21.10.1981
Efri deild: 5. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

28. mál, almannatryggingar

Níels Á. Lund:

Herra forseti. Ég vil segja í upphafi, að ég er ekki nógu vel undir það búinn að taka til máls í þeirri umr., sem hér fer fram, að því marki sem ég vildi gera, þar sem ég sit hér í forföllum og er nýkominn inn á hv. Alþingi. Þó sé ég mig knúinn til þess að lýsa yfir samþykki mínu við það frv., sem hér liggur fyrir, og vil fagna framkomu þess og góðum rökstuðningi hv. flm. þess, Kjartans Jóhannssonar.

Þau eru mörg óréttismálin úti á landsbyggðinni og þetta er eitt af þeim stærstu. Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að minnast á sögu sem ég heyrði fyrir nokkrum dögum og lýsir þessu máli ákaflega vel. Og kannske er það ekki síst hún sem rekur mig upp í pontu hér á hv. Alþingi. Einn ágætur atorkumaður varð fyrir því óláni, að hann hrapaði af vörubíl og meiddist mikið langt frá sjúkrahúsi. Hann missti meðvitund og var kallað á sjúkrabíl. Á leiðinni raknar hann úr meðvitundarleysinu og bað þá strax um að stöðva sjúkrabílinn og lét konu sína síðan aka sér á sjúkrahúsið, vegna þess að hann taldi sig ekki vera mann til að borga sjúkrabílinn. Þessi saga lýsir nokkuð vel þörfinni á framkomnu frv. og leiðréttingu þeirra mála sem það gerir ráð fyrir.

En eins og ég sagði áðan er ég ekki undir það búinn að tala um þetta mál sem skyldi og vert væri að gera. Ég get þó ekki látið hjá liða að lýsa yfir stuðningi mínum við svo veigamikið mál sem þetta, sem snertir hvað mest landsbyggðina og þá sem í dreifðustu byggðunum búa. Margir búa þar ekki einungis við læknisleysi, heldur stórkostlegan kostnað við að komast til læknis.

Ég vil fagna framkomnu frv. og endurtek að ég styð það og óska því velfarnaðar í nefnd.