15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

133. mál, atvinnutækifæri á Suðurlandi

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Í tilefni þeirrar þáltill., sem hér er til umr., vil ég segja nokkur orð.

Ég hef reynt að leggja mig eftir því, þegar þm. úr hinum ýmsu landshlutum hafa flutt hér tillögur af svipuðu tagi og þá sem hér liggur fyrir, um eflingu atvinnulífs í sínum byggðarlögum eða sínum landshlutum, vegna þess að ég tel mér skylt að leggja þar við hlustir og er jafnframt að vænta þess, að í hópi þessara góðu manna sé að finna bandamenn í sambandi við þá viðleitni, sem ég tel að núv. ríkisstj. hafi, að reyna að efla atvinnulíf sem víðast á landinu.

Það mætti margt um efni þessarar þáltill. segja, eins og raunar við hliðstæð tækifæri þegar rætt er um útvinnuþróun einstakra landshluta. Mig langar að fara nokkrum orðum um Suðurland eins og mér kemur það fyrir sjónir út frá auðlindum og atvinnumöguleikum. Ég vil jafnframt taka það fram, að mér finnst, að það gæti helst til mikillar svartsýni og fordóma í máli þeirra hv. alþm. úr Suðurlandskjördæmi sem hér hafa talað, og vil beina þeim orðum til þeirra og annarra hv. þm., sem um atvinnumál fjalla, án þess að ætla að gerast einhver kennimaður á því sviði eða gera kröfur til þess, að orð mín séu tekin gildari en annarra, að menn reyni að hafa augun opin fyrir þeim möguleikum sem fyrir hendi eru á hverjum stað, á hverju svæði og hvetji fremur en letji til dáða. Ég held að þess hafi gætt of mikið og of víða, að menn hafa málað jafnvel skrattann á vegginn í sambandi við atvinnuþróun og atvinnumöguleika á sínu svæði, í stað þess að leita leiða til að ná saman um jákvæða uppbyggingu. Það er vissulega góðra gjalda vert að halda gamansamar ræður eins og við heyrðum hér og margt réttmætt sem þar kom fram. En menn mega bara ekki láta sitja við það eitt. Menn þurfa að reyna að taka höndum saman, fulltrúar hvers landshluta, ekki bara með þröng sjónarmið viðkomandi landshluta í huga, heldur með auga á þeim forsendum í þjóðfélaginu sem þurfa að vera til staðar til þess að jákvæð uppbygging geti átt sér stað, minnugir þess að Ísland er í reynd eitt þótt við séum talsmenn mismunandi kjördæma.

Ég sagði: Suðurland hefur sín sérkenni, og ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, fyrir utan Vestmannaeyjar, þá öflugu útgerðarstöð sem hefur orðið fyrir áföllum sem allir muna eftir, en náð hefur að rétta við furðuvel fyrir dugnað og harðfylgi og aðstoð, — réttmæta aðstoð annarra landshluta í þeim erfiðleikum sem þar var um að ræða. En hér var öðru fremur verið að ræða um landið, meginlandið, eins og ég hygg að Vestmanneyingar tali stundum um. (Gripið fram í: Fastalandið.) Fastalandið, já. Þar höfum við, sem komum af Austurlandi, lært að væru blómlegri byggðir og meiri möguleikar til landbúnaðar en í öðrum sveitum. Og Suðurland ber þess líka merki, að þar eru blómlegar byggðir í hluta þess, öflugur landbúnaður sem hefur markað hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa. Vera má að of mikið hafi dregist af úrvinnslu landbúnaðarafurða hingað yfir í þéttbýlið, einmitt hérna megin heiðar. Það hygg ég að megi til sanns vegar færa. En þrátt fyrir það eru möguleikar Suðurlands í þessum efnum miklir og úr þeim hlýtur að vera hægt að vinna betur en orðið hefur til þessa.

Vissulega er það svo, að hluti Suðurlands hefur orðið landeyðingu að bráð vegna náttúrlegra aðstæðna og vegna ofnytjunar lands á nokkrum svæðum, en við því hefur verið brugðist með starfi ræktunarmannsins að hluta til þó að enn muni halla á í þeirri baráttu.

Fyrir utan þetta býr Suðurland yfir meira vatnsafli en nokkur annar fjórðungur í landinu og þar hefur verið meira að gert á því sviði heldur en annars staðar. En við heyrum frekar undan því kvartað heldur en hitt í máli margra hv. þm. þessa kjördæmis, að þessar framkvæmdir hafi ekki orðið sú búbót sem skyldi. Ég skil það vel, að þeim finnist nokkuð hart að sjá orkuna leidda að drjúgum hluta ofangarðs, án þess að vera aðnjótandi orku t. d. til iðnaðar innan sveitar á sambærilegum kjörum. En möguleikarnir eru þarna miklir og Sunnlendingar hljóta að hafa áhuga á að snúa þarna vörn í sókn, enda hygg ég að sá sé hugur þeirra hv. flm. sem standa að þessari þáltill.

En það er ekki bara vatnsaflið, sem þarna er í ríkara mæli en gerist í öðrum landshlutum, þannig að nú er það aðeins Austurland sem getur bent á eitthvað svipað hvað snertir magnorku í rennandi vatni, óvirkjaðri orku. Þá býr Suðurland yfir meiri jarðvarma en nokkur annar landshluti, bæði lághita og einnig háhita. Nýting þessa jarðvarma er að sjálfsögðu stórfellt verkefni fyrir Sunnlendinga eins og aðra þar sem slíkar auðlindir er að finna, því að ekki búa menn í ríkum mæli að því á Austurlandi. Það má vera að við berjum okkur stundum, umbjóðendur þess kjördæmis, en ég held að við reynum a. m. k. að taka saman höndum til þess að ná landi í brýnustu hagsmunamálum okkar svæðis, stundum með árangri, og það trúi ég að þm. Suðurlands hafi einnig hug á að gera.

En af því að ég nefndi jarðvarmann er rétt að geta þess, að um alllangt skeið hefur verið áhugi á því af stjórnvalda hálfu og af hálfu heimamanna að hluta til að efla ylrækt á Suðurlandi. Það mál hefur verið til meðferðar hjá stjórnvöldum að undanförnu, reyndar árum saman, en nú alveg nýverið höfum við ákveðið að leitast við að hrinda því máli í framkvæmd þannig að unnt sé að stofna til ylræktarvers í grennd Hveragerðis með samvinnu garðyrkjubænda og útflutning fyrir augum. Ef það má takast að koma slíku af stað, þá er ég nokkuð viss um að víða muni slíkar ræktunarstöðvar spretta, því að möguleikarnir fyrir þær eru víðar en í Ölfusdal eða í grennd Hveragerðis, þar sem gróðurhúsarækt stendur traustum fótum miðað við innlendan markað.

Sunnlendingar hafa á undanförnum árum tekið myndarlega höndum saman í sambandi við iðnaðaráform, þannig að a. m. k. ég hef eftir því tekið, þar sem er stofnun félagsins Jarðefnaiðnaðar hf. með aðild samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi til eflingar iðnþróun. Fyrir utan þessa félagsstofnun, sem hefur nokkur járn í eldi, og þeim vafalaust eftir að fjölga, hefur Samband sveitarfélaga á Suðurlandi efnt til iðnþróunarsjóðs til stuðnings iðnþróun í landshlutanum og sveitarfélögin, að ég hygg, undirgengist að leggja ákveðinn hluta af tekjum sínum í slíkan sameiginlegan sjóð. Þetta tel ég mjög til fyrirmyndar og þetta ætti að verða til stuðnings við iðnþróun innan svæðisins.

Alveg nýlega hefur Samband sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi ráðið sér iðnþróunarfulltrúa með stuðningi af iðnþróunarfé sem iðnrn. hefur getað látið af hendi sem hluta af svonefndu aðlögunargjaldi, sem ekki er lengur tekjustofn, því miður. En fyrir hv. Alþingi liggur nú frv. til l. um að festa þá skipan í sessi og tryggja ákveðinn stuðning af ríkisins hálfu til þessarar starfsemi. Ég held að verkefni fyrir slíka ráðgjafa séu ærin í öllum landshlutum, enda hef ég orðið var við að þetta mál hefur fengið góðar undirtektir. Og af því að hv. 1. flm. þessarar till. nefndi smáiðnað í sveitum, þá held ég að það sé ekki síst í tengslum við almennan iðnað, stuðning við uppbyggingu smáiðnaðar og minni fyrirtækja, sem þessir iðnþróunarfulltrúar geta orðið að liði, þó að ég ætli ekki að draga úr því að þeir geti einnig stutt að stærri fyrirtækjum. Þarna er gert ráð fyrir ákveðnum stuðningi af ríkisins hálfu, og þess er að vænta — þó að hv. alþm. sumir hverjir kvarti undan því að það gerist nokkuð þykkar skýrslurnar sem frá stjórnvöldum komi og lítið spretti af þeim og þeir hafi kannske takmarkaðan tíma til að lesa þær spjaldanna á milli — þá vænti ég að viðkomandi iðnráðgjafar geti nokkuð moðað úr þessu efni, sem fyrir liggur af opinberri hálfu, og kynni sér þá þætti.

Ég vil hins vegar vekja hér athygli á því sem mér fannst koma fram mjög skýrt í máli hv. 1. flm. og reyndar í máli annarra hv. þm. sem hér töluðu, að það væri fyrst og fremst horft eftir aðstoð og frumkvæði hins opinbera í sambandi við atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi. Ég skal ekki gerast neinn sérstakur úrtölumaður þess, að hið opinbera komi þar við sögu, og ég hef reynt að hlúa að því í mínu starfi, að hið opinbera reyni að aðstoða við að menn átti sig á þeim möguleikum, sem fyrir hendi kunna að vera, og að skapaðar verði almennar forsendur til atvinnuþróunar. En ég vek sérstaka athygli á því, að hv. varaþm. Sjálfstfl., 1. flm. þessarar till., nefndi fátt annað til bjargræðis atvinnulífi á Suðurlandi en stuðning og frumkvæði af opinberri hálfu og hafði því einkum um að kenna, að lítið hefði gerst, að hið opinbera hefði ekki gáð að því að koma hugmyndum sínum í framkvæmd, því sem frá Framkvæmdastofnun væri komið og er í hennar doðröntum, það hefði sem sagt lítið af því sprottið.

Nú ætla ég ekki að vera með neinn gantaskap eða stríðni í garð þessa hv. þm. sem talar úr flokki sem hefur gjarnan lítið á sig sem málsvara einkaframtaksins í landinu. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki að vænta alls bjargræðis frá hinu opinbera, síst af öllu frá ríkinu. Ég er ekki þeirrar trúar. Ég held að það þurfi að koma fleira til, það þurfi að koma til samtök fólksins í byggðunum og einnig frumkvæði og áhugi einstaklinga í sambandi við atvinnuþróun. Og þar sem hið opinbera kemur við sögu, það verður að vera í okkar landi í sambandi við stærri verkefni, en það er ekki síst að greiða fyrir því, að samtök fólksins í byggðarlögunum geti notið sín, að menn geti náð þar höndum saman um skynsamlega úrlausn mála og atvinnuuppbyggingu með samvinnu og samhjálp. Og gjarnan mega einkaaðilar koma þar við sögu og spreyta sig í okkar hagkerfi. Ég tel að einkarekstur í landinu eigi fyllilega rétt á sér í sambandi við margháttuð minni verkefni. Þess er ekki að vænta hér, að hann færist mikið í fang, enda ber ekki sérstaklega að ýta undir það. En þetta þarf að geta dafnað hlið við hlið og menn þurfa áreiðanlega á því að halda í sambandi við atvinnuþróun hér að nýta þá kosti, bæði frumkvæði sem sprettur hjá einstaklingnum og ekki síður hjá einingum samfélagsins, samvinnufélögum, og svo einnig ríkisvaldinu sjálfu.

Ég get mjög vel undir það tekið, að af miklu af því áætlunarstarfi, sem unnið hefur verið af opinberri hálfu á undanförnum árum og jafnvel áratugum og gjarnan er kennt við Framkvæmdastofnun ríkisins, áætlanadeild þeirrar stofnunar eða byggðadeild, hafi ekki sprottið það sem skyldi. Ég tel að það sé mikill meinbugur á því skipulagi sem ríkir í þessum efnum, tengslum þessarar góðu stofnunar. Ég ætla ekki að hallmæla henni eða þeim einstaklingum sem þar eru innan veggja. Þeir hafa áreiðanlega góðan hug. En það vantar mikið á að þar ríki þau tengsl sem þurfa að vera við framkvæmdavaldið í landinu, hin einstöku ráðuneyti og einnig við þá aðila úti í byggðunum sem þurfa að hrinda hugmyndunum í framkvæmd. Á þessu þarf sannarlega að verða bót og kannske getur liður í því verið verulegur uppskurður á þessari svonefndu Framkvæmdastofnun sem hefur ekki alltaf risið undir nafni.

Hér liggur á borðum hv. þm. lesefni sem kvartað var undan fyrir nokkrum dögum að væri eins konar leyniplagg. Hv. næstsíðasti ræðumaður líkti því við Guðbrandsbiblíu og átti von á að sitthvað ætti eftir að fylgja. Ég vænti þess, að hv. 4. þm. Suðurl. taki hluta af jólunum til að lesa þessa biblíu vel og það þeim mun frekar sem hann á sæti í atvmn. Sþ. Atvmn. Sþ. fékk í fyrra til meðferðar þáltill. um iðnaðarstefnu frá ríkisstj. Þar var m. a. vikið að ýmsum þeim þáttum sem eru hindrun í atvinnuþróun í landinu og sérstaklega í iðnþróun í landinu og við þurfum að sjá til að kippa í liðinn. Þessi till. komst ekki lengra en til þessarar nefndar, ekki út úr henni. Fyrir henni hefur enn ekki verið mælt hér í hv. þingi þó að hún hafi legið hér frammi um nokkurt skeið. En ég vænti þess, að þingið sjái sér fært að fjalla um hana og marka í vetur iðnaðarstefnu og reyna að nýta það sem menn finna nýtilegt í þeim tillögum sem fyrir liggja þar að lútandi. Og þessi byrjun Guðbrandsbiblíu, „Áfangaskýrsla starfsskilyrðanefndar“, sem liggur hér á borðum hv. þm., gæti væntanlega orðið mönnum nokkuð til leiðbeiningar og umhugsunar um vissa þætti sem hafa verið hemill í iðnþróun úti um byggðir landsins og reyndar í þéttbýli líka.

Það er mikið talað um iðnaðarmál á Alþingi og þm. einstakra kjördæma flytja gjarnan þáltill. um eflingu iðnaðar. Svo koma þeir eðlilega til baka og spyrja: Hvað hefur nú orðið um þetta? Hver er uppskeran af þessum þáltill. sem við höfum fengið hér samþykktar? — Það er eðlilegt að þeir óski svara. En ég vil benda á að menn skyldu einnig hyggja að þeirri undirstöðu sem þarf að vera til þess að þessi atvinnuvegur nái að dafna og til þess að hér verði sú iðnþróun sem flestir eru að kalla eftir. Þá þurfum við m. a. að búa iðnaði í landinu þau vaxtarskilyrði sem þurfa að vera til að atvinnugrein af því tagi fái sprottið, oft og tíðum við býsna erfið ytri skilyrði. Hv. 1. flm. þáltill., sem hér er til umr., nefndi dæmi, að ég hygg, af kartöfluverksmiðju niðri í Þykkvabæ sem hefði verið reist, en þegar til átti að taka vantaði að koma raforkunni til hennar. Ég kannast við þetta dæmi. Ég held að það sé nokkurn veginn rétt. Nú veit ég ekki hvernig þeir framtakssömu menn, sem að þessu stóðu, gengu til verka í sambandi við sína fjárfestingu, hvort þeir byrjuðu á verksmiðjunni í góðri trú og uppgötvuðu þetta þegar komið var nálægt leiðarenda. Þessu var bjargað fyrir horn, ef svo má segja.

Það er alveg rétt hjá hv. 1. flm. till., að í sambandi við raforkukerfið á Suðurlandi er mörgu ábótavant eins og víðar úti um hinar dreifðu byggðir landsins. En auðvitað verða menn að gæta þess að láta hlutina haldast í hendur í sambandi við bæði staðsetningu fyrirtækja og uppbyggingu raforkukerfisins. Í því efni hefur einnig mikið verið gert á Suðurlandi, í stofnlínum til að tengja byggðirnar þar innbyrðis. Það er veruleg fjárfesting sem hefur komið þar til á síðustu árum, því ættu menn ekki að gleyma.

Sunnlendingar þurfa ekki heldur að óttast að framkvæmdir í raforkumálum og virkjanamálum hverfi úr þeirra landsfjórðungi. Ekkert slíkt er á dagskrá, það veit hv. 1. flm. þessarar till. Það, sem er efst á blaði í sambandi við virkjunarframkvæmdir, eru einmitt áframhaldandi framkvæmdir við vatnsvirkjanir og í þágu vatnsvirkjana á Suðurlandi. Ég held einmitt að þó að það séu ekki þeir toppar fram undan sem stundum hafa verið, þá gefist Sunnlendingum kostur á að nýta sér það hlé, sem þar verður í því mikla álagi á atvinnumarkaðinn sem virkjanaframkvæmdirnar hafa kallað á, til þess að huga að öðru atvinnulífi, til þess að renna stoðum undir annan atvinnurekstur og þá einnig iðnað. Ég tek eindregið undir það, að að iðnþróun á Suðurlandi þarf að huga, bæði iðnaði, sem byggir á orkulindunum sem þar eru, þó að þar sé ýmislegt mótdrægt eins og takmörkuð hafnarskilyrði, en einnig iðnaði sem byggir á jarðvarma og þeim ríkulegu gæðum til landsins sem Suðurland býr yfir.

Ég læt, herra forseti, þetta nægja um mál sem gæfi tilefni til margra orða í viðbót. Ríkisstj. hefur sagt sína skoðun á atvinnumálum Suðurlands í ýmsum efnum. M. a. samþykkti hún till. 10. apríl s. l. og sendi til hinnar rómuðu Framkvæmdastofnunar, byggðadeildar Framkvæmdastofnunar. Það er kannske ekki illa til fundið að vitna til þeirrar till. hér áður en ég lýk máli mínu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. samþykkir að gerð verði úttekt á atvinnuhorfum og atvinnuþróun í Rangárvallasýslu og lagðar fram tillögur til úrbóta. Verði höfð hliðsjón af aðstæðum og horfum á aðliggjandi svæðum og líklega sveiflum við orkuframkvæmdir á Suðurlandi á komandi árum. Byggðadeild Framkvæmdastofnunar verði falið að vinna að þessu máli í samvinnu við hlutaðeigandi rn. og heimaaðila, m. a. atvinnumálanefnd Rangárvallasýslu og Samband sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi.“

Þessu bréfi var komið á framfæri samdægurs, að ég hygg, við stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins. Þar er nú í forsvari enginn annar en hv. 6. þm. Suðurl., stjórnarformaður þeirrar stofnunar. Ég innti eftir framgangi málsins með sérstöku bréfi og fyrirspurn í byrjun októbermánaðar og vænti þess, að það heyrist frá Framkvæmdastofnun innan tíðar í þessu efni. Ég trúi ekki öðru, ef hv. þm. Suðurlands bera gæfu til þess að leggjast saman á árar, en þeim verði nokkuð ágengt í að nýta ríkulega möguleika og auðlindir í sínum fjórðungi. Að því vil ég stuðla.