21.10.1981
Efri deild: 5. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

28. mál, almannatryggingar

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þann ágæta stuðning sem hér hefur komið fram við þetta mikla réttlætismál. Eins og kom fram í framsöguræðu minni tel ég að hér sé um svo brýnt réttlætismál að ræða að það þoli ekki bið. Ég veit að það eru mörg önnur atriði í almannatryggingalöggjöfinni, eins og kom fram í ræðu hæstv. forseta, sem er reyndar hv. 2. þm. Austurl. þegar hann er í ræðustól, og t. d. í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., — það eru sem sagt mörg önnur atriði sem menn gjarnan vildu leiðrétta. En við höfum valið eitt tiltekið, afmarkað mál sem við teljum vera mjög brýnt að leiðrétta og við sjáum ekki vankanta á að þingið taki í sínar hendur og leiðrétti nú, jafnvel þótt almenn endurskoðun almannatryggingalaganna sé í gangi, eins og reyndar virðist alltaf vera raunin.

Það hefur oft orðið svo, þegar bornar hafa verið fram till. og frv. um lagabreytingar varðandi almannatryggingalögin, að vísað hefur verið til þess, að heildarathugun væri í gangi. En ég legg áherslu á að það getur á engan hátt tafið þessa heildarathugun þótt þau afmörkuðu atriði, sem hér er flutt lagafrv. um, séu nú leiðrétt. Ef út úr athugun starfandi nefndar í þessum efnum kemur einhver önnur niðurstaða einhvern tíma verður hún auðvitað tekin til meðferðar. En mér finnst að það eigi ekki að bíða eftir því eða láta það á nokkurn hátt tefja fyrir því að þetta mál verði afgreitt núna.

Auðvitað hefði okkur flm. þótt áhugavert að taka líka fyrir ýmis önnur atriði í almannatryggingalöggjöfinni. Hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, gerði t. d. að umræðuefni málefni „ambulance“-sjúklinga. Við vitum að þar er líka um að ræða réttlætisatriði — eða ég ætti kannske frekar að segja: mikið óréttlæti. En framkvæmd á því atriði er í hugum sumra meira tortryggnismál varðandi misnotkun heldur en getur nokkurn tíma verið um það sem hér er verið að flytja frv. um, vegna þess að þetta frv. fjallar eingöngu um þá sjúklinga sem eru gjörsamlega óferðafærir, körfusjúklinga, og verða þess vegna að fá lækni heim til sín eða verða að komast í sjúkrahús.

Vegna þess, að það er svo mikið óréttlæti sem birtist í gildandi lögum, og vegna hins, að okkur finnst að það sé ekki með nokkru móti hægt að verja þetta óréttlæti og að þetta er afmarkað mál sem Alþingi getur tekið til meðferðar alveg án tillits til þess, hvernig stendur á um endurskoðun almannatryggingalaganna að öðru leyti, — það er þess vegna sem við flytjum þetta frv. í þeim búningi sem við gerum nú. Reglur um hvernig reikna skuli fargjald fyrir flugvélar og bifreiðar geta stofnanir ríkisins sett. Það þarf ekki að hindra okkur í því að samþykkja það frv. sem hér liggur fyrir.

Ég ætla ekki að lengja þetta mál frekar. Þetta frv. hefur fengið mjög góðar undirtektir og af undirtektum þeirra manna, sem sæti eiga í heilbr.- og trn., þykist ég þess fullviss, að málið muni nú fá góða afgreiðslu. Ef önnur atriði eru í lögunum sem menn gjarnan vilja ræða eða flytja lagafrv. um, þá skulum við gera það, en við skulum ekki láta það tefja fyrir framgangi þessa réttlætismáls.