14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

1. mál, fjárlög 1982

Frsm. 2. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Frá því var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld, að hv. þm. Lárus Jónsson og ég mundum hér mæla fyrir minni háttar álitum að því er varðar 2. umr. fjárlaga. Einhvern tíma hefði verið sagt að ekki þyrfti að fara í grafgötur um það, hvar þeir væru í pólitík sem hefðu uppi slíkan fréttaflutning, en ekki ætla ég mönnum það. Hér mun að sjálfsögðu, eins og hv. þm. Lárus Jónsson hefur raunar sannað, hafa verið um mismæli að ræða hjá fréttamanni, eins og mér heyrðist að væri á fleiri sviðum í kvöld að því er varðaði fréttaflutning. En eftir þessu var vissulega tekið.

Ég vil í upphafi míns máls færa meðnm. mínum þakkir fyrir ágætt samstarf, sérstaklega formanni fjvn., hv. þm. Geir Gunnarssyni. Það er ekki góð staða að lenda í því að stýra vinnubrögðum í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, ég tala nú ekki um undir handarjaðri hæstv. núv. ríkisstj. Ég færi einnig mínar þakkir fyrir ágætt samstarf og góða þjónustu bæði hagsýslustjóra og starfmanni nefndarinnar, Magnúsi Ólafssyni.

Við 1. umr. fjárlaga hér fyrr í haust var af hálfu stjórnarandstöðunnar bent rækilega á það og rökstutt, hversu hæpnar þær forsendur væru sem eru lagðar til grundvallar í fjárlagafrv. Síðan hefur það komið enn betur í ljós, að þær forsendur, sem þar eru gefnar, fá a. m. k. ekki staðist sé miðað við það ástand sem nú ríkir.

Það hefur áður komið fram, að hin margnefnda reiknitala frv., þar sem gert er ráð fyrir verðhækkunum og kauphækkunum milli ára upp á 33%, fær vart staðist því að í nýgerðri spá Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að að óbreyttum aðstæðum verði verðbólga á árinu 1982 a. m. k. 55%. Það er því alveg ljóst að annað tveggja verður að gerast ef mark á að taka á afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1982: að byggja frv. og fjárlögin á þeirri spá, sem Þjóðhagsstofnun lætur frá sér fara um verðlagsþróunina á næsta ári, eða hæstv. ríkisstj. verður að leggja á borðið þær efnahagsaðgerðir sem hún telur sig verða að gera til þess að forsendur fjárlagafrv., sem hún leggur fram, standist. Hvorugt þetta hefur gerst. Það er því augljóst að frv., eins og það nú liggur fyrir, er óraunhæft og yrði að taka tillit til miklu frekari og nýrri upplýsinga um þessi mál heldur en gert hefur verið ef taka á mark á fjárlögum fyrir árið 1982. Það er því hreint öfugmæli þegar því er haldið fram, að það frv., sem hér er nú til 2. umr., sé stefnumarkandi frv. að því er varðar fjárlagadæmi og efnahagsstefnuna í landinu. Verði fjárlög fyrir árið 1982 afgreidd á grundvelli þessa frv. eins og það nú liggur fyrir, þá er augljóst að það verður a. m. k. marklítið plagg, ef ekki marklaust, og öllu verður þá í óvissu stefnt að því er varðar ríkisfjármál og efnahagsmál. Það er lágmarkskrafa, sem ég held að verði að gera til hæstv. ríkisstj., ætli hún sér að halda sig við forsendur fjárlagafrv., að hún upplýsi hvaða efnahagsaðgerðir hún hefur í bígerð svo að það liggi ljóst fyrir, áður en fjárlög fyrir árið 1982 eru afgreidd, hvernig að þeim málum á að standa.

Í athugasemdum með fjárlagafrv. segir að meginforsendur frv. — og þá efnahagsstefnu ríkisstj. fyrir næsta ár — séu að draga úr verðbólgu og halda uppi viðunandi kaupmætti almennra launa, að tryggja afkomu atvinnuveganna og að tryggja fulla atvinnu um land allt. Það er því ekki tilefnislaust að velta fyrir sér hvernig þessi mál, sem ríkisstj. sjálf telur meginforsendur að fjárlagagerðinni, standa nú í árslok.

Ríkisstj. heldur því fram og hefur margoft gert það undanfarið, að verðbólgustigið hér á þessu ári verði í kringum 40%. Ég hygg að þeir séu æðimargir sem eru vantrúaðir á þessar tölur hjá hæstv. ríkisstj. Auðvitað er hægt að mæla verðbólgu með mörgum mælistikum og nánast hægt að fá margs konar útkomu eftir því hvaða mælikvarða menn leggja á þá hlið málsins. Ég held að eina raunverulega mælistikan og sú, sem best er trúandi, sé budda almennings í landinu og heimilanna. Það er sú mælistika sem allflestir þekkja og trúa á, og það er raunar sú eina mælistika sem segir í raun og veru sannleikann um þennan þátt málsins. Og sú mælistika segir allt aðra sögu en þá sem hæstv. ríkisstj. hefur haldið fram og heldur fram enn. Öllu launafólki í landinu ber saman um það, að aldrei hafi verið erfiðara eða jafnerfitt að framfleyta heimilum og nú þannig að tekjur nægðu fyrir brýnustu nauðþurftum. Sú skoðun fer ekki eftir því, hvar menn standa í pólitískum flokki eða hvaða pólitíska skoðun menn hafa. Almennt er launafólk sammála um að staða þess sé nú verri en verið hefur mörg undangengin ár. Og það er ekki annað að sjá á því, sem nú liggur fyrir varðandi þessi mál, en að áfram verði haldið á þeirri braut að ráðstöfunartekjur heimilanna verði skertar og kaupmáttur fari minnkandi frá því sem nú er. Og hvað með það að tryggja afkomu atvinnuvega landsmanna sem er ein af forsendum frv.?

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni á undangengnum vikum og mánuðum, og það raunar sjá allir sem sjá vilja, að fjöldi fyrirtækja í aðalatvinnugreinum landsmanna, fiskveiðum og fiskvinnslu, er að stöðvast og sum þegar stöðvuð vegna rekstrarerfiðleika. Við blasir stöðvun fiskveiðiflotans nú um áramót eða raunar nú eftir örfáa daga. Togarafloti landsmanna hefur verið gerður út hálft árið á skrapfiskerí og þó er togurum fjölgað sem á færibandi sé. Ekki væri það talin skynsamleg stefna af öðrum sem hæstv. ríkisstj. fylgir nú í þeim efnum með hæstv. sjútvrh. í broddi fylkingar. Þetta er gert þó að vitað sé að hver nýr togari þýðir versnandi afkomu fyrir launafólk og versnandi afkomu fyrir þjóðarheildina. Kreppuástand blasir við í iðnaði landsmanna og svo mætti áfram telja. Dæmi um það, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar sér að hlúa að iðnaðinum, er niðurskurður sá sem birtist í fjárlagafrv. á Iðnlánasjóði, sem er upp á 88% miðaðvið árið í ár.

Þriðja meginforsendan, sem ríkisstj. byggir fjárlagafrv. á er að tryggja fulla atvinnu um land allt. Það má raunar segja að það sé sú forsenda sem nokkurn veginn hefur staðist af þeim meginforsendum sem fjárlagafrv. byggist á. Þó er ljóst að tíma- og staðbundið atvinnuleysi hefur átt sér stað og atvinnuástand er um þessar mundir mjög ótryggt. Því hefur verið haldið fram af hálfu talsmanna ríkisstj. og hæstv. ríkisstj. hefur hælt sér af því, hversu atvinnuástand hér væri gott miðað við atvinnuástand í okkar nágrannalöndum. Það mætti því spyrja hvernig á því standi, að hér hafi ekki verið fjöldaatvinnuleysi. Ég held að það sé ljóst að Ísland er orðið láglaunasvæði. Það er nánast kreppuástand hjá láglaunafólki. samanburður við nágrannalöndin að því er varðar atvinnu er ekki raunhæfur vegna þess að það er augljóslega auðveldara að halda uppi atvinnu, þar sem kaupgjald er mjög lágt, heldur en í nágrannalöndum okkar, þar sem kaupgjald er miklum mun hærra og tekjur nýtast því betur, kaupmáttur er betri. Ég held að það sé tímaspursmál hvenær atvinnuleysi og þá alvarlegt atvinnuleysi kemur hér til, verði áfram haldið á þeirri braut sem hæstv. ríkisstj. hefur markað sér, hefur fylgt og ætlar sér að fylgja að því er best verður séð.

Þá segir í athugasemdum með frv. hæstv. ríkisstj. að ítrasta sparnaðar og aðhalds í ríkiskerfinu sé gætt. Hverjir trúa slíku þegar það liggur fyrir að í sama frv. og hæstv. ríkisstj. ætlar öðrum að búavið 33% hækkun milli ára og þaðan af minna ætlar hún sjálfri sér, þ. e. yfirstjórn ráðuneytanna, — sjálfir ráðherrarnir ætla sér frá 40% og allt upp í 97.2% hækkun milli ára. Annaðhvort ætla hæstv. ráðherrar að nota aðra mælistiku á verðbólguna í ráðuneytunum en hjá öðrum eða þá að þetta sýnir okkur fram á það, að ríkiskerfið tútnar út og vex undir handarjaðri núv. hæstv. ráðh. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar undir íhaldsstjórn ef eitthvað þessu líkt hefði birst í fjárlagafrv., að öllum öðrum en ráðherrunum sjálfum væri ætlað að búa við 33% breytingar milli ára en einstakir ráðherrar ætluðu sér að ná í allt að 97% hækkun milli þessara sömu ára. Kannske er hér á ferðinni niðurtalningarstefna Framsfl. í ráðuneytunum sem hann hefur boðað lengi? Augljóst er að hæstv. ríkisstj. og ráðherrar ætla sér að ná ríflega þeim skammti og jafnvel margföldum sem þeir ætla öðrum.

Það er líka athyglisvert fyrir launafólk og verður auðvitað eftir því tekið, hvaða grundvöllur það er sem frv. gerir ráð fyrir og byggist á varðandi einstakar ríkisstofnanir. Það liggur t. d. fyrir að frv. gerir ráð fyrir að hækkun á gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins verði frá ársbyrjun til ársloka 42.2%. Strax 1. jan. n. k., eftir um hálfan mánuð, á að hækka gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins um 16%, og áfram skal haldið 1. febr. og hækka þá um 7% til viðbótar. Ekki þarf hér um að kenna grunnkaupshækkunum eða öðru slíku, ekki a. m. k. hjá hinum almenna launþega í landinu, þó að hæstv. fjmrh. lýsi nú yfir að það sé hægt að borga starfsmönnum ríkisins innan BSRB miklu hærri laun en um var samið við þá nú fyrir nokkrum dögum. (Fjmrh.: Það hefur enginn sagt.) Það er haft eftir hæstv. fjmrh. og hann hefur ekki borið það til baka enn. Hann gerir það þá væntanlega ef það er rangt. Svona mætti fara í gegnum þau fyrirtæki þar sem hæstv. ríkisstj. ætlar strax í ársbyrjun að stórhækka gjaldskrár og taxta hjá almenningi á sama tíma og hún skammtar sem skít úr hnefa kauphækkun til láglaunafólks í landinu.

Strax 1. febr. á gjaldskrá hjá Pósti og síma að hækka um 10%, þ. e. símtekjurnar um 10%, og pósttekjur eiga að hækka 1. mars um 10%. Það á því augljóslega ekki að linna því forustuhlutverki hæstv. ríkisstj. að ganga á undan í því að hækka alla þjónustu af hálfu ríkisins sem landsmenn og þá ekki síst láglaunafólk í landinu verður að bera. Það er athyglisvert að eins og allir menn vita er verðstöðvun hér á landi. Hún birtist með þeim hætti undir handarjaðri hæstv. ríkisstj. að á árinu í ár hafa auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins hækkað um 89.9% . Og það er gert ráð fyrir að sami tekjuliður hækki á árinu 1982 um 52.1%. Að því er varðar sjónvarpið, þá hefur hækkun auglýsinga þar numið 89.9% á árinu í ár og á árinu 1982 er byggt á það, að þessar tekjur hækki um 64.3%.

Hvar sem gripið er niður í ríkiskerfinu að því er varðar álögur á almenning í landinu er um margfaldar hækkanir að ræða miðað við það sem hæstv. ríkisstj. sjálf byggir fjárlagafrv. á í hækkun milli áranna 1981 og 1982. Þessi dæmi sýna, svo að ekki verður um villst, að hér eftir sem hingað til ætlar hæstv. ríkisstj. að ganga á undan með geigvænlega hækkunarskriðu á hendur almenningi strax í byrjun ársins 1982. Ekki hefur farið fram hjá neinum að undanfarna daga hafa dunið yfir verðhækkanir á vörum og þjónustu hins opinbera svo að segja daglega ef ekki oft á dag. Þessu á bersýnilega að halda áfram á næsta ári. Launum skal haldið niðri, a. m. k. skal launum láglaunafólksins haldið niðri. Það er stefna hæstv. ríkisstj. á sama tíma og öll vara og þjónusta af hálfu hins opinbera undir forustu hæstv. sömu ríkisstj. á að hækka margfalt í álögum á almenning. Allar þessar hækkanir, sem orðið hafa og boðaðar eru, eiga sér stað þrátt fyrir það að svo til engar grunnkaupshækkanir hafa átt sér stað hjá láglaunafólki, enda fer kaupmáttur ráðstöfunartekna ört minnkandi.

Ég hef hér farið örfáum almennum orðum um þá efnahagsstefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt og ætlar að fylgja, og þær forsendur sem frv. og fjárlög fyrir árið 1982 væntanlega, haldi fram sem horfir, eiga að byggjast á. Hér má kannske frekar segja að ekki sé verið að ræða um stefnu hæstv. ríkisstj., heldur væri nær sanni að nota orðtakið stefnuleysi í efnahagsmálum, sem er að sjálfsögðu í beinum tengslum við þær hæpnu forsendur sem frv. byggist á.

Það er margt athyglisvert í þessu fjárlagafrv. sem ástæða væri til að víkja að örfáum orðum.

Eitt er það, að hæstv. ríkisstj. hrósar sér af þeim jákvæða árangri að innlán í bönkum og sparisjóðum landsins hafa stóraukist. Þetta gerir hæstv. ríkisstj. þó að öll þjóðin viti að ástæðan fyrir þeim jákvæða árangri, sem náðst hefur á þessu sviði, er sú verðtryggingarstefna, sem Alþfl. fékk samþykkta og verið hefur í gildi í þrjú ár, þó að sumir hverjir hæstv. ráðh. hafi orðað það svo, að þeir hafi verið glaptir til þess að samþykkja hana og standa að henni, þeir hafi látið glepjast. Það er því óskammfeldni af hæstv. ríkisstj. að falsa svo staðreyndir sem hér er um að ræða: að eigna sér þessa jákvæðu þróun.

Hæstv. ríkisstj. hefði hins vegar átt að láta þess getið í frv., samhliða því lofi sem hún ver á sjálfa sig, að hún hefur svikið þann þátt verðtryggingarstefnunnar sem fylgja átti með og varðar breytingu á útlánum með lengingu lánstíma og þannig léttari greiðslubyrði, fyrst og fremst h já því fólki sem stendur í húsbyggingum, fyrst og fremst hjá launafólki. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. svikið. En að sjálfsögðu lætur hún þess ógetið.

Ég held að öllum sé það ljóst, sem um þessi mál hugsa, að verði fram haldið þeirri stefnu sem hefur berið byggt á og er bersýnilega ætlað að byggja á að því er varðar fjárlagafrv. og stefnuna í efnahagsmálum, þá er vissulega vá fyrir dyrum. Það er augljóst mál, að samkv. þessu fjárlagafrv. mun skattbyrði aukast milli ára þrátt fyrirgefin loforð um hið gagnstæða. Verkalýðshreyfingunni og launafólki hafa verið gefin loforð um skattalækkanir, en hér er bersýnilega stefnt í hækkun skattbyrðar á milli ára. Og enn ætlar hæstv. ríkisstj. að auka skattálögur. Nú skal tekinn upp nýr skattstofn, nýr skattur sem á að nema um 40 millj. kr. og á að leggjast á rafmagn sem flutt er eftir byggðalínum. Hér er um nýjan skatt að ræða sem hefur ekki verið fyrir hendi áður. Það er því ljóst, sem áður hefur verið haldið fram, að skattkrumla hæstv. ríkisstj. teygir sig í allar hugsanlegar áttir og enginn mun geta forðað sér þar ef á að halda áfram á sömu braut. Þá er augljóst að stórar fjárhæðir vantar í ýmsa stóra málaflokka við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. Það er t. d. ljóst að Tryggingastofnun ríkisins vantar a. m. k. 240 millj. ef hún á að sinna því hlutverki sem henni er ætlað. Miðað við þær fjárhagsáætlanir, sem sú stofnun sjálf hefur gert, mun vanta 240 millj. í þann lið-fjárlagadæmisins.

Og enn ætlar hæstv. ríkisstj. að svíkjast aftan að þeim íbúum landsins, sem búa við hvað hæst orkuverð, og ætlar að verða þess valdandi, að einhver mesta byggðaröskun eigi sér stað í landinu ef áfram verður haldið sem horfir. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að orkujöfnunargjald, sem nú er búið að gera að sérstökum tekjustofni fyrir ríkissjóð, en var í upphafi á lagt til þess að jafna kostnað vegna húshitunar, gefi tekjur til ríkissjóðs er nemi rúmlega 191 millj. nýkr. eða rösklega 19 milljörðum gkr. En af þeirri upphæð ætlar hæstv. ríkisstj. einungis á pappírnum að verja um 30 millj. kr. eða 3 milljörðum gkr. til jöfnunar á húshitun. 160 millj. kr. eða 16 milljarða gkr. ætlar hæstv. ríkisstj. að svíkja út úr þessu fólki í hít ríkissjóðs sjálfs. Það væri freistandi — ef einhverjir hæstv. ráðh. mættu vera að að hlýða hér á umr. um fjárlög, enginn þeirra sést í þingsalnum nú — að ræða öllu frekar um þennan þátt mála, ekki síst við hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. hefðu þeir haft tíma til að hlýða á þessar umr. eða vera viðstaddir. Eigi að síður skal það gert og vonandi berst þeim það þá til eyrna frá stuðningsliði þeirra héðan út þingsölum.

Ég veit ekki hvort þm. almennt hér á þessu svæði hafa gert sér grein fyrir því, hversu gífurlega þungar byrðar eru lagðar á þetta fólk. Þessa dagana er verið að rukka inn fyrir nóvembermánuð kostnað við upphitun á Vestfjörðum þar sem fjarvarmaveita er notuð sem á að vera talsvert ódýrari en olíuverðið segir til um og þeir þurfa að borga sem kynda hús sín með olíu. Kostnaður fyrir nóvembermánuð, upphitunarkostnaður á þessu svæði með fjarvarmaveitu, er á bilinu frá 900 upp í 1600 nýkr., þ. e. á bilinu frá 90 þús. gkr. og upp í 160 þús. á mánuði sem fólk verður að borga vegna kostnaðar við upphitun á ósköp venjulegu íbúðarhúsnæði. Er það meining hæstv. ríkisstj., ég tala nú ekki um: er það meining hæstv. viðskrh., sem tilheyrir Framsfl. sem frá upphafi hefur talið sig sérstakan byggðaflokk, byggðastefnuflokk, jöfnunarflokk fyrir landsbyggðina, — er það meining þessa flokks að halda áfram á þeirri sömu braut að svíkja fjármuni út úr þessu fólki og láta það standa uppi með þessa byrði á bakinu svo árum skiptir? Ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. viðskrh. um það, hvort hann ætli að fara eftir að ég best veit sameiginlegri niðurstöðu þeirrar nefndar sem hann skipaði til þess að endurskoða greiðslu olíustyrksins. Hæstv. ráðh. hafði við orð hér um daginn að hann hefði ekki getað gert það vegna þess að nefndin hefði ekki starfað. Ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðh. hvort hann ætlaði sér að fara að þeim tillögum sem þar hafa verið settar fram, sameiginlegum tillögum og sameiginlegri niðurstöðu nefndarinnar um ca. 150% hækkun á þessum styrk sem á að verka aftur fyrir sig allt árið 1981. Það væri fróðlegt að fá svör við því frá hæstv. viðskrh., hvort hann ætlaði að fara eftir þessu. Eða ætlar hann að halda áfram að halda nokkrum tugum eða hundruðum milljóna í ríkiskassanum sem þetta fólk á rétt og heimtingu á að fá greiddar vegna þess þáttar sem hér um ræðir? En það er athyglisvert, og því vil ég koma inn í þessa umr., að hæstv. ríkisstj. hefur hafnað þessu á formlegan hátt. Ég vil minna á það, að heill landshluti er með lausa samninga vegna þessa þáttar málsins. Á Vestfjörðum hefur ekki verið gengið frá kjarasamningum vegna þess að ríkisvaldið hefur daufheyrst við réttlátum kröfum fólks, sem þar býr, um að jöfnuður eigi sér stað að því er varðar orkuverð. Það væri gaman að fá um það vitneskju í þessum umr., ekki bara frá hæstv. ráðh., heldur þeim stjórnarsinnum sem hér sitja inni, hvort þeir ætli að þverskallast við því áfram að þessum byrðum verði af fólkinu létt? Ætla þeir að koma í veg fyrir að þetta fólk fái sjálfsagða leiðréttingu sinna mála að því er varðar þennan þátt? Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að þm. landsbyggðarinnar, t. d. þm. þeirra kjördæma sem álíka eru sett og Vestfirðir, láti hafa sig til nánast að stela því fjármagni, sem búið er að taka af fólkinu, í aðra þætti og þá í hít hæstv. ríkisstj., í ríkissjóð. Það verður gaman að fylgjast með afstöðu þessara hv. stjórnarþingmanna til þessa máls, bæði við umr. sjálfar og ekki síður við afgreiðslu málsins hér í þinginu.

Ég ítreka það að verði ekki spyrnt við fótum og jöfnuður gerður, þá er hér um að ræða mál sem kemur til með að valda mestu byggðaröskun sem um getur í landinu. Ef menn ætla að loka augum og eyrum fyrir því, þá verður það fólk, sem við þetta þarf að búa, að sjálfsögðu að grípa til annarra ráða en þeirra að málið verði afgreitt hér á Alþingi. Þá verður að fara aðrar leiðir og þeir að sjálfsögðu að taka út refsinguna sem beina málinu inn á þær brautir, ef til kemur.

Það verður ekki fjallað um fjárlagafrv. eða lánsfjáráætlun, sem nú er talað um að afgreiða fyrir jólaleyfi, án þess að minnast á þá fyrirætlun hæstv. ríkisstj. að auka bindiskyldu hjá bönkum og sparisjóðum og auka kaupskyldu lífeyrissjóða úr 40 í 45% og lögleiða sérstök refsiákvæði í því sambandi, ef ekki fangelsisvist, ef ekki verður við því orðið. Að því er varðar lífeyrissjóðina er það mín skoðun að stefnt sé að hreinni eignaupptöku og fjársektum ef með þessum hætti á að haga sér í því máli. Mér skilst á hæstv. fjmrh. eða því sem haft er eftir honum, að verði ekki orðið við þessum kröfum ríkisvaldsins, þá verði beitt viðurlögum, fjársektum, ef ekki einhverju öðru verra, á hendur því fólki sem þetta fjármagn á, ef það reynir að bera hönd fyrir höfuð sér og verja þá fjármuni sem hér um ræðir. Það er furðulegt að hugsa til þess, að í fylkingarbrjósti þessara aðfara að lífeyrissjóðunum skuli vera hæstv. fjmrh., einn af foringjum Alþb. og fulltrúi félagshyggjunnar og lítilmagnans í þjóðfélaginu að eigin sögn. Hér er um að ræða hreina aðför að þessu fjármagni fólksins, sem það sjálft á og á að hafa rétt til að verja með þeim hætti sem það telur skynsamlegast.

Þá er ljóst að verði fjárlagafrv. afgreitt eins og nú stefnir í, þá eru flestir atvinnuvegasjóðir landsmanna tómir og lifa á erlendum lántökum. Svo langt er gengið að meira að segja á að taka erlend lán til rekstrar ríkisfyrirtækja. Öll vitum við dæmi þess síðustu vikur að hvert lánið á fætur öðru er tekið erlendis til þess að halda hæstv. ríkisstj. á floti enn um sinn. Talið er að Byggingarsjóð ríkisins vanti a. m. k. 40 millj. eða 4 milljarða gkr. á þessu ári til að ná saman endum. Stofnlánasjóði atvinnuveganna vantar a. m. k. 65 millj. kr. eða 6.5 milljaðra gkr. á þessu ári til að endar nái saman. Og fyrirsjáanlegt er að á næsta ári verður þörf á fjármagni umfram það sem hér er nefnt.

Stjórnarmenn í Framkvæmdastofnun ríkisins sitja svo að segja daglega með sveittan skallann við að bjarga hinum ýmsu fyrirtækjum sem ramba á barmi gjaldþrots, til þess að þau geti haldið líftórunni frá degi til dags. Hér er um að ræða björgunaraðgerðir, kreppulán til hinna ýmsu mikilvægustu fyrirtækja sem eru komin í þröng og er ekki að sjá að geti haldið rekstri áfram öðruvísi en að bjarga sér með þessum hætti. Það er Byggðasjóði ætlað á sama tíma og hæstv. ríkisstj. sker niður tekjur þessa sama sjóðs frá ári til árs og á sama tíma og ríkissjóður með sjálfan hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar hirðir hvern lífeyrissjóðinn á fætur öðrum, hina stóru og tiltölulega megnugu lífeyrissjóði til sín, en lætur atvinnuvegasjóðunum það eftir að versla við þá vanmáttugu og litlu lífeyrissjóði sem eftir eru.

Talið er að það vanti a. m. k. 100–120 millj. kr. til þess að atvinnuvegasjóðirnir fái það sem þeim var ætlað í lánsfjáráætlun fyrir árið í ár. Svo hart hefur hæstv. ríkisstj. og ríkissjóður gengið að lífeyrissjóðunum, þeim stærri, og tileinkað sér öll viðskipti við þá, að atvinnuvegasjóðirnir fá ekki það fjármagn, sem í raun og veru var ætlað þeim frá lífeyrissjóðunum, vegna aðgangshörku ríkisstj. og ríkissjóðs. Hér er sem sagt um að ræða björgunaraðgerðir frá degi til dags til ýmissa hinna þörfustu fyrirtækja í landinu.

Það mætti halda áfram að telja upp og gera að umræðuefni það ástand sem ríkir í þessum efnum. Ég held að það sé ekki ofmælt þó að sagt sé að núv. hæstv. ríkisstj. lifi fyrir það eitt að sitja meðan sætt er. Þar virðist engu breyta þó að efnahagslífið og efnahagsstefnan hafi margoft beðið skipbrot. Enn skal haldið áfram, erlend lán tekin og lifað á þeim þann tíma sem eftir er af lífdögum þessarar hæstv. ríkisstj. sem vonandi verða ekki margir. Það er alveg augljóst, að fyrr en síðar kemur að því, að menn sjá raunveruleikann og staðreyndirnar naktar fyrir augum sér. Því fyrr sem hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar hér á Alþingi gerir sér grein fyrir þeim ógöngum sem málin eru komin í, þeim mun betra.

Núv. hæstv. ríkisstj. er líklega þekktust allra ríkisstjórna að því að leika millifærslufeluleik með fjármagn. Það er ekki undarlegt þegar til þess er litið, að Alþb. hefur æðisterk ítök í stjórnarsamstarfinu. Og allir þekkja af gamalli reynslu efnahagshugmyndir þess flokks. Það er því ljóst að staðreyndir þeirrar efnahagsstefnu, sem núv. ríkisstj. fylgir og ætlar sér að fylgja, ætlar að byggja fjárlagafrv. á, eru þessar: Verðbólga fer vaxandi. Hún verður a. m. k. 55% á næsta ári. Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna fer ört minnkandi. Ísland er orðið láglaunasvæði, sem verður þess valdandi að 500–1000 manns yfirgefa landið árlega. Vöruverð undir verðstöðvun hæstv. ríkisstj. æðir fram úr kaupinu og hækkar um 68% á sama tíma og kaup hækkar um 50%. Íbúðaverð hækkar um 80% á sama tíma og kaup hækkar um 50%. Atvinnuvegasjóðir landsmanna eru tæmdir, alger stöðvun fiskiskipaflotans er fram undan, grundvöllur atvinnulífsins er á hverfanda hveli. Efnahags- og fjármálalífið er undir þessari ríkisstj. helsjúkt.

Þetta er í sem skemmstu máli sú mynd sem frv. gerir ráð fyrir og efnahagsstefna ríkisstj. ber í skauti sínu verði henni fram haldið sem lagt er til.

Það væri hægt að fara miklu fleiri orðum um ýmsa þætti þess frv. sem hér er nú til 2. umr. Ég vil aðeins benda á tvo til þrjá málaflokka til viðbótar þessum.

Ég held að það sé öllum ljóst, sem athugað hafa í frv. það fjármagn sem ætlað er t. d. héraðsskólunum í landinu, að það sé málaflokkur sem ástæða sé til að velta vöngum yfir og reyna að fá úrbætur í. Ég hugsa að Íþróttasjóður og héraðsskólaþátturinn séu þeir málaflokkar sem verst er farið með að því er varðar fjárveitingar verði frv. afgreitt eins og hér er lagt til. Verði Íþróttasjóður afgreiddur eins og nú má ætla að verði er að myndast margra ára hali á greiðslum ríkisvaldsins, sem það á að inna af hendi samkv. lögum á móti sveitarfélögunum og öðrum framkvæmdaaðilum. (GJG: Þetta hefur nú verið álitið fyrr.) Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni. En þó að ástandið hafi einhvern tíma verið slæmt, þá er ekki þar með sagt að nauðsynlegt sé að stefna að því að hafa það enn þá slæmt núna. Þetta var leiðrétt á árunum 1973–1974. Þá var allur hali Íþróttasjóðs gerður upp og dæmið stóð rétt. Síðan hefur farið á þennan veg, og ég hygg að ástandið hafi aldrei verið jafnslæmt og það er nú ef afgreiðslan verður á þann hátt sem lagt er til. Sömu sögu má raunar segja um framhaldsskólaþáttinn og héraðsskólana. Héraðsskólarnir eru margir hverjir í niðurníðslu. Mannvirki, sem voru og eru að vissu leyti myndarleg, eru eins og fleira í höndum ríkisins látin grotna niður vegna hirðuleysis og vegna þess sjónarmiðs að aldrei má eyða fjármagni í að halda við eignum ríkisins.

Ég held að það sé alveg augljóst mál, að ef fjárlagafrv. verður afgreitt með þessum hætti verði sett upp annað fjárlagafrv. við hliðina með aukafjárveitingu. Með því að afgreiða fjárlög á svo óraunsæjan hátt sem hér er lagt til og hefur verið gert áður er verið að setja upp önnur fjárlög við hliðina á þeim sem Alþingi setur, þ. e. með aukafjárveitingum sem meira og minna ráðast af því, hvað embættismannakerfið í landinu vill. Það er mál sem ástæða er til að ræða, að í raun og veru er svo komið — þó að það sé hart að segja það — að það skiptir tiltölulega litlu máli hvað fjárveitingavaldið, Alþingi, ákvarðar að því er varðar fjárveitingar. Embættismannakerfinu er eftirlátið að ráðsmennskast með þetta meira og minna að eigin geðþótta, burt séð frá því hvað fjárveitingavaldið hefur ákveðið. Það er orðið að mínu viti nauðsyn á því að alþm. geri sér fulla grein fyrir þessari staðreynd.

Það er furðulegt að hugsa til þess, að í kjördæmi eins og Vestfjarðakjördæmi, sem allir viðurkenna að er langsamlega einangraðasta kjördæmið samgöngulega séð og verður að byggja svo til einvörðungu á flugsamgöngum stóran hluta úr árinu, skuli ekki vera framkvæmt fyrir 60 millj. gamlar af þeim fjárveitingum sem hægt væri að vinna fyrir. Það eru skildar eftir 60 gamlar millj. og ekki framkvæmt fyrir þær af því að embættismönnunum datt það í hug, þó að fjárveitingavaldið væri búið að ákveða það. Svona mætti telja upp ótal dæmi þess, sí og æ er verið að draga valdið úr höndum Alþingis til embættismannanna og þeim er eftirlátið að ráðsmennskast með hlutina.

En fari svo sem allt bendir til, að hæstv. ríkisstj. haldi áfram á þessari villubraut og láti afgreiða fjárlög fyrir árið 1982 án tillits til þeirra staðreynda sem fyrir liggja og sýnt hefur verið fram á og ekki hefur verið mótmælt, þá er hér verið að afgreiða fjárlög sem lítið mark verður á takandi. Það verður að gera þá kröfu til ríkisstj., ég tala nú ekki um Alþingis sjálfs, að það sýni raunsæi í afgreiðslu jafnmikilvægs málaflokks og fjárlög eru og sé ekki með blindingsleik sýknt og heilagt, ár eftir ár, við afgreiðslu þess máls. Ef á að afgreiða fjárlagafrv. á grundvelli 33% hækkunar á milli ára, á ímynduðum efnahagsráðstöfunum ríkisstj. sem treysta þann grundvöll, þá á hæstv. ríkisstj. að leggja þær ráðstafanir fram svo að þm. sjái á hverju er byggt. Ef ekki, þá á á hinn bóginn að gera ráð fyrir þeirri spá, sem Þjóðhagsstofnun hefur sett fram og hefur í flestum tilvikum staðist nokkuð vel undanfarin ár, það hafa ekki verið mikil frávik. Þá á að byggja fjárlagafrv. og forsendur þess á þeirri spá og það er 55% hækkun milli ára en ekki 33%. Það verður því annað tveggja að gerast, ef einhverju viti á að koma í fjárlagaafgreiðsluna, annaðhvort verður hæstv. ríkisstj. að gera svo vel að gera grein fyrir þeim efnahagsaðgerðum, sem hún ætlar að gera til þess að skjóta styrkari fótum undir frv., og miða við 33%, eða byggja á þeirri spá sem fyrir liggur um 55% hækkun milli ára. Þetta er allur sannleikur málsins og öllum augljós sem um málið vilja hugsa og skoða það af raunsæi. Það er vissulega mikill ábyrgðarhluti hjá hæstv. ríkisstj. að beita þeim blekkingum sem hún hefur beitt um að allt sé í besta lagi, allt sé slétt og fellt. Það á eftir að koma á daginn, kannske fyrr en margan grunar, að menn standi frammi fyrir allt öðrum staðreyndum en þeim að allt sé í lagi. Þjóðin á heimtingu á að henni sé sagður sannleikurinn. Það kemur fyrr en seinna að skuldadögunum og hæstv ríkisstj. verður að standa ábyrg gerða sinna.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða öllu lengri tíma í umr. um frv. sem slíkt, forsendur þess og efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj. En ég held að nauðsynlegt sé að víkja með örfáum orðum að því sem ég sagði áðan um fjárlögin sjálf og hins vegar hættuna á því, ef þau yrðu afgreidd óraunhæft, að upp verði sett við hliðina á fjárlögum nokkurs konar aukafjárlagafrv. sem felur í sér aukafjárveitingar, líklega í vaxandi mæli. Ég hef fengið um það upplýsingar, að á árinu 1980 námu heildaraukafjárveitingar 234 millj. nýkr., þ. e. 23 gömlum milljörðum kr. 24 milljarðar eru þannig teknir fram hjá fjárlagaafgreiðslunni og afgreiddir í aukafjárveitingu. Og því meiri hætta er á að þetta fari vaxandi sem fjárlögin sjálf eru afgreidd óraunsæjar og reynt að halda þeim niðri með alls konar blekkingum. Á árinu 1980 hefur t. d. menntmrn. fengið rumar 23 millj. í aukafjárveitingum. Heilbrmrn. hafði fengið 155 millj. í aukafjárveitingum á árinu 1980, fjmrn. nærri 13 millj., iðnrn. 13.5 millj., dómsmrn. yfir 9 millj. og svona mætti halda áfram að telja. Það er ekki lítið fé að taka fram hjá fjárlögum í aukafjárveitingum á einu ári 23 milljarða gkr. Það er þetta sem ég held að hæstv. ríkisstj. sé að undirbyggja með því að afgreiða fjárlögin svo óraunsætt sem raun ber vitni. Afleiðingin verður bara þessi: Fjármögnun fer fram í formi aukafjárveitinga sem Alþingi verður ekki spurt álits á fyrr en seint og um síðir, og þá standa þm. frammi fyrir gerðum hlut. Það er sú hætta sem boðið er upp á með afgreiðslu fjárlaga á þann hátt sem hér er lagt til.

Að síðustu, herra forseti, vil ég fara örfáum orðum um þær brtt. sem ég flyt hér á sérstöku þskj. og eru allar innan ramma þeirrar stefnu sem Alþfl. hefur fylgt að undanförnu að því er varðar fjármál ríkisins og efnahagsstefnuna í landinu. Það hefur oftast verið svo, að stjórnarandstaðan hefur yfirleitt verið með tillögur til hækkunar frá því sem stjórnarliðið hefur gert ráð fyrir. Því fer fjarri að Alþfl. sé hér að flytja tillögur til útgjaldaauka. Hér er fyrst og fremst um að ræða flutning á fjármagni milli hinna ýmsu málaflokka og svo skilið eftir talsvert fjármagn eða um 64 millj. kr. sem svigrúm fyrir menn til að flytja brtt. við afgreiðslu frv.

Meginefni þessara brtt. er lækkun tekjuskatts um 192 millj. kr., en það er stefnumörkunaratriði Alþfl. að tekjuskatt á almennar launatekjur beri að leggja niður í áföngum. Hér er um 20% lækkun á tekjuskatti að ræða sem þýddi óbreytta greiðslubyrði á árinu 1982 miðað við árið 1981. Þá er einnig um að ræða lækkun á eignarsköttum einstaklinga um 18 millj. kr. Þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að eignarskattar eru orðnir ærið þung byrði á mörgum í landi hér. Með raunvöxtum og verðtryggingarstefnu ætti að vera minni þörf á jafnmikilli skattheimtu og uppi hefur verið höfð á undangengnum árum.

Þá er einnig lagt til að söluskattur verði lækkaður um 1%, sem þýðir lækkun um 128 millj. frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Enginn þarf að vera hissa á því, þó að fram komi tillögur eða hugmyndir um lækkun á söluskatti, svo hár sem hann er orðinn hér á landi.

Allar þessar þrjár tillögur beinast að því stefnumiði Alþfl. að lækka skatta á launafólki, þar sem skattalækkun er, miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag, raunhæfasta kjarabótin til handa launafólki, fyrst og fremst láglaunafólki.

Það er gert ráð fyrir að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði lækkaður um 50% eða um 16 millj. Er það tvennt sem um er að ræða og rökstyður þá tillögu. Það er annars vegar, eins og ég minntist á áðan, raunvaxtastefnan. Fasteignamat hefur stórlega hækkað eða um 55% á þessu ári og eðli málsins samkv. og í ljósi þeirra staðreynda er ekki óeðlilegt að gerð sé tillaga um lækkun þess skatts.

Þá er gerð hér tillaga um hækkun á hagnaði Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Ég held í ljósi fenginnar reynslu og þeirrar spár sem uppi er sé ekki óraunhæft að gera ráð fyrir að hagnaður af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði a. m. k. sá sem hér er miðað við. Er lagt til að hann hækki um 40 millj. kr., úr 522 í 562.

Þá er hér um að ræða nokkrar tillögur um tilfærslu að því er varðar landbúnaðarmálin. Það eru tillögur sem eru vel kunnar. Hliðstæðar tillögur voru fluttar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1981. Þær eru í fyrsta lagi um að auka tekjur Jarðasjóðs um 2 millj., úr 802 þús. í 2 millj. 802 þús., og að framlög samkv. jarðræktarlögum verði lækkuð. Það er í fyrsta lagi til fyrirtækja og atvinnuvega, það verði lækkað um 6 millj. kr., Jarðrækt, húsabætur og vatnsveitur verði lækkaðar um 9 millj. kr., og liðurinn Framræsla verði lækkaður um 2 millj. kr. Á móti þeim lækkunum, sem þarna er um að ræða, er síðan gert ráð fyrir að hækka liðinn Nýjar búgreinar um 5 millj. kr. Það hefur verið og er stefna Alþfl., sem nýtur vaxandi skilnings og fylgis, að það beri að verja fjármagni til að auka við nýjar búgreinar og hagræðingu í þeim málum. Þessu var fjandsamlega tekið lengi vel af ýmsum aðilum, en ég held að það sé nokkuð ljóst að þessari stefnu hefur aukist fylgi. Alþfl. mun halda áfram tillöguflutningi og byggja á þeirri forsendu, sem hann telur vera rétta, að það þurfi breytta stefnu í landbúnaðarmálum hér á landi.

Þá er hér lögð til lækkun á liðnum Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, sem nemur 24 millj. Einnig er lagt til að lækka liðinn Niðurgreiðslur á vöruverði um 200 millj. kr. Allt eru þetta þekkt viðhorf og sjónarmið í stefnumörkun Alþfl. að því er varðar landbúnaðarmálin og útflutningsuppbótagreiðsluna. Þá er lagt til að liðurinn Framleiðslueftirlit sjávarafurða lækki um 4 millj. kr. Það er byggt á þeirri nauðsyn sem við teljum vera á því að endurskipuleggja þá stofnun ef hún á að þjóna þeim tilgangi sem henni var ætlað. Það stendur mikill styrr um þessa stofnun og víða á landinu er málum þannig komið, að sjómenn blátt áfram sætta sig ekki við þær starfsaðferðir sem þar er beitt. Þessi tillaga okkar er fyrst og fremst gerð í ljósi þeirrar staðreyndar sem við teljum vera, að skipulagsbreyting þurfi að verða í málefnum stofnunarinnar.

Varðandi liðinn Bifreiðaeftirlit ríkisins er gerð till. um að lækka laun um 3 millj. kr. Það er einnig að okkar áliti nauðsyn á skipulagsbreytingu hjá þeirri stofnun. Hefur það verið rætt nokkrum sinnum í þinginu og skipuð sérstök nefnd til þess að rannsaka þá stofnun og gera tillögur til úrbóta. Það er skoðun okkar að með skynsamlegri skipulagsbreytingu og hagræðingu megi koma þar við talsverðum sparnaði. Þess vegna er hér gerð till. um að lækka launaliðinn um 3 millj. og önnur rekstrargjöld um í millj. Það sama á við um liðinn Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Þar er lagt til að launin verði lækkuð um 4 millj. og önnur rekstrargjöld um eina millj.

Þá er lagt til að liðurinn Vegna launa- og verðlagsmála, sem nemur 140 millj. ef ég man rétt, verði felldur niður. Það er ekki að okkar áliti ástæða til að hafa slíkt inni miðað við þær aðstæður sem eru í dag. Því er lagt til að liðurinn verði felldur niður.

Hér er um að ræða lækkun á ýmsum liðum fjárlagafrv. upp á 424 millj. Síðan er ráðstafað með hækkunartilfærslum 360 millj. kr. Hér er því svigrúm upp á 64 millj. kr., sem eftir eru miðað við þær breytingar sem hér er lagt til að gerðar verði. Það er tiltölulega nýtt í sögunni að flokkur í stjórnarandstöðu flytji tillögur annars vegar um millifærslu á ýmsum liðum fjárlagafrv. og hins vegar um beina lækkun. Þetta er nýtt í stjórnmálasögunni, enda er það staðreynd sem ekki verður á móti mælt, að Alþfl. vill breytta stefnu í efnahagsmálum,-breytta stefnu sem er skynsamlegri og verður þess valdandi að við getum, ef rétt er á málum haldið, rétt úr kútnum og farið að búa í þessu landi með þeim eðlilega hætti að hér búi ekki stór hópur launafólks og örorku- og ellilífeyrisþega við hin kröppustu kjör sem um getur.

Ég geri ráð fyrir að aðrir þm. Alþfl. ræði frekar suma þætti þessara mála hér á eftir, en ég hef gert í örfáum orðum grein fyrir þeim meginbrtt. sem ég flyt á sérstöku þskj. í nafni Alþfl. Þessar tillögur miða að því, eins og ég áður sagði, að færa til betri vegar nokkra þætti frv. og eru jafnframt hlekkur í þeirri skynsamlegu og nauðsynlegu stefnu sem Alþfl. hefur boðað að þurfi að taka upp við stjórn efnahags- og fjármála. Ég er sannfærður um að því fyrr sem upp er tekin sú skynsamlega stefna í efnahagsog fjármálum sem Alþfl. hefur boðað og berst fyrir, þm betra. Því fyrr eygjum við lausn í þeim erfiðu vandamálum sem nú blasa við og hafa raunar blasað við lengi.