá fjárlögum fyrra árs en þá var miðað við 42% verðhækkun milli ára. Samkv. frv. hækka rekstrarliðir um 44.5% en reiknitala almennra verðhækkana um 33%. Fjárveitingar til stofnkostnaðar og fjármagnstilfærslna hækka samkv. frv. einungis um 20.4% frá árinu í ár. Þar er m. a. um að ræða framlög af skatttekjum til fjárfestingarsjóða. Þessi útgjöld eru stórkostlega skorin niður en atvinnuvegasjóðirnir látnir taka lán í staðinn. Á þennan hátt er fjárveitingum ýtt út fyrir A-hluta ríkisgeirans og heildarútgjaldatölur í honum gerðar ósambærilegar milli ára. Hefðu útgjaldaliðir frv., sem nefnast fjárfestingar og fjármagnstilfærslur, hækkað um 33%, þ. e. um almenna verðlagsforsendu frv., hefðu útgjöld þess í heild hækkað í 7977 millj. kr., sem er 29.5% af áætlaðri þjóðarframleiðslu á næsta ári.

Þensla ríkisútgjalda og umsvifa í heild sést einnig á því, hve ráðstöfunarfé ríkisins og fyrirtækja þess hefur aukist bæði að því er varðar skatta og auknar lántökur, svo sem ég mun vík ja að síðar. Þróunin er því augljós og furðulegt að með talnablekkingum sé reynt að fela þá staðreynd. Á það má m. a. benda í þessu sambandi, að í ræðu fjmrh. við 1. umr. um frv. kom fram að tekjur og gjöld ríkissjóðs hafa hækkað fyrstu níu mánuði yfirstandandi árs um hvorki meira né minna en 60–61%. Varla verður annað sagt en það sé úr takt við almenna verðþróun í landinu og sýni hvað ríkisumsvifin aukast, enda kom það fram, — það má kannske bæta því við, það kom mjög glöggt fram í ræðu formanns fjvn. að hann hefur einmitt þungar áhyggjur af þessari þróun ríkisfjármálanna, að rekstrar- og eyðsluútgjöld ríkissjóðs, aukist langt fram úr öllum öðrum stærðum.

Undanfarin ár hefur skattbyrði aukist ár eftir ár, ýmist vegna álagningar nýrra skatta, t. d. gjalds á ferðalög til útlanda, orkujöfnunargjalds, skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði eða hækkana söluskatts, vörugjalds, tekju- og eignarskatts. Þá hafa skattar til sveitarfélaga hækkað á sama tíma. Skattar til ríkisins voru 25% af þjóðarframleiðslu 1977, en samkv. frv. í ár telur Þjóðhagsstofnun að þeir verði 28.5%. Hér er um að ræða hækkun sem nemur 3.4% af þjóðarframleiðslu eða 920–930 millj. kr., þ. e. tæplega 100 milljörðum gkr. Þetta þýðir 20 þús. kr. aukna skattbyrði á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Ég mun síðar og í öðru samhengi víkja nánar að þessum mikla aukaskattreikningi til almennings frá ríkisstjórnum sem setið hafa síðan 1978.

Samkv. nýrri tekjuspá Þjóðhagsstofnunar hækka innheimtir skattar til ríkisins á árinu 1982 um 44%, og er þá um að ræða sömu verðforsendur og miðað er við í útgjaldaliliðinni, þ. e. 33%. Skattarnir aukast því fram yfir þær verðlagsforsendur og nánast í taki við eyðsluútgjöld ríkissjóðs, eins og ég hef vikið að áður.

Á yfirstandandi ári hækka skattar til ríkissjóðs vegna hækkandi tollhlutfalls af innflutningi. Ástæðan er talin mikill innflutningur hátollavöru, jafnvel kaupæði, vegna yfirvofandi gengisbreytinga á árinu, auk þess sem innfluttum bifreiðum fjölgar. Á árinu 1980 voru fluttar inn 8650 bensínbifreiðar en í ár um 9000. Og í tekjuáætlun er gert ráð fyrir svipaðri tölu innfluttra bíla. Þessi hagstæða þróun fyrir ríkissjóð kemur að sjálfsögðu fram gagnvart almenningi sem aukin skattbyrði. Nú er álitið að tekjur hækki almennt milli ára 1980–1981 um a. m. k. 51–52%, í stað þess að í forsendum frv. var gert ráð fyrir 50% tekjubreytingu og skattvísitölu 150 í samræmi við það. Fulltrúar Þjóðhagsstofnunar gáfu fjvn. þær upplýsingar, að þessi hækkun tekna almennings mundi hafa í för með sér 5–6 millj. kr. auknar tekjur fyrir ríkissjóð, ef skattvísitölu yrði breytt í 152, en 20–30 millj. kr. tekjuauka að óbreyttri skattvísitölu. Hvert skattvísitölustig, sem er lægra en tekjubreyting, er áætlað að auka tekjur ríkissjóðs um 15–16 millj. kr. Hér er því um varfærna áætlun að ræða. Það skal tekið fram, að ekki hefur enn verið gert ráð fyrir að hækka tekjuáætlun ríkissjóðs vegna þessara breyttu forsendna um hækkun tekjuskatts.

Öll kurl virðast ekki heldur komin til grafar um nýja skattheimtu. Í grg. fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar er frá því skýrt, að í athugun hjá ríkisstj. sé að leggja á svonefnt byggðalínugjald. Á það samkv. grg. að nema 40 millj. kr. Ekki hefur enn verið gerð grein fyrir þessu gjaldi í tekjuáætlun ríkissjóðs.

Eignarskattar hækka enn samkv. frv. langt umfram aðra skatta til ríkisins, en svo hefur verið í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Samkv. nýrri áætlun Þjóðhagsstofnunar hækka eignarskattar um 61.6% frá fjárlögum í ár en tekjuskattar einstaklinga um 53.6%. Skattbyrði þessara skatta á greiðsluári eykst verulega frá því í fyrra miðað við þessar áætlanir.

Samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar eykst skattbyrði eignarskatta einstaklinga 1982 samkv. þessum áætlunum, miðað við tekjur greiðsluárs og forsendur frv., þannig að í prósentum af tekjum greiðsluárs eru eignarskattar á árinu 1981 0.51% af tekjum en á árinu 1982 verða þeir 0.58% samkv. frv. Séu eignarskattar einstaklinga, tekjuskattur, sjúkratryggingargjald og nefskattur lögð saman, þá telur Þjóðhagsstofnun að skattbyrði þessara skatta aukist þannig að í prósentum af tekjum greiðsluárs hafi þessir skattar verið 6% í ár en verði 6.7% samkv. frv.

Það vekur sérstaka athygli í fjárlagafrv. fyrir árið 1982 að dyggilega og markvisst er haldið áfram á þeirri braut að taka í síauknum mæli skatta, sem lagðir hafa verið á í sérstöku skyni, til þess að standa undir almennum eyðsluútgjöldum ríkissjóðs. Þar má t. d. nefna erfðafjárskatt, sem á að renna m. a. til endurhæfingar fatlaðra, skemmtanaskatt, sem á að renna til Félagsheimilasjóðs o. s. frv. Þá er byggingarsjóðsgjald, sem áður reiknaðist af ýmsum skattstofnum, fellt inn í almenna skattkerfið án lækkunar þeirra álaga. Það rennur nú í raun í ríkissjóð en fór áður í Byggingarsjóð ríkisins.

„Orkujöfnunargjald“, 1.5% á söluskattsstofn, sem er áætlað að gefi af sér 1982 192 millj. kr., var lagt á í því skyni að afla fjár til olíustyrkja til húshitunar og orkumála. Það fer samkv. frv. að verulegum hluta í ríkissjóð til almennra þarfa. Í ár, 1981, rennur þetta gjald þó að miklu leyti í beinar fjárveitingar til orkumála og olíustyrkja, en samkv. frv. verður þessu öfugt farið árið 1982. Í nál. okkar minnihlutamanna er þetta dæmi skýrt í tölum. Þar er niðurstaðan sú, að hvorki meira né minna en 105 millj. nýkr. eða 10.5 milljarðar gkr. fari til eyðslu ríkissjóðs af þessu gjaldi þegar frá hafa verið dregnar beinar fjárveitingar til orkumála og olíustyrkja. En þetta gjald var lagt á í þessu skyni árið 1980 og er ekki lengra síðan að svo frómur rökstuðningur var fyrir álagningu þess. Það er því ekki á eina bókina lært hvernig fjármunir eru teknir af skattborgurunum í eyðsluhít ríkissjóðs.

Herra forseti. Var ætlunin að fresta umr.? (Forseti: Já, ekki seinna en kl. 5, ef vel stæði á þá.) Það getur alveg eins verið hér. (Forseti: Já, þá held ég að það sé ágætt.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég held áfram ræðu minni. En ég vek athygli hæstv. forseta á því, að hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa mikinn áhuga á að hlýða á málflutning þingmanna í þessu eina máli sem hún hefur lagt sérstaka áherslu á að þyrfti að afgreiða fyrir jól og er stærsta mál hvers Alþingis. Ég sé engan hæstv. ráðh. hér við umr.

Samkv. frv. til fjárlaga fyrir árið 1982 er gert ráð fyrir lántökum til A- og B-hluta ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja sem nema 1 215.9 millj. kr. Þar af eru erlend lán að upphæð 695.9 millj. kr., sem er rúmlega þrettánföldun frá 1978. Þessi upphæð hefur hækkað nokkuð í meðförum hv. fjvn. Lántökur verða nú 13.5% af heildarráðstöfunarfjármagni ríkissjóðs, þ. e. samanlögðum tekjum og lántökum, en þetta hlutfall var 1978 6.9%. Þannig hafa umsvif ríkissjóðs aukist fram yfir skattahækkanir. Tekjur ríkissjóðs og áætlaðar lántökur til A- og B-hluta eru samtals 9015 millj. kr. eða 33.4% af þjóðarframleiðslu. Þessu fjármagni ráðstafar ríkisstj. og meiri hl. Alþingis og raunar miklu meiru með lánsfjárlögum í heild. Tekjur fjárlaga að viðbættum lántökum samkv. lánsfjáráætlun nema í ár hvorki meira né minna en 10 milljörðum nýkr. eða 1000 milljörðum gkr., en það jafngildir 37% af allri þjóðarframleiðslunni sem hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþingis ráðstafar.

Það vekur sérstaka athygli hve erlend lántaka til A- og B-hluta ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja hefur aukist á undanförnum árum. Erlend lán til A- og B-hluta voru sem hér segir á viðkomandi árum: árið 1978 48 millj. 660 þús., árið 1979 56 millj. 480 þús., árið 1980 213 millj. 600 þús., árið 1981 283 millj. 840 þús. og 1982 samkv. frv. 695 millj. 970 þús. og hefur þessi upphæð, eins og ég sagði áðan, hækkað enn. Þetta er rúmlega þrettánföldun, eins og ég sagði áðan, og að raungildi miðað við byggingarvísitölu hafa erlend lán til A- og B-hluta þrefaldast á tímabilinu frá 1978.

Lántökur til A- og B-hluta voru sem hlutfall af heildarráðstöfunarfjármagni ríkissjóðs hverju sinni, þ. e. samanlögðum tekjum og lántökum, sem hér segir: 1978 voru lántökurnar 6.9% af ráðstöfunarfjármagni ríkissjóðs, 1979 6.8%, 1980 10.2%, 1981 10.4%, og nú hækkar þetta hlutfall mest eða upp í a. m. k. 13.5% samkv. frv. Hér er augljóslega hættuleg þróun á ferðinni og er greinilegt að skattahækkanir undanfarinna ára hafa ekki nægt til þess að auka ríkisumsvifin, heldur er sífellt gripið til aukinnar lántöku sem er auðvitað ávísun á skattahækkanir síðar. Að heildarlántökum þjóðarbúsins erlendis mun ég koma síðar.

En ríkissjóði virðist ekki nægja að auka lántökur erlendis. Samkv. frv. fyrir árið 1982 er gert ráð fyrir að spariskírteinaútgáfa ríkissjóðs innanlands aukist um 66.6% frá því í ár, þótt fyrir liggi að einungis þriðjungur af spariskírteinum, sem selja átti á þessu ári, hafi selst, lántökur í bankakerfinu aukist um 102% og verðbréfakaup lífeyrissjóða verði meiri en í ár, þótt fyrir liggi að ekki hefur tekist að afla nærri því allra þeirra lána í lífeyrissjóðum til opinberra þarfa sem stefnt var að í lánsfjáráætlun fyrir yfirstandandi ár. Ríkissjóður er í harðri samkeppni við atvinnuvegina á þessum lánamarkaði, þ. e. öflun lánsfjár úr lífeyrissjóðakerfinu. Vegna yfirburðaaðstöðu sinnar hefur ríkissjóður í ár tryggt sér það fjármagn sem hann ætlaði að nálgast úr lífeyrissjóðakerfinu. Aftur á móti skortir mjög á að Framkvæmdasjóður og þar með sjóðir atvinnuveganna hafi fengið það fé úr lífeyrissjóðunum sem stefnt var að með lánsfjáráætlun. Þannig hefur fjármagninu verið beint frá atvinnuvegunum til ríkisins, til hins opinbera, og er hér aðeins um að ræða einn þáttinn í því að auka miðstýringu og ríkisafskipti í þjóðfélaginu.

Til marks um fullkomið ábyrgðarleysi ríkisstj. í lánsfjáröflun skortir nú milli 90 og 100 millj. kr. á að takist að afla fjár til Byggingarsjóðs ríkisins og Framkvæmdasjóðs í ár samkv. lánsfjáráætlun, og er þá gripið til þess ráðs, sem er óþekkt fyrirbrigði áður, að láta Byggingarsjóð ríkisins, sem verður að sætta sig við niðurskurð á framlagi úr ríkissjóði, taka 40 millj. kr. lán í Seðlabankanum. Og Framkvæmdasjóði er vísað á erlendar lántökur til þess að standa að nokkru við lánsfjárloforð sín til atvinnuvegasjóðanna.

Lántökugleði hæstv. ríkisstj. virðast lítil takmörk sett. Þannig hefur Sementsverksmiðja ríkisins verið látin taka 10 millj. kr. erlent lán til þess að endar nái saman í rekstrinum. Byggðasjóði, sem fær skert ríkisframlag ár eftir ár, er sagt að taka stórlán í Seðlabankanum til að fleyta þeim tugum fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu sem rekin eru með mestu tapi. Í nýútkominni skýrslu Landsvirkjunar kemur fram að síðustu ár hefur fyrirtækið orðið að taka lán vegna hallarekstrar og nemur sú fjárhæð 1470 millj. gkr. fyrir árið 1980. Slík dæmi mætti lengi rekja.

Flestar leiðir hafa verið reyndar í lántökum ríkissjóðs og skuldasöfnun. Þannig hefur skuldastaða ríkissjóðs við almannatryggingar versnað verulega á undanförnum árum. Í árslok 1980 var skuldastaðan við almannatryggingar 92.8 millj. nýkr. eða rúmir 9 milljarðar gkr. Þessi skuld var einungis 12.7 millj. 1977 og hefur því rúmlega sjöfaldast á þessu tímabili. Skuld ríkissjóðs við sjúkrasamlög er ekki meðtalin í þessum tölum og ekki sá skuldabaggi daggjaldasjúkrahúsa sem hefur vaxið umfram verðlag að undanförnu og lendir að mestu á ríkissjóði ári eftir að til hans er stofnað.

Samkv. fjárlagafrv. er haldið áfram þeirri stefnu að skerða framlög úr ríkissjóði til stofnlánasjóða, bæði hreinna fjárfestingarlánasjóða og sjóða sem hafa félagsleg markmið. Stofnlánasjóðir eiga að sjálfsögðu að ávaxta fé sitt á eðlilegan hátt og verðtryggja, en skerðing fjárveitinga til þeirra á að koma fram í skattalækkun, sérstaklega á atvinnuvegina, en ekki verða til þess að auka svigrúm til eyðsluútgjalda ríkissjóðs, svo sem gert hefur verið ár eftir ár undanfarið.

Í nál. okkar minnihlutamanna er ítarlegt yfirlit um skerðingu fjárveitinga til hefðbundinna sjóða. Þar er m. a. sýndur útreikningur fjárlaga- og hagsýslustofnunar á því, hvernig skerðing þessara sjóða hefur aukist á föstu verðlagi á undanförnum árum. Skerðing fjárveitinga til Fiskveiðasjóðs miðað við lög er nú 21.7 millj. kr. og hefur hún tvöfaldast að raungildi síðan 1978. Sé tekið dæmi af Stofnlánadeild landbúnaðarins er skerðing framlaga til hennar 10.2 millj. kr. og hefur aukist um 50% að raungildi síðan 1980.

Í frv. er að finna miklu fleiri dæmi um niðurskurð fjárveitinga til mikilvægra sjóða en hefðbundinna fjárfestingarsjóða. Þar er t. d. um að ræða Byggðasjóð, Orkusjóð, Byggingarsjóð ríkisins, Iðnlánasjóð og Erfðafjársjóð. Framlög til þessara sjóða eru skert miðað við lög og raungildi fyrri fjárveitinga og skal nú vikið að því.

Samkv. lögum um Byggðasjóð skal ríkisframlag til sjóðsins ekki vera minna en svo, að ráðstöfunarfé hans nemi 2% af útgjaldafjárhæð fjárlagafrv. Í grg. frv. er þess getið, að fjárveitingin 1982 sé miðuð við að ráðstöfunarfé hans sé 1.6% af útgjaldahlið frv., með því að sjóðurinn taki 50 millj. kr. lán. Ef fullnægja ætti lögum yrði framlag til sjóðsins 84 millj. kr. hærra en frv. gerir ráð fyrir og 34 millj. kr. hærra þótt lántakan sé viðurkennd sem framlag.

Í nál. okkar minnihlutamanna eru sýndar fjárveitingar til Byggðasjóðs undanfarin ár. Niðurstaðan er sú, að fjárveitingar til sjóðsins hafa lækkað að raungildi ár eftir ár og um helming síðan 1978. Fjárveiting 1982 þyrfti að vera 96.9 millj. kr. í stað 52.5 millj. ef hún hefði átt að hafa sama raungildi og fjárveitingin 1978. Svo harkaleg er meðferð hæstv. ríkisstj. á Byggðasjóði. En eins og kunnugt er hefur ríkisstj. falið Byggðasjóði nú um þessar mundir að veita eins konar kreppulán til tuga fyrirtækja í sjávarútvegi í viðbót við venjulega lánafyrirgreiðslu sjóðsins.

Sama gildir um fjárveitingar til Orkusjóðs. Þær hafa lækkað síðan nýja „orkujöfnunargjaldið“ var lagt á 1980 og alveg sérstaklega samkv. fjárlagafrv. Verðjöfnunargjald á raforku er fært til tekna í fjárlagafrv. og er innifalið í fjárveitingum til Orkusjóðs, en greiðist þaðan til Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Að frádregnu verðjöfnunargjaldinu er hrein fjárveiting til Orkusjóðs sem hér segir undanfarin ár: 1980 59 millj., 1981 83.9 millj., en þá var greiddur af þessari fjárveitingu hluti fjármagnskostnaðar fyrir Kröflu, 1982 er svo fjárveiting til Orkusjóðs aðeins 45.1 millj. kr. að frádregnu jöfnunargjaldinu, en þyrfti að vera 106 millj. kr. ef raungildi fjárveitingar 1980 ætti að haldast, þ. e. skerðingin er 54 millj. kr. eða rúmlega 100%.

Um Iðnlánasjóð gilda ekki lagaákvæði um ríkisframlög. Það er til marks um stefnuleysi niðurskurðar á framlögum til sjóðanna samkv. frv. að fjárveitingar eru ákveðnar þannig, að til Stofnlánadeildar landbúnaðarins hækka þær um 40% á fjárlögum í ár, til Fiskveiðasjóðs um 40%, en til Iðnlánasjóðs er fjárveitingin lækkuð í krónutölu um 88%. Hún er í fjárlögum í ár 4 millj. 250 þús. kr., en í frv. er einungis gert ráð fyrir að fjárveiting til Iðnlánasjóðs verði 500 þús. kr. Séu báðir sjóðir iðnaðarins, Iðnlánasjóður og Iðnrekstrarsjóður, skoðaðir saman kemur í ljós að fjárveiting til beggja sjóðanna var í fjárlögum í ár 11.2 millj. kr. og er þá meðtalinn hluti aðlögunargjalds, sem gekk til Iðnrekstrarsjóðs. En í ár er fjárveiting til beggja sjóðanna 10.5 millj., hún lækkar um 6.7% að krónutölu.

Iðnrekstrarsjóður er ekki fjárfestingarlánasjóður. Hann sinnir útflutningsaðgerðum og vöruþróun. Þess vegna ber í raun að líta á þessa sjóði sinn í hvoru lagi. Á hinn bóginn stingur í augu sú stefna sem fram kemur í þessum fjárlagatillögum gagnvart þeim atvinnuvegi sem þarf fyrst og fremst að vaxa og taka við viðbótarvinnuafli sem kemur á vinnumarkaðinn á næstu árum. Hér er enn eitt dæmið um afturhaldsstefnu hæstv. ríkisstj. og stuðningsliðs hennar á Alþingi gagnvart atvinnuvegunum.

Þá vil ég víkja að málum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Í lögum um launaskatt, sem er 3.5% á launaskattsstofn, er kveðið svo á að 2% af skattinum skuli renna í Byggingarsjóð ríkisins. Auk þess rann í sjóðinn svonefnt byggingarsjóðsgjald sem var 1% álag á tekju- og eignarskatt og aðflutningsgjöld. Launaskatturinn var beinlínis lagður á á þeim forsendum að hann gengi í Byggingarsjóð ríkisins, enda var um það samið milli verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda á sínum tíma.

Árið 1979 var tekið upp á því að skerða þessi mörkuðu gjöld. Skerðing launaskatts var 620 millj. gkr. 1979 og 3660 millj. gkr. 1980. Árið 1981 var eitt prósentustig fellt niður, tekið í ríkissjóð, en hluti skattsins látinn renna í Byggingarsjóð verkamanna, þ. e. 1%. Í lögum um húsnæðismálastjórn o. fl., sem breytt var 1980, voru afnumin bein ákvæði um hversu mikill hluti launaskatts gengi til húsnæðismála, nema 1% skyldi renna í Byggingarsjóðs verkamanna, byggingarsjóðsgjald var afnumið sem markaður tekjustofn, en áðurnefndir skattar, sem það lagðist á, ekki lækkaðir. Eftir stendur þó enn í lögum um launaskatt að 2%-stig af 31/2% alls eða rúmlega helmingur hans skuli renna í Byggingarsjóð ríkisins, enda hefur sá hluti skattsins ætíð verið lagður á með þeim rökstuðningi.

Allar þessar tilfæringar hafa skert beinar fjárveitingar til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna þótt skattarnir hafi áfram verið lagðir á. Séu beinar fjárveitingar í báða sjóðina lagðar saman kemur í ljós að þær þyrftu að vera 30–33% hærri að raungildi í ár ef þær ættu að halda framkvæmdagildi sínu, sama framkvæmdagildi og árið 1978. Sé á hinn bóginn athugað, hvernig fjárveitingar skiptast milli sjóðanna, hefur raungildi fjárveitinga hækkað til Byggingarsjóðs verkamanna en minnkað svo stórkostlega til Byggingarsjóðs ríkisins að raungildi fjárveitinga til hans samkv. fjárlagafrv. er einungis 'h þess sem það var 1978. Þessi stefnubreyting varð 1981, þegar ákveðið var að 1% af launaskatti rynni í Byggingarsjóð verkamanna, en fjárveiting til Byggingarsjóðs ríkisins var skorin niður um hærri fjárhæð en sem því nam.

Við fjárlagaumr. í fyrra gagnrýndi ég harðlega þá stefnu sem hæstv. ríkisstj. hefur í húsnæðismálum. Það er auðvitað gott og blessað að auka svokallaðar félagslegar byggingar. En á það er að líta, að það eru ekki allir sem eiga kost á að búa í slíku húsnæði. Og það er algjör kúvending í grundvallarstefnu þeirri, sem fylgt hefur verið á Íslandi í húsnæðismálum, að auka þessar félagslegu byggingar alfarið á kostnað fjárveitinga og fyrirgreiðslu til íbúðabygginga á vegum einstaklinga.

Reynslan sýnir ótvírætt nú hvernig þessi stefna er í framkvæmd. Íbúðabyggingar í heild, bæði félagslegar byggingar og íbúðabyggingar á vegum einstaklinga, hafa dregist saman ár eftir ár samkv. upplýsingum úr sjálfri skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun síðustu ára. Þessi samdráttur er orðinn að magni til nærri 14% á tveimur til þremur árum. Og ekkert bendir til að hann minnki á næsta ári, þótt spár í fjárfestingaráætlun ríkisstj. séu þær, að íbúðabyggingar haldist í horfinu næsta ár.

Það segir einnig sína sögu þegar um húsnæðismálin er að ræða, að nú á þessu ári bárust húsnæðismálastjórn 20–25% færri umsóknir um ný lán úr almenna byggingarsjóðnum fram til 1. okt. heldur en henni bárust á sama tíma í fyrra. Augljóst er að ungu fólki, sem vill koma yfir sig þaki, finnst ekki árennilegt að ráðast í slíkt við ríkjandi aðstæður, og lái ég það engum satt best að segja. Það er svo kapítuli út af fyrir sig að í fyrsta skipti í sögunni þarf húsnæðismálastjórn að taka 40 millj. kr. lán í Seðlabankanum, bráðabirgðalán, og geyma sér þann vanda til næsta árs til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar fram að áramótum. Þetta sýnir hug ríkisstj. til húsnæðismála. En þetta er líka dæmigert bjargráð þessarar hæstv. ríkisstj.: að fresta öllum hlutum, taka lán og fresta öllum vanda eins lengi og frestað verður. Framtíðinni er ætlað að leysa hann og greiða úr þeirri upplausn sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur skapað í þjóðlífinu.

Þótt ríkisumsvifin hafi þanist út með aukinni skattheimtu og lántökum hafa fjárveitingar til ýmissa viðkvæmra framkvæmda dregist sífellt saman á ýmsum sviðum. Þetta á einkum við um framkvæmdir sem eru mikilvægar flestum minni byggðarlögum í landinu: Raungildi fjárveitingar til hafnarframkvæmda, grunnskólabygginga og íþróttamannvirkja hefur dregist saman ár eftir ár frá 1978. Á yfirstandandi ári skortir 27% á að raungildi fjárveitinga til hafnarframkvæmda haldist frá 1978, 12% til grunnskólamannvirkja og 19% til íþróttamannvirkja.

Samkv. fjárlagafrv. áttu öll þessi framkvæmdaframlög að lækka enn verulega. Í meðförum fjvn. og samkv. till. hennar varð nokkur hækkun þessara viðkvæmu fjárlagaliða. Erfitt er að meta hvort þessar fjárveitingar halda raungildi sínu frá fyrra ári eða fyrri árum vegna þess að raunveruleg verðbólga á næstunni skiptir sköpum í því efni. Reynslan verður að leiða það í ljós, en þróun síðustu ára sem ég hef greint frá, talar sínu máli um þá byggðastefnu sem þessi hæstv. ríkisstj. hreykir sér stundum af.

Í fjárlagafrv. er haldið áfram á þeirri braut að gera upptækar í ríkissjóð tekjur sem samkv. lögum er aflað í tilteknu skyni. Svo er t. d. um erfðafjárskatt, skemmtanaskatt og launaskatt. Þessi tekjuupptaka ríkissjóðs sundurliðast þannig samkv. frv.:

þús. kr.

1.

Hluti erfðafjárskatts

4 000

2.

Hluti skemmtanaskatts

3 145

3.

Hluti launaskatts

54 114

Samt.

61 259

Erfðafjárskattur er innheimtur á þeim forsendum að efla Erfðafjársjóð, en hlutverk hans er m. a. að styrkja endurhæfingu fatlaðs, lamaðs eða sjúks fólks. Þess má geta, að erfðafjárskattur á yfirstandandi ári var áætlaður 8 millj. kr., en verður 9–10 millj. kr. samkv. nýjustu upplýsingum Þjóðhagsstofnunar. Hins vegar fer föst krónutala af skattinum 6 millj. kr., í Erfðafjársjóð. Skerðing hans verður því í reynd 3–4 millj. kr. á ári fatlaðra, en samkv. fjárlögum átti að vera um 2 millj. kr. niðurskurð að ræða og upptöku í ríkissjóð.

Hliðstæð vinnubrögð hafa verið viðhöfð síðan 1979. Lánsfjárlög takmarka framlög á mörkuðum tekjustofnum við ákveðna krónutölu, en ríkissjóður hirðir kúfinn sem venjulega myndast vegna krónutöluhækkunar tekjustofnsins frá fjárlagaáætlun. Þannig hefur farið um erfðafjárskattinn, launaskattinn og skemmtanaskattinn. Miklu hærri fjárhæðir af þessum sköttum en fjárlög greina renna í raun í ríkissjóð. Skemmtanaskatturinn á að efla Félagsheimilasjóð og virðist því sumum mönnum þykja bera brýna nauðsyn til að skerða þann tekjustofn og gera upptækan hluta hans í ríkissjóð. Fleiri skattar, sem lagðir eru á eða lagðir voru á gjaldendur í ákveðnu skyni, hafa verið teknir í ríkissjóð, ýmist um stundársakir eða að fullu og öllu. Má nefna byggingarsjóðsgjald, sem ég minntist á áðan, það er innheimt en hefur breytt um nafn. Orkujöfnunargjald hefur áður borið á góma. Sama er að segja um aðlögunargjald. Það hefur legið í ríkissjóði langtímum saman áður en því hefur verið varið til þeirra verkefna sem það er lagt á til. Þegar þessi skattur er innheimtur bókast hann sem tekjur í ríkissjóð, en ekki til skuldar og gjalda. Slík framkvæmd skattlagningar sýnir ranga mynd af raunverulegum ríkisrekstri, auk þess sem raungildi skattsins rýrnar til þeirra hluta sem hann var ætlaður til, en hyglir ríkissjóði að sama skapi.

Í nál. okkar minnihlutamanna er rakin innheimta aðlögunargjalds og ráðstöfun þess sem dæmi um það, hvernig slík skattheimta hefur verið notuð til þess að sýna betri mynd af ríkisrekstrinum um stundarsakir. Ríkisreikningur er gerður upp á greiðslugrunni. Þó eru þar veruleg frávik. T. d. eru söluskattstekjur og aðrar tekjur, sem stafa af veltu desembermánaðar, bókfærðar á viðkomandi ár þótt þær komi inn í janúar á næsta ári. Ýmis gjaldfallin rekstrarútgjöld ríkissjóðs, sem ekki greiðast á viðkomandi ári, eru ekki bókfærð fyrr en þau eru greidd. Þetta er í samræmi við lög.

Ég hef fyrr tíundað hversu miklar fjárhæðir eru færðar út úr A-hluta ríkisreiknings yfir í B-hluta eða út fyrir ríkisreikninginn. Heita má að ekki sé hægt að henda reiður á samanburði ríkisútgjalda samkv. A-hluta nema með miklum aukalegum debet- og kreditfærslum af þessum sökum ef bera á saman milli ára. Sum fjármagns útgjöld ríkissjóðs, t. d. vegna byggðalína, færast ekki sem vextir, a. m. k. ekki á fjárlögum. Lán eru einfaldlega tekin fyrir framkvæmdum, afborgunum og vöxtum og allt fært á lánsfjáráætlun sem fjárfesting. Augljóst er að marklítið er annars vegar að leggja mikið upp úr bókhaldslegum jöfnuði á rekstrarreikningi A-hluta ríkissjóðs, þegar þannig er í pottinn búið, og þaðan af síður að mæla umsvif ríkisgeirans með útgjöldum A-hluta ríkisreiknings eða fjárlaga og bera saman milli ára og við þjóðarframleiðslu þegar það virðist stefnuatriði að gera þessar stærðir ósambærilegar. Brýn nauðsyn er að undirbúa nýja löggjöf um ríkisreikning og fjárlagagerð þannig að betri yfirsýn og samanburðargrundvöllur sé á rekstrar- og greiðslustöðu ríkissjóðs milli ára og betri mælikvarði fáist á raunveruleg ríkisumsvif. Flest ríki fara í þessu efni að samræmdum reglum um ríkisreikningsuppgjör sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur tekið saman og þykir hafa gefið góða raun.

Herra forseti. Eins og ég hef áður lýst, þá er stefna sú, sem fram kemur í þessu fjárlagafrv., óaðskiljanlegur hluti af stefnu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum almennt. Ég mun nú víkja nánar að þeirri efnahagsstefnu og þeirri reynslu sem við höfum af henni á s. l. árum.

Eins og menn muna tók ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar við völdum eftir kosningar 1978. sú ríkisstj. kallaði sjálfa sig vinstri stjórn og var önnur ríkisstj. á síðasta áratug sem svo gerði. Hún hrökklaðist frá eftir eins árs hávaðasaman valdaferil. Eftir desemberkosningar 1979 var núv. ríkisstj. mynduð. Í báðum þessum ríkisstj. hafa Alþb.-menn og framsóknarmenn haft úrslitavöld. Þeir hafa stjórnað með úrræðum hafta, banna, miðstýringar og skattafargans svo sem áður er lýst. Ég vík nú nokkru nánar en ég gerði í upphafi ræðu minnar að árangri eða öllu heldur afleiðingum þessarar vinstri stefnu. Nú erum við orðin reynslunni ríkari. Hver er þessi reynsla?

Sjávarafli hefur aukist ár frá ári á þessu tímabili, sérstaklega þó þorskafli, sem er mikilvægasta hráefni fiskiðnaðarins. Þetta má rekja til víðtækra friðunaraðgerða og útfærslu landhelginnar í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar og Matthíasar Bjarnasonar sem sjútvrh. Þróunin hefur orðið sem hér segir:

Botnfiskafli alls var 1978 479 þús. tonn, 1979 578 þús. tonn, 1980 659 þús. tonn og 1981 er áætlað að hann verði 680 þús. tonn. Þar af var þorskafli 1978 320 þús. tonn, 1979 360 þús. tonn, 1980 428 þús. tonn og 1981 450 þús. tonn samkv. forsendum þjóðhagsáætlunar í ár. Óhætt er því að fullyrða að þjóðin geti nýtt sér 130–150 þús. tonna meiri þorskafla í ár en árið 1978 eða nærri 50% meiri afla af þessu mikilvægasta hráefni fiskiðnaðarins.

Verð á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum hefur einnig verið gott þegar á heildina er litið, t. d. eru saltfiskur og skreið í mjög háu verði. Þótt nokkurrar stöðnunar á verði frystra afurða hafi gætt og verðlækkunar á mjöli og lýsi er talið að verðmæti sjávarafurðaframleiðslunnar hafi aukist í ár um 3% vegna verðhækkana erlendis. Stórfelld hækkun á gengi Bandaríkjadollars á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði hefur og bætt ytri skilyrði sjávarútvegsins og þjóðarbúsins.

Þjóðarframleiðslan hefur þrátt fyrir þetta aukist sáralítið á þessu tímabili, þrátt fyrir alla aflaaukninguna og góðæri sem ríkt hefur í sjávarútveginum. Á árunum 1977 og 1978 óx þjóðarframleiðslan á mann samtals um 9% á þessum tveimur árum. En árin 1979 til og með 1982 er þessi aukning á tvöfalt lengri tími talin verða 3.7% í heild. Vöxtur þjóðarframleiðslunnar á mann verður aðeins 1.6% 1980 og 0.2% 1981, og síðustu spár benda til að þjóðarframleiðslan á mann fari stórlega minnkandi á næsta ári.

Kaupmáttur taxtakaups launþega og bóta elli- og örorkulífeyrisþega hefur öll þessi ár „sigið“, eins og formaður Verkamannasambands Íslands kýs að kalla þá þróun. Miðað við þriðja ársfjórðung 1978 hefur kaupmáttur launþega innan ASÍ rýrnað um 7% á sama ársfjórðungi í ár og opinberra starfsmanna um 10.4%. Elli- og örorkulífeyrisþegar með tekjutryggingu njóta eilítið lakari kaupmáttar nú en á þriðja ársfjórðungi 1978, en kaupmáttur almenns ellilífeyris er 9.5% minni en á þriðja ársfjórðungi 1978. Á töflu í minnihlutaáliti okkar sjálfstæðismanna kemur þessi þróun greinilega í ljós í smærri atriðum, en hún er unnin upp úr upplýsingum frá Þjóðhagsstofnum.

Það er kaldhæðnislegt, að nú telja forustumenn launþega að allt að 20% skorti á að kaupmáttur „sólstöðusamninganna“ frá 1977 náist, sbr. kröfugerð opinberra starfsmanna á dögunum. sú krafa var gerð í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, að þessir samningar „tækju gildi“ árið 1978, þ. e. að kaupmáttur þeirra næðist þá. Þeirri kröfu var framfylgt með ólöglegum vinnustöðvunum og útflutningsbanni, auk þess sem hún var gerð að höfuðinntaki kosninganna 1978 með slagorðunum: „kosningar eru kjarabarátta“, „samningana í gildi“.

Viðskiptakjör versnuðu talsvert á árinu 1979, eða um 9.2% vegna síðari olíuverðshækkunar á heimsmarkaðinum. Síðan hafa viðskiptakjör sáralítið versnað í heild þar sem batinn í ár vegur verulega á móti því sem hallaðist á árið 1980. Þessi rýrnum viðskiptakjara 1979 skýrir á engan hátt það lífskjarastig sem orðið hefur á sama tíma sem úr er að spila nærri 50% meiri þorskafla í landinu í ár en 1978.

Athyglisvert er að ólíku er saman að jafna, rýrnum á viðskiptakjörum 1979 eða 1974–1975, en viðskiptakjör rýrnuðu um tæp 26% samtals á þeim árum, enda var þá um að ræða eitt stærsta utanaðkomandi áfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, álíka og þegar síldin hvarf af miðunum á sínum tíma.

Ég vík þá að verðbólgunni og þeim gífurlegu verðhækkunum sem orðið hafa undanfarin ár. Áratugurinn 1960–1970 einkenndist af stöðugleika í efnahagsmálum. Menn töldu þó verðbólguna skaðvald, en hún var oft innan við 10% á ári. Á síðasta áratug varð verðbólgan að allt öðrum og illkynjaðri sjúkdómi. Sú þróun hófst á valdatíma fyrri vinstri stjórnarinnar 1971–1974. Verðbólgan fór þá úr tæpum 4% 1971 í tæp 50% árið 1974. Úr verðbólgu dró verulega fram að kjarasamningunum 1977, en þá var verðbólguhraðinn talinn vera 26%. Eftir það seig á ógæfuhliðina og undanfarin ár hefur verðbólgan verið á milli 50 og 60%.

Í nál. okkar sjálfstæðismanna, 1. minni hl. fjvn., er hækkunarferill framfærsluvísitölunnar sýndur frá 1. nóv. 1978. Þar kemur fram að á þessum árum hefur mældur framfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar hækkað um hvorki meira né minna en 268.2%. Hækkunin á hverjum ársfjórðungi hefur sveiflast frá 8 og upp í 16%. Augljóst er að ekkert lát er á verðbólgunni þótt þær ríkisstjórnir, sem setið hafa frá hausti 1978, hafi talið það eitt af höfuðmarkmiðum sínum að hamla gegn henni.

Núv. ríkisstj. hefur gripið til hugvitssamlegri og róttækari aðgerða til þess að hafa áhrif á útreikning og viðmiðun vísitölunnar en aðrar ríkisstjórnir í seinni tíð. Þessar aðgerðir fela í sér ferns konar tilbrigði:

1. Beina skerðingu verðbótavísitölu.

2. Hörðustu verðlagshöft sem um getur í tvo áratugi.

3. Frestun á verðhækkunum fram yfir útreikningsdag vísitölunnar.

4. Nýja viðmiðun um síðustu áramót sem skekkir samanburð vísitalna milli ára.

Á undanförnum þremur valdaárum Alþb. og Framsóknar hefur verðbótavísitalan á laun verið skert tíu sinnum. Skerðingin nemur samtals 26.4% í verðbótum og er þá skerðingin 1. des. 1978 ekki meðtalin, en hún átti að „bætast“ með niðurgreiðslum 3%, skattalækkunum 2% og félagsmálapökkum 3%. Þetta eru athyglisverðar staðreyndir um stjórnarferil manna sem fyrr á árinu 1978, fundu upp slagorðið „kauprán“ um skerðingu verðbóta á laun. Hér skal nú rakinn ferill þessara verðbótaskerðinga:

1. des. 1978 8,01%, 1. júní 1979 3.16%, 1. sept. 1979 4.40%, 1. des. 19792.65%, 1. mars 19802.46%. 1. júní 1980 1,53%, 1. sept. 1980 1.55%, 1. des. 1980 1.34%, 1. mars 1981 1.37% og sama dag með brbl. um síðustu áramót 7%.

Þegar framangreind afrek Alþb. og Framsóknar eru skoðuð varðandi vísitölumöndl og verðbótaskerðingu á laun hlýtur sú spurning að vakna, hvort forustumenn þessara flokka trúi því sjálfir að núverandi vísitölukerfi sé slík vörn fyrir launamenn sem þeir hafa stundum viljað vera láta, t. d. þegar Alþb.-menn eru í „kaupráns“-ham og boða slík „skipti“.

Auk framangreindra skerðinga verðbótavísitölu hefur ríkisstj. beitt svo hörðum verðlagshöftum, að t. d. Sementsverksmiðja ríkisins þarf að fá taprekstur bættan með erlendum lánum. Útvarpið og Póstur og sími eru ár eftir ,ár rekin með tapi sem fyrr eða síðar þarf að mæta, og þannig má áfram telja. Ákvörðun ríkisstj. um verðhækkanir á ýmiss konar vörum og þjónustu er skotið á frest fram yfir útreikningsdag vísitölunnar. Þetta hefur verið sérstaklega áberandi á þessu ári, t. d. varðandi bensínhækkanir og opinbera þjónustu. Þá fann ríkisstj. upp það snjallræði í baráttunni við verðbólguna að hækka margháttaða þjónustu um síðustu áramót og láta reikna þær hækkanir inn í vísitölu gamla ársins. Með því móti var vísitala nýja ársins betri í samanburði en ella, sérstaklega þegar öllum fyrirsjáanlegum og nauðsynlegum verðhækkunum var skotið eins lengi á frest og mögulegt var. Spurningin er á hinn bóginn sú, hvort slíkar aðfarir eigi nokkuð skylt við efnahagsstefnu eða stjórn.

Að hluta til minnkaði verðbólgan nokkuð á yfirstandandi ári vegna styrkingar bandaríska dollarans á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði, lækkun Evrópumynta hafði í för með sér lækkun innflutningsverðs og þar með verðbólgu í bili, auk þess sem 7% skerðing verðbóta 1. mars hafði sín áhrif. Verðhækkanir síðustu vikur og mánuði sýna á hinn bóginn ótvírætt að þrátt fyrir þessa skerðingu verðbóta, hagstæð ytri skilyrði og framangreint vísitölumöndl er verðbólgan nú vaxandi og er í sama farinu og þegar ríkisstj. tók við, enda telur Seðlabankinn að verðbólgan nú sé um 50%, og Þjóðhagsstofnun spáir 55% verðbólgu á næsta ári. Niðurtalningin hefur því algjörlega brugðist.

Á valdatíma Alþb. og Framsóknar frá haustinu 1978 hefur gengi íslensku krónunnar verið fellt fimm sinnum formlega og þar af nýkrónunnar þrisvar. Samkv. efnahagsáætlun ríkisstj. um síðustu áramót átti sérstaklega að styrkja gengi nýkrónunnar og stöðva gengisfall a. m. k. um hríð. Nú eru horfur á að Bandaríkjadollar kosti a. m. k. 30–40% meira í nýkr. um áramót en þegar myntbreytingin tók gildi, og formaður Framsfl. hefur komist þannig að orði, þegar hann ræðir um fiskverðsákvörðun um áramót, að nýkr. sé enn í fallhættu.

Því miður hefur myntbreytingin orðið fyrst og fremst að villuljósi og blekkingum í höndum hæstv. ríkisstj. í stað þess að verða tákn nýrri og betri tíma, eins og orðið hefði ef varanlegar aðgerðir til stöðvunar skrúfugangs verðlags, launa og kostnaðar hefðu orðið undanfari breytingarinnar. Í þess stað missti almenningur allt verðskyn út í veður og vind þegar myntbreytingin bættist við verðbreytingarnar.

Þær fimm formlegu gengisfellingar, sem gripið hefur verið til síðan í sept. 1978, voru sem hér segir: 4. sept. 1978 15% gengisfelling, 31. mars 1980 3% gengisfelling, 29. maí 1980 3.85% gengisfelling, 26. ágúst 1981 4,76% gengisfelling og 10. nóv. 1981 6.50% gengisfelling.

Í bréfi Seðlabanka Íslands frá 27. nóv. segir svo orðrétt: „Frá 1. ágúst 1978 til 24. nóv. 1981 hafa erlendir gjaldmiðlar vegið með landavog hækkað gagnvart íslenskri krónu um 191.7%. Á sama tímabili hefur gengi Bandaríkjadollars hækkað gagnvart íslenskri krónu um 213.9%.“

Hækkun gengis Bandaríkjadollars dró vitanlega verulega úr þörf gengisbreytinga vegna innlendra kostnaðarhækkana á þessu ári. Engu að síður hefur þessi þróun orðið á undanförnu ári og undanfarin ár, eins og ég hef hér rakið.

Frá því vinstri stjórnin komst til valda haustið 1978 hefur nýjum og hækkuðum sköttum rignt jafnt og þétt yfir almenning. Sú ríkisstj. hóf feril sinn með því að leggja á afturvirka skatta. Álagningu tekjuskatta og eignarskatta var lokið, en með brbl. ákvað ríkisstj. að bæta 50% viðauka á tekju- og eignarskatt einstaklinga með meiru. Þessir afturvirku skattviðaukar hafa síðan verið innifaldir í tekju- og eignarsköttum og skattbyrði þeirra skatta hefur þyngst mjög.

Samkv. upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun hefur skattbyrði eignarskatta einstaklinga sem hlutfall af tekjum á greiðsluári tvöfaldast frá árinu 1977 til ársins 1982 samkv. fjárlagafrv. Þessi skattbyrði var sem hlutfall af tekjum greiðsluárs 1977 0.29%, en verður 1982 0.58%.

Skattbyrði tekjuskatta hefur aukist um rúm 50%. Hún var 1977 3.9% af tekjum greiðsluárs, en verður samkv. fjárlagafrv. 6.1% árið 1982. Vinstri stjórnin lagði á fjölda nýrra skatta: Gjald á ferðalög til útlanda, skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, aðlögunargjald, auk þess sem hún hækkaði söluskatt um 2%, úr 20% í 22%, haustið 1979 og vörugjald um 6% á sama tíma. Vinstri stjórnin hóf einnig þá skattahækkun á bensín umfram verðlagshækkanir sem hefur aukist síðan án þess að nokkru sem nemi af þeirri skattahækkun hafi verið varið til vegamála.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur viðhaldið öllum vinstristjórnarsköttunum nema nýbyggingargjaldi, sem var hverfandi lítið, auk þess sem aðlögunargjald er ekki innheimt lengur, en það er fyrst og fremst markaður tekjustofn til iðnþróunar. Hún lagði á „orkujöfnunargjald“, sem í raun er 1.5% söluskattur, og kom söluskatti þar með í 23.5%. Það eitt eykur skattbyrði á næsta ári um 192 millj. nýkr., en það jafngildir rúmlega 400 þús. gkr. nýrri skattbyrði á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Þannig hefur ríkisstj. hvergi slakað á skattaálögum vinstri stjórnarinnar heldur þvert á móti aukið þær að mun.

Það er fróðlegt að skoða þennan viðbótarskattreikning til almennings frá árinu 1978, sem er á ábyrgð Alþb., Framsfl. og raunar Alþfl. líka sem bar ábyrgð á skattstefnu vinstri stjórnar. Ég rek nú einstaka liði þessa skattreiknings. Tölur eru á verðlagi fjárlagafrv.:

1. Hækkun eignarskatta einstaklinga 53 millj.

2. Hækkun tekjuskatta einstaklinga 368 millj. Þar frá dregst lækkun sjúkratryggingagjalds tvívegis, 126 millj. Út úr þessu dæmi koma 295 millj. kr. í skattahækkun beinna skatta.

3. Söluskattur 2%, sem hækkaði haustið 1979, 256 millj. kr.

4. Vörugjald, sem hækkaði á sama ári um 6%, 107 millj. kr.

5. Gjald á ferðalög samkv. frv., 47 millj. kr., en þar er um nýjan skatt að ræða.

6. Innflutningsgjald á sælgæti, sem verður í gildi að hluta á þessu ári, á næsta ári 3 millj. kr.

7. Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sem er nýr skattur, 32.1 millj. kr. samkv. frv.

8. Hækkun verðjöfnunargjalds á raforku um 6% 28.5 millj. kr.

9. Skattahækkun á bensíni umfram verðlagsbreytingar 217 millj. kr.

10. Orkujöfnunargjald 191 millj. kr.

11. Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra 13.5 millj. kr.

12. Markaðar tekjur, teknar í ríkissjóð, sem eru álagðar til annarra þarfa, 61 millj.

Samtals er hér um að ræða 1 252 millj. kr. Frá þessu dregst niðurfelling söluskatts af matvöru haustið 1978, 224 millj. kr., og lækkun tolla og aðflutningsgjalda, 97 millj. kr. Samtals nemur þessi aukaskattreikningur nettó 931 millj. nýkr. Allar þessar upphæðir eru, eins og ég sagði áðan, á fjárlagaverðlagi ársins 1982 samkv. verðforsendum fjárlagafrv.

Þá er ótalin hækkun á útsvörum til sveitarfélaga sem núv. ríkisstj. heimilaði og má giska á að leggi um 150 millj. nýkr. í viðbótarskatt á almenning fram yfir það sem um hefði verið að ræða að óbreyttum reglum.

Ég vil sérstaklega taka fram að sú skattahækkun á bensíni, sem hér er tíunduð umfram fast verðlag, er í samræmi við upplýsingar frá Vegagerð ríkisins og Þjóðhagsstofnun. Hún stafar að mestu af hækkun tolla og söluskatts vegna mikillar verðhækkunar á bensíni í innflutningi, en að mjög litlu, sáralitlu leyti af hækkun bensíngjalds til Vegasjóðs að raungildi.

Í nál. minni hl. fjvn., þ. e. okkar sjálfstæðismanna, er á fskj. súlurit sem sýnir bensínskattahækkunina að raungildi síðustu ár í ríkissjóð og borið saman við framlög til vegamála sem að raungildi hafa ekki aukist úr ríkissjóði á þessu tímabili. Svo til öll aukning, sem orðið hefur í vegaframkvæmdum síðan 1979, en þá var hún í lágmarki, í samgönguráðherratíð hæstv. núv. fjmrh., Ragnars Arnalds, hefur orðið vegna meiri lántöku á þessu tímabili, árin 1980 og 1981.

Þróun fjármunamyndunar í landinu á valdatíma Alþb. og Framsfl. frá 1978 er einkar athyglisverð. Fjármunamyndun í atvinnuvegum, stóriðju og orkuframkvæmdum dregst stórlega saman í ár og á næsta ári samkv. skýrslum um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. Sama er að segja um byggingar íbúðarhúsnæðis. Fjárfesting í þeim hefur dregist saman ár eftir ár eða um 13.6% frá árinu 1978 til 1981 að báðum árum meðtöldum. Á hinn bóginn er fjárfesting í opinberum byggingum talin aukast á sama tíma um 24.6%, þ. e. frá árinu 1980 til 1982, samkv. spám fjárfestingaráætlunar fyrir næsta ár.

Þessar staðreyndir segja sína sögu um stjórnarstefnu þá sem ríkt hefur í landinu. Þegar vinstri stjórnin tók við 1978 voru umtalsverðar stórvirkjana- og stóriðjuframkvæmdir þegar hafnar, m. a. virkjun við Hrauneyjafoss, stækkun Álversins og Járnblendiverksmiðjunnar. Þessar framkvæmdir fóru vaxandi á árunum 1978–1980, eða alls um 38.7% þessi þrjú ár að meðtöldu árinu 1977. Á hinn bóginn drógust þessar framkvæmdir saman í ár um 3.2% og er spáð að þær dragist saman á næsta ári um 43.5% að magni til. Sömu sögu er að segja um hitaveituframkvæmdir. Þær jukust 1979 og 1980, en dragast saman í ár um 3.7% og á næsta ári 31.5%. Allt er þetta samkv. upplýsingum úr fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hæstv. ríkisstj. Þá er fjármunamyndun atvinnuveganna talin dragast saman um 8.1% í ár og spáð er að hún dragist saman um 9.1% á næsta ári.

Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga um samdrátt stórvirkjana- og stóriðjuframkvæmda, hitaveituframkvæmda og fjármunamyndunar í atvinnuvegunum er það ískyggilegt, hversu erlendar lántökur hafa aukist mikið að undanförnu. Auðvitað hafa erlend lán verið tekin að hluta til framkvæmda sem skila arði. Þjóðarbúið er þá betur í stakk búið að mæta aukinni greiðslubyrði af þeim. Þetta getur verið og er oftast réttlætanlegt. En því miður sýna dæmin síðustu ár að þessu er oft ekki svo farið. Nú eru jafnvel tekin erlend lán til að fjármagna taprekstur ríkisfyrirtækja og opinber lántaka er með ýmsu marki brennd, en hún hefur vaxið stórkostlega, eins og ég gerði grein fyrir hér í upphafi máls míns. Þegar erlend lán hafa verið tekin samkv. lánsfjáráætlun fyrir árið 1982, og eru þó ekki öll kurl komin til grafar því að hún kvað hækka verulega í meðförum Alþingis, þá telur Seðlabankinn að greiðslubyrði erlendra lána muni hækka í 18% af útflutningstekjum og skuldastaðan verða verri en nokkru sinni fyrr, þ. e. 39% af þjóðarframleiðslu, en samsvarandi tölur 1977 voru 13.7% greiðslubyrði af útflutningstekjum og 31.6% skuldastaða miðað við þjóðarframleiðsluna. Frá því 1978 hafa löng erlend lán nær því tvöfaldast í Bandaríkjadollurum eða hækkað um 78% á aðeins fjórum árum miðað við áform um lántöku í lánsfjáráætlun 1982.

Um erlendar lántökur Íslendinga sagði Jóhannes Nordal seðlabankastjóri í grein í fjármálatíðindum 1980, en þá var skuldabyrðin 35% af þjóðarframleiðslu, með leyfi forseta:

„Þótt greiðslubyrðin af þessum skuldum hafi hingað til reynst viðráðanleg hljóta svo miklar erlendar skuldir að hafa í för með sér verulega áhættu ef á móti blæs í efnahagsmálum eða skyndilegar breytingar verða á erlendum lánsfjármörkuðum.“

Hafi þessi varnaðarorð verið gild á þeim tíma, þá eru þau það svo sannarlega nú, þegar fyrir liggur samdráttur í stóriðju- og orkuframkvæmdum, og vegna þeirrar óvissu sem fram undan er í efnahagsmálum innanlands og utan.

Verulegur halli hefur verið á viðskiptajöfnuði síðan 1978, en þá var hann jákvæður um 7 170 millj. gkr. á þágildandi verðlagi. Hallinn jókst á árunum 1979–1980 og nýjar spár benda nú til þess, að á árinu 1982 geti orðið um stórfelldan viðskiptahalla að ræða þótt framkvæmdir dragist svo saman í landinu sem ég hef vakið athygli á.

Að lokum vil ég fara nokkrum orðum um hvernig efnahagsstefna Alþb. og Framsfl. frá 1978 hefur leikið atvinnuvegina. Þar er áreiðanlega komið að einum svartasta og alvarlegasta þætti efnahagsframvindunnar á síðustu árum. Vinstri stjórnin, sem tók við haustið 1978, og núv. ríkisstj. hafa átt það sammerki eins og fleira að framfylgja neikvæðri afturhaldsstefnu gagnvart atvinnuvegunum. Þó tók steininn úr með svokallaðri „efnahagsáætlun“ ríkisstj. sem kunngerð var um síðustu áramót. Um þessa efnahagsáætlun og brbl., sem henni fylgdu, segir svo í nál. okkar sjálfstæðismanna í fjh.- og viðskn. frá 22. febr. s. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæði 1. gr. um „herta“ verðstöðvun, hækkun raunvaxta samkv. 3. gr. og nýtt millifærslukerfi, sem þýðir falskt gengi, ásamt sífelldri hækkun skatta á atvinnuvegina og landsfólkið er augljóslega eins og uppskrift fyrir atvinnuleysi.“

Allar þessar ráðstafanir voru gerðar undir því yfirskini að þær ættu að lækka verðbólguna því að hún væri versta mein fyrir atvinnuvegina. Út af fyrir sig er það rétt. En versta uppspretta verðbólgu fyrir atvinnuvegina eru ráðstafanir, sem beinlínis fela í sér kostnaðarhækkun, t. d. fjármagnskostnaðar, og minni eða enga hækkun tekna, t. d. vegna harðvítugra verðlagshafta eða gengisskráningar sem í engu tekur tillit til innlendrar verðbólgu og kostnaðarhækkana.

Þessi efnahagsáætlun er tvímælalaust afturhaldssamasta stefna sem fylgt hefur verið gagnvart atvinnuvegunum í a. m. k. tvo áratugi, enda blasa afleiðingarnar við: Útflutnings- og samkeppnisiðnaður hefur verið rekinn með svo miklum halla að það hefur verið eitt helsta fréttaefni í sumar og haust að skýra frá því með hrikalegum dæmum. Öll útgerð og undirstöðugrein fiskvinnslunnar, frystingin, hafa búið við slíkan taprekstur að nú þarf að útvega í stórum stíl fyrirtækjum hallærislán, annaðhvort erlendis eða með seðlaprentun, til þess að þau stöðvist ekki þótt góðæri ríki á flestum sviðum í sjávarútvegi. Með slíkum „ráðstöfunum“ verður atvinnuöryggi ekki lengi tryggt.

Herra forseti. Í bréfi, sem Seðlabanki Íslands skrifar þingnefnd um ástand og horfur í peningamálum o. fl. og fylgir nái. okkar sjálfstæðismanna, segir að peningar streymi úr bankakerfinu, líklega vegna þess, orðrétt með leyfi hæstv. forseta, „hve rekstrar- og greiðsluafkoma fyrirtækja er léleg, einkum í útflutnings- og samkeppnisgreinum“. Þá segir í bréfinu að „verðbólgustig sé nálægt 50%“.

Efnahagssérfræðingar ríkisstj. og ráðherrar boða þörf nýrra ráðstafana í efnahagsmálum um áramót, nokkrum vikum eftir að hæstv, forsrh. sagði í stefnuræðu sinni að allt væri í himnalagi á Íslandi svo að maður hélt að hann væri að tala um þúsund ára ríkið. Öll sólarmerki benda til þess, að verið sé að búa þjóðina undir nýja kollsteypu í kringum hátíðarnar. Kannske verður hún tilkynnt í sjónvarpinu á gamlárskvöld. Forsendur þess frv., sem hér er til umr., til fjárlaga fyrir árið 1982 eru þegar foknar út í veður og vind, en stefna þess bendir til þess, að ekki séu í uppsiglingu nýjar leiðir í íslenskum efnahagsmálum. Það er því miður ekki að búast við þeirri jákvæðu stefnubreytingu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar sem augljóslega er nú þörf fremur öllu öðru og flestum er ljóst — nema e. t. v. ráðherrum og stuðningsliði þeirra á Alþingi.

Herra forseti. Að lokum þetta: Það er ljóst að nauðsynlegur undanfari æskilegra breytinga í fjármálum ríkisins og efnahagsmálum almennt er að núverandi ríkisstj. víki og við taki stjórn sem ekki aðeins hefur vilja, heldur einnig kjark og þor til þess að takast á við vandamálin.