15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

1. mál, fjárlög 1982

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það eru einkum þrjú atriði sem mig langar til að minnast á og raunar óhjákvæmilegt að minnast á tvö þeirra hér við lok 2. umr.

Ég skildi hæstv. fjmrh. svo áðan að ýmislegt væri óvíst í sambandi við skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þegar ráðh. úr þessari ríkisstj. tala um að sitthvað sé óvíst í sambandi við skattamál þýðir það ævinlega hækkun skatta. Ég óska því eftir að fyrir liggi yfirlýsing við þessar umr., að hvað svo sem í kann að skerast komi ekki til greina að hækka þann skattstofn sem nú er lagður á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, því að vitanlega er það atvinna eins og hver önnur að vinna skrifstofustörf eða verslunarstörf. Sannleikurinn er raunar sá, að það fólk, sem vinnur þessi störf, er einna lægst launaða fólkið í landinu núna vegna þess hversu illa er að því búið. Hef ég oft áður gert það að umtalsefni að t. d. félmrh. lítur á það fólk sem þriðja flokks fólk.

Sú umfjöllun, sem hæstv. fjmrh. hafði hér áðan um kjaramál, var eftirtektarverð. Ég vil enn undirstrika það sem ég hef oft gert áður, að nú er gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga hækki enn og eignarskatturinn hækki enn. Jafnframt liggur það fyrir að fasteignagjöld eiga að hækka a. m. k. um 55% hér í Reykjavík. Það varð að samkomulagi milli hæstv. ríkisstj. og launafólks á þessu ári að launafólk sætti sig við að 7 stig kaupgjaldsvísitölu væru skorin af laununum 1. mars gegn því að um verulega skattalækkun yrði að ræða. Nú liggur það fyrir og er m. a. staðfest hér á þskj. 179, að tekjuskattar einstaklinga hafa sem hlutfall af tekjum greiðsluárs lækkað sama sem ekki neitt frá því í fyrra, en miðað við árið 1977 eru tekjuskattar sem hlutfall af tekjum greiðsluárs á þessu ári 5.6% á móti 3.9% hið síðasta ár sem hv. 1. þm. Reykv. var forsrh. og mjög er til vitnað. Og nú er gert ráð fyrir að hækka tekjuskattana enn upp í 6.1%. Jafnframt er gert ráð fyrir að hækka eignarskatta einstaklinga úr 0.51% í 1.58% til viðbótar við þá hækkun sem boðuð hefur verið af sveitarfélögunum á fasteignagjöldum.

Þetta eru þakkirnar sem launafólk fær fyrir að koma til móts við ríkisstj. núna með lágum kaupkröfum, með því að sætta sig við 3.25% kjarabætur nú í árslok, þegar fyrir liggur að helmingurinn af því verður tekinn til baka með lækkun kaupgjaldsvísitölunnar 1. mars. Eins og allt er í pottinn búið, eins og ástandið er m. a. hjá sjómönnum núna, eins og ástandið er á vinnumarkaðinum almennt, eins og hljómgrunnurinn er sem till. fær núna hjá kennurum t. d. eða hjúkrunarkonum, væri skynsamlegra af þessari ríkisstj. að standa við áramótahugvekjuna frá því í fyrra og hækka a. m. k. ekki skattana frá árinu 1981–1982, þá beinu skatta sem að ríkinu snúa, reyna að standa við fyrirheitið að því leyti.

Loforðið, sem hæstv. forsrh. gaf um síðustu áramót, er ekki úr gildi. Það hafa ekki farið fram heildarsamningar við launþega. Hér er einungis um bráðabirgðasamkomulag að ræða. Og ég skildi það svo að út frá því væri gengið af aðilum vinnumarkaðarins, að ríkisstj. mundi a. m. k. ekki þyngja skattbyrðina. En það er gert ráð fyrir því með þeim fjárlögum sem nú er verið að afgreiða. Ég vil vara við þessu. Ég vil mælast til þess að formaður fjvn. athugi það milli umr., hvort ekki sé hægt að hækka skattvísitöluna, minnka útgjöldin og hæstv. ríkisstj. og Alþingi sýni þó launafólki a. m. k. þá lágmarkskurteisi að níðast ekki á því meira en orðið er og hækka ekki skattana frá því sem þeir eru í dag. Þeir eru ærnir fyrir.