15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

137. mál, liðsinni við pólsku þjóðina

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Þær fréttir, sem borist hafa frá Póllandi síðustu daga, eru að mínu áliti verstu fréttir af erlendum vettvangi um árabil. Greinilegt er að Rússar standa þarna á bak við þó öðrum sé á foraðið att. Stjórnvöld í Póllandi mundu aldrei ótilneydd þora að bjóða miklum meiri hluta þjóðarinnar byrginn ef Sovétmenn stæðu ekki þar að baki. Líklegast er að aðgerðirnar séu ekki aðeins gerðar að undirlagi Rússa, heldur vegna beinnar fyrirskipunar frá þeim með viðeigandi hótunum um valdbeitingu.

Það er hætt við að sá bati í samskiptum landa í milli, sem vissulega hefur átt sér stað síðustu árin, hverfi nú eins og dögg fyrir sólu og að við færumst árátugi aftur í tímann í þeim efnum, allar götur til kaldastríðsáranna. Ég tel að vesturveldin og sem allra flestar þjóðir heims verði að beita öllum sínum áhrifamætti, öllum þeim þrýstingi sem þær hafa yfir að ráða, auðvitað þó ekki herstyrk, til að þvinga Rússa og leppa þeirra í Póllandi til að breyta afstöðu sinni og til að taka upp skynsamlegri vinnubrögð.

Við Íslendingar eigum að aðstoða Pólverja á ýmsan hátt. T. d. eigum við að lána þeim andvirði loðnumjöls til að bæta mjög alvarlegt matvælaástand. Þetta hefðum við auðvitað átt að gera strax og ljóst var að þeir gátu ekki staðgreitt loðnumjölið og báðu um greiðslufrest.

Pólverjar hafa verið mjög góðir viðskiptavinir okkar á þessu sviði og við eigum að hjálpa þeim, þegar þeir þurfa mest á því að halda, með því að lána þeim andvirði mjölsins þegar ljóst er að þeir geta ekki staðgreitt það. Við eigum einnig að lána þeim eða helst gefa talsvert magn af umframframleiðslu okkar á kjöti og öðrum landbúnaðarvörum. Það er ólíkt betra að gefa þær til þurfandi og hálfsveltandi Pólverja en að gefa þær eða hálfgefa ríkum þjóðum eins og við höfum gert fram að þessu. Við eigum 1000–1400 tonn af kjöti, umframbirgðir af kjöti sem er óráðstafað í landinu, og það kostar ekki svo ýkjamikið fyrir okkur að gefa verulegan hluta af þessu kjöti. Við þurfum að borga útflutningsbætur hvort eð er. Það er kannske einhvers staðar nálægt 18 eða 19 kr á kg eða 18–19 þús. kr. tonnið sem það mundi kosta okkur að gefa þetta kjöt til Póllands. Pólverja sárvantar feitmeti og vítamín. Við gætum gefið þeim lýsi. Þá sárvantar eggjahvítuefni. Við gætum gefið þeim þurrmjólk. Þessi vöntun kemur harðast niður á börnum. Þá vantar kolvetni. Við gætum gefið þeim kjöt. Ef við treystum okkur ekki til að gefa þessar vörur í allstórum stíl gætum við lánað andvirði þeirra til einhvers tíma eins og flestar aðrar þjóðir hafa gert.

Ýmsir munu segja að þetta sé ekki tímabært nú, eftir atburði síðustu daga. Fulltrúi Samstöðu, sem hv. 2. þm. Reykn. ræddi um og hér er staddur í boði ASÍ, var spurður að því í gærmorgun, hvort öruggt væri að matvæli, lyf og aðrar vörur, sem gefnar væru til Póllands, kæmust til þeirra sem gefendur ætluðust til, þ. e. til barnaheimila, elliheimila og sjúkrahúsa. Fulltrúinn svaraði því til, að í byrjun hefðu verið nokkur brögð að því, að þessar vörur færu á almennan markað, en nú væru þessi mál komin í mjög gott lag.

Spurningunni um það, hvort hægt væri að treysta því, að svo yrði áfram, svaraði fulltrúinn þannig að ríkisstj. mundi ekki þora að hrófla við dreifingu á þessum vörum, almenningur vissi um þessar sendingar erlendis frá og ríkisstj. mundi ekki þora að baka sér enn frekari reiði almennings með því að stöðva eða trufla á nokkurn hátt dreifingu þessara vara.

Síðustu fréttir erlendis frá herma að engin breyting hafi orðið á dreifingu matvæla, lyfja og annars slíks varnings. Pólska kirkjan hefur tekið að sér það hlutverk Samstöðu að koma varningi þessum til skila til þeirra sem gefendur hafa óskað eftir. Það virðist vera í góðum höndum, a. m. k. enn sem komið er. Við megum ekki heldur gleyma því, að barátta pólskra stjórnvalda gegn Samstöðu — og þá ekki síður barátta Rússa gegn Samstöðu — hefur að hluta verið fólgin í því að láta þjóðina búa við skort á sem allra flestum sviðum. Við eigum því — og þá ekki síst mannúðarinnar vegna — að hjálpa Pólverjum í erfiðri baráttu þeirra með því að gefa þeim þær nauðsynjar, sem þá vanhagar mest um, og lána þeim andvirði annarra nauðsyn ja. Samtímis eigum við að beita þeim þrýstingi sem við höfum yfir að ráða, til að þvinga stjórnvöld í Póllandi og Sovétríkjunum til skynsamlegri vinnubragða. Okkar áhrif vega ekki þungt að vísu, en safnast þegar saman kemur.