14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

1. mál, fjárlög 1982

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það gerist nú áliðið og ástæðulaust að hafa hér mörg orð um. Ég ætla ekki, þótt e. t. v. væri tilefni til, að gera það fjárlagafrv. sem hér er til meðferðar, að umræðuefni almennt eða þá stefnu eða stefnuleysi sem þar kemur fram. Ég ætla í mjög stuttu máli að gera grein fyrir örfáum brtt. sem ég ásamt fleiri þm. Alþfl. hef flutt við þessa 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1982.

Í fyrsta lagi vík ég þá að brtt. við 4. gr. fjárlaga um það, að þar komi nýr liður undir menntmrn. og sá liður heitir: Sérstök viðurkenning til íþróttafélaga og afreksmanna í íþróttum samkv. ákvörðun Alþingis 1 millj. kr.

Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum, við hverja örðugleika íslensk íþróttahreyfing á að etja í mörgum efnum, og sömuleiðis er hv. þm. vel kunnugt hver afrek íslenskir íþróttamenn hafa unnið við oft mjög erfiðar aðstæður. Það gildir jafnt um einstaka afreksmenn sem um íþróttafélög og nægir þar að minna á frammistöðu Íslendinga í handknattleikskeppninni nú síðustu daga. Þetta er hugsað sem sérstök viðurkenning bæði til íþróttafélaga og einstakra íþróttamanna, — fé sem Alþingi skipti og úthlutaði eftir á sem viðurkenningu fyrir unnin afrek og vel unnin störf.

Það þarf ekki að fjölyrða um það, sem ég hef raunar minnst á, við hverja erfiðleika íslensk íþróttahreyfing á að etja og hve mikill munur er á aðstöðu íslenskra íþróttamanna og erlendra íþróttamanna sem margir hverjir njóta fullra launa og það meira að segja mjög góðra launa, þar sem íslenskir íþróttamenn þurfa að stunda sína vinnu og leggja mikið á sig og fórna miklu fyrir sínar íþróttagreinar. Þess vegna er þessi till. hér flutt. Ég vonast eindregið til að hún eigi skilningi og velvild að mæta hér á Alþingi. Er ástæðulaust að hafa um þetta fleiri orð.

Þá kem ég að till. sem ég hef flutt við 6. gr. fjárlagafrv., að þar bætist við nýir liðir. Það er þá í fyrsta lagi, að fjmrh. verði heimilt að endurgreiða Ríkisútvarpinu söluskatt af auglýsingum. Það er alkunna og þarf ekki um það mörgum orðum að fara yfir þeim hv. þm. sem hlýða á þessar umr., sem raunar eru nú ekki mjög margir, við hverja fjárhagsörðugleika Ríkisútvarpið hefur átt að etja. Raunar má segja, að af hendi hæstv. ríkisstj. hafi ríkt menningarfjandsamleg stefna gagnvart málefnum Ríkisútvarpsins. Það er býsna hlálegt og raunar hjákátlegt að hlusta á hæstv. menntmrh., eins og hann gerði á nýafstöðnu leiklistarþingi, kenna verkalýðsforustunni um að ekki skuli vera meira íslenskt efni í sjónvarpinu en raun ber vitni með því að halda því fram og segja fullum fetum að verkalýðsforustan standi gegn öllum breytingum á vísitölugrundvelli, afnotagjald Ríkisútvarpsins sé inni í vísitölunni og að verkalýðsforustan standi gegn öllum breytingum þar á. Þar af leiðir: Það er verkalýðsforingjunum að kenna að ekki skuli vera fleiri íslensk leikrit í sjónvarpinu. — Þetta er furðulegur málflutningur, en engu að síður staðreynd og heyrðu allir sem hlýddu á mál hæstv. menntmrh. á nýafstöðnu leiklistarþingi.

Mér þykir vænt um að hæstv. fjmrh. skuli hafa gengið í salinn og heyra einmitt umfjöllun um þá till. að honum skuli heimilað að endurgreiða Ríkisútvarpinu söluskatt af auglýsingum. Eins og nú háttar er Ríkisútvarpið eini fjölmiðillinn hér á landi sem er gert að greiða söluskatt af auglýsingum. Dagblöðin eru þar undanþegin og greiða ekki söluskatt af sínum auglýsingum. Hæstv. fjmrh. hefur tekið því mjög vel í orðum, að leysa þurfi fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins, hækka afnotagjöldin o. s. frv., en hefur jafnframt bent á að afnotagjöldin séu þáttur af margumtalaðri vísitölu. Það er hins vegar miklu einfaldari og auðveldari leið, sem kemur ekkert við vísitölunni, en mundi leysa fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins um sinn, að endurgreiða þennan söluskatt af auglýsingum. (Gripið fram í.) Jú, það er nú borð fyrir báru í fjárlagafrv. hæstv. ráðh. svo að þetta mundi ekki kollkeyra þó svo að samþykkt væri. Hins vegar er þetta sanngirnismál og ég veit að hæstv. fjmrh. sem fyrrv. menntmrh. er þessari stofnun velviljaður. Ég a. m. k. tel mig vita það. Það er býsna hart að Ríkisútvarpið, þessi sameignarstofnun okkar landsmanna, skuli nú t. d. ekki hafa efni á að nýta sér þá þjónustu Landssíma Íslands, sem til boða stendur með tilkomu jarðstöðvarinnar Skyggnis, að fá erlent fréttaefni og erlenda dagskrárþætti hingað til lands samtímis og atburðirnir gerast erlendis. Ríkisútvarpið hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að hagnýta sér þessa þjónustu.

Það mætti tala langt mál um það, hvernig menningarfjandsamleg stefna þessarar ríkisstj. gagnvart Ríkisútvarpinu hefur leikið þessa stofnun. Það hefur þurft að skerða dagskrá sjónvarps. Það hefur þurft að skera niður innlenda dagskrárgerð,sem á þó að vera ein af meginstoðunum í dagskrárgerð og efnisflutningi sjónvarpsins. Þessi ríkisstj. á sér engar afsakanir, engar málsbætur. En það er aldrei of seint að iðrast, og nú gefst tækifæri til þess við afgreiðslu fjárlaga að sýna lít á að viðurkenna mikilvægi Ríkisútvarpsins með því t. d. að endurgreiða því söluskatt af auglýsingum, en á þessu ári eru allar horfur á að söluskattur af auglýsingum í Ríkisútvarpinu nemi 11.5 millj. kr. Aðeins fyrstu 10 mánuði ársins nemur söluskatturinn í kringum 6 millj., að ég hygg, og síðustu tvo mánuðina nemur hann þá samkvæmt þessu 5.5 millj. kr. Þar sem engum öðrum fjölmiðli í landinu er gert að greiða þetta gjald er sjálfsögð sanngirniskrafa að þessu sé létt af Ríkisútvarpinu.

Önnur brtt., sem ég hef leyft mér að flytja hér ásamt Árna Gunnarssyni og Benedikt Gröndal, er sú að fella niður aðflutningsgjöld af tækjum og búnaði til endurvarpsstöðva útvarps og sjónvarps.

Uppbygging dreifikerfis sjónvarpsins og endurnýjun stöðvanna í því hefur goldið þeirrar fjárhagskreppu sem þessari stofnun hefur verið haldið í. Það að reka og viðhalda þessu kerfi gerir það að verkum að dagskrá sjónvarpsins nær hlutfallslega til fleiri fjölskyldna hér en hún gerir í mörgum öðrum löndum, t. d. í Frakklandi, Brettandi, Skotlandi, svo dæmi séu nefnd, og meira að segja í Noregi og Svíþjóð. Hefur okkur tekist betur að koma dagskrá útvarps og sjónvarps um landið en þessum þjóðum þótt fjölmennari og ríkari séu. Það er þess vegna byggðastefnumál að aflétta þessum gjöldum af tækjum og búnaði til endurvarpsstöðva á sama hátt og gert hefur verið nú varðandi símstöðvar og á sama hátt og gert hefur verið um ýmis aðföng til rafvæðingar landsins.

Því verður ekki trúað fyrr en á því er tekið að hæstv. ríkisstj. muni beita sér fyrir því að fella þessar till., sem báðar horfa til þess að bæta þjónustu Ríkisútvarpsins við landsbyggðina, við þjóðina, og að létta þeim fjárhagshömlum sem lagðar hafa verið á þessa stofnun, leysa þá fjötra peningaleysis sem Ríkisútvarpið hefur verið heft í af hæstv. núv. ríkisstj.

Í síðasta lagi vil ég gera grein fyrir brtt., sem ég flyt ásamt hv. þm. Benedikt Gröndal, við sömuleiðis 6. gr. fjárlaga, að þar bætist við nýr liður: Að breyta vanskilaskuldum Skallagríms hf. vegna Akraborgar í föst lán. — Þessa till. flutti ég einnig við afgreiðslu síðustu fjárlaga, en hún var felld. Nú vill svo til, að samvinnunefnd samgöngumála hefur borist ítarlegt bréf frá stjórnarformánni Skallagríms, flokksbróður fjmrh., Arnmundi Backman lögfræðingi. Þar eru mjög ítarlega og í nokkuð löngu máli tíunduð rök fyrir því að gera nákvæmlega það sem þessi till. mín gerir ráð fyrir, þ. e. að breyta þessum skuldum í föst lán, fella niður og breyta refsivöxtum, sem hlaðist hafa upp, breyta þeim í venjulega bankavexti.

Á árinu 1980 varð hagnaður af rekstri Akraborgar og þessi hagnaður hefur verið notaður til að greiða upp hluta af þeim skuldum sem safnast hafa fyrir. Í lok nóv. s. l. var skuld Akraborgar við ríkisábyrgðasjóð 12.3 millj. kr. Á árinu greiddi Skallagrímur hf. 1250 þús. kr. til ríkisábyrgðasjóðs, en í ársbyrjun var þessi skuld 8.3 millj. kr. Við upphaf ársins var skuldin sem sagt 8.3 mill j. kr. Það hafa verið greiddar 1250 þús. kr. á árinu, en í lok nóvember var skuldin 12.3 millj. Það er skylt að geta þess hér og láta það koma fram, að þessi skuld varð upphaflega til vegna þess, að fyrstu mánuðina eftir komu skipsins til landsins nýttist það ekki sem skyldi vegna þess að ekki var fyrir hendi aðstaða til að aka bílum um borð og var því aðeins hægt að flytja örfáa bíla með hverri ferð.

Það verður með einhverjum hætti að leysa þennan skuldahala. Raunar munu hafa legið fyrir yfirlýsingar á sínum tíma um að það yrði gert, en hins vegar hefur það dregist úr hömlu. Ríkissjóður er að meiri hluta til eigandi Akraborgar og hér er því í rauninni aðeins um millifærslur að ræða.

Ég vonast eindregið til þess, að unnt verði að fallast á þessa till., og bind raunar vissar vonir við að í samvinnunefnd samgöngumála megi takast að ná samkomulagi um till. í þessa átt. Mun ég þá að sjálfsögðu draga þessa till. mína til baka. En það er brýnt að leysa þetta mál ekki aðeins að því er varðar Akraborg, heldur og að því er varðar fleiri ferjur sem svipað og jafnvel enn verr er ástatt fyrir.