15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

1. mál, fjárlög 1982

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Við þessa 2. umr. vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að talsvert er um að ekki sé búið að taka afstöðu til tekjustofna sem ráð er fyrir gert í frv. til fjárl. að ríkissjóður hafi tekjur af á næsta ári. Aðeins eitt af þessum málum hefur hæstv. ríkisstj. óskað eftir að verði afgreitt. Það er framlenging á tímabundnu vörugjaldi. Öðrum málum hefur hæstv. ríkisstj. ekki óskað eftir afgreiðslu á. Þar á meðal er verðjöfnunargjald af raforku sem á samkv. frv. að gefa ríkissjóði 90 millj. kr. í tekjur á næsta ári. Ég vek athygli á því, að í tilmælum hæstv. forsrh. til stjórnarandstæðinga, sem hann flutti úr ræðustól í gær, óskaði hann eftir afgreiðslu á því máli, sem þýðir þá að gjaldið eigi að falla niður.

Í annan stað hefur hæstv. fjmrh. upplýst að ekki sé samkomulag í ríkisstjórnarliðinu um að framlengja skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði óbreyttan. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt, áður en endanlega er gengið frá áætlun fjárlagafrv. til 3. umr., að hæstv. ríkisstj. sé búin að gera upp hug sinn til þess, hvernig hún hyggst standa að þessari skattheimtu á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Það er auðvitað algerlega út í hött að ætla sér að afgreiða fjárlög, sem byggja á slíkri skattheimtu, ef málin standa þannig, eins og hæstv. fjmrh. skýrir okkur frá, að ekki sé samstaða í ríkisstjórnarliðinu um þessa skattheimtu. Það er út af fyrir sig afsakanlegt með skattheimtu sem ekki er tímabundin, að ríkisstj. láti hjá liða að afgreiða framlengingu á slíkri skattheimtu fyrir áramót sé ríkisstj. hvort sem er staðráðin í að fá slíka framlengingu samþykkta og þurfi ekki vegna álagningar að fá hana samþykkta fyrir áramót. Það er hins vegar algerlega óverjandi að gera ráð fyrir óbreyttum tekjum af tilteknum tekjustofni sem hæstv. fjmrh. upplýsir að ágreiningur sé um í ríkisstjórnarliðinu. Þann ágreining verður að leysa áður en frá fjárlagafrv. er gengið svo að menn geti treyst því, að sú áætlun, sem kemur fram í frv., sé rétt.