15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

133. mál, atvinnutækifæri á Suðurlandi

Flm. (Sigurður Óskarsson):

Herra forseti. Því miður varð ég fyrir vonbrigðum þegar ég hlýddi á ræðu hæstv. iðnrh. áðan. Ég hafði sannarlega búist við öðru þar sem örfáum dögum eftir að þessi till. var lögð fram hér á Alþingi bárust tilkynningar um það í fjölmiðlum, að komin væri nefnd frá Sunndalsverksmiðjunum í Noregi til þess að kanna hér staðsetningu álverksmiðju. Það hvarflaði ekki annað að mér en hæstv. iðnrh. hefði kallað þessa menn til eftir að þáltill. kom fram. En nú kemur í ljós að ég mun hafa haft rangt fyrir mér. Ég harma það.

Ég varð einnig fyrir ákaflega miklum vonbrigðum að hlýða á hæstv. iðnrh. taká svo til orða, að hann talaði um svartsýni og fordóma, að við lettum fremur en hvettum, við hefðum augun ekki opin og við hefðum þröng sjónarmið. Mér kemur ákaflega á óvart að heyra þetta frá hæstv. ráðh., þar sem honum má vera kunnugt um það betur en flestum öðrum, að þessar skýrslur um iðnþróunaráætlun í Rangárvallasýslu og áfangaskýrslan, skýrsla sem ég hef um iðnþróun í Skaftafellssýslu, þær eru samdar og gerðar að frumkvæði heimamanna og í samvinnu við heimamenn.

Ráðh. gat um bréf, sem hann sendi 11. apríl í vor fundinum sem haldinn var um iðnþróun í Rangárvallasýslu. Hann sendi það bréf einnig til byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins. Vitið þið hvaða svar við í atvinnumálanefnd Rangárvallasýslu fengum hjá forstjóra byggðadeildar varðandi það? Hann segir: „Mér er ómögulegt að finna hvernig stofnun mín á að fara að semja skýrslu sem við erum þegar búnir að semja.“ Hefur greinilega verið stefna þeirrar stofnunar og ekkert óeðlilegt að gæta að því, hvort eitthvað yrði ekki framkvæmt samkv. þeirri skýrslu sem afgreidd var 1978.

Ráðh. minntist einnig á það áðan, að við horfðum gjarnan til hins opinbera, en mér skildist á máli hans að við gerðum of lítið sjálf eða freistuðumst til þess að gera of lítið, við værum ekki nógu áhugasamir, Sunnlendingar, um að hafa forgöngu og búa að einkaframtakinu eða byggja á því. Ég vil nú upplýsa hér, ef mönnum er ekki um það kunnugt, þm. og ráðh., að atvinnuuppbygging á Suðurlandi er fyrst og fremst í formi einkaframtaks og þeirra samvinnufélaga sem hafa verið að berjast við bæði iðnrekstur og þjónustu þar við ótrúlega erfið skilyrði.

Ég get nefnt dæmi um hvernig hið opinbera bregst við þegar einkaframtakið ætlar að reyna að bjarga sér á þessu landssvæði. Það var gerð tillaga um það af atvinnumálanefnd eins sveitarfélags í Rangárvallasýslu fyrir rúmu ári að reisa rafstöð við tiltölulega lítið fallvatn fyrir eitt kauptún. Samþykkt var að kanna hvort mætti gera þetta. Það kom greinilega í ljós, að alveg útiloka var að leyfi fengist til þess. Hvernig dettur nokkrum manni í hug, sem fjallar um atvinnumál á Suðurlandi, að dugandi athafnamenn og einstaklingar geti lagt af nokkru viti í atvinnuuppbyggingu við þær aðstæður, að orkan til iðnaðarkyndingar er á tæplega sjöföldu verði miðað við það sem gerist á samkeppnissvæðinu, fyrir utan allt annað sem vantar? Ég mótmæli því þess vegna og vísa fullkomlega heim til föðurhúsanna að það skorti áræði og framtaksvilja hjá einstaklingum og fyrirtækjum á Suðurlandi til þess að bjarga sér. Það, sem okkur vantar, og það, sem við viljum, er að þeim sé skapaður rekstrargrundvöllur og þau fái að standa jafnfætis þeim sem þau eru að keppa við á markaðnum. Það er það sem við viljum. Við erum ekki að biðja um gjafafé. Það er alrangt ef einhver heldur það. Við erum að biðja um að fá að keppa á jafnréttisgrundvelli. Þá verður uppbygging á Suðurlandi ef við fáum það.

Það var frumkvæði heimamanna sem hrinti af stað kartöfluverksmiðjunni í Þykkvabæ. Það var ekkert óeðlilegt eftir allar þær yfirlýsingar og öll þau fögru orð, sem látin hafa verið falla, að Þykkbæingar hefðu engar áhyggjur af því, að þeim yrði ekki séð fyrir rafmagni þessa 15 km. leið sem er frá spennistöðinni niður í Þykkvabæ. Hvernig í ósköpunum átti þeim að detta í hug í orkuhéraðinu að ekki yrði séð fyrir rafmagni í litla verksmiðju til þess að ekki þyrfti að henda dýrmætri vöru? Ég vil taka það fram, að Þykkbæingar hafa hingað til orðið að senda kartöflur sínar — þann oft litla hluta af þeim sem þeir fá að selja — suður til Reykjavíkur og ekki einu sinni fengið að pakka þeim sjálfir. Ef þær hafa ekki flokkast rétt hafa bílarnir verið sendir með þær til baka. Þannig er nú atvinnuuppbyggingin á Suðurlandi. Og þetta snertir auðvitað það sem ég sagði áðan um ýmsar greinar landbúnaðarins og úrvinnsluiðnaðinn, að það er búið að koma því að meginhluta til Reykjavíkur. Það er einmitt í framhaldi af þessum sérfræðikönnunum, þess um skýrslugerðum. Það eru sérfræðingarnir hjá þessum úrvinnslufyrirtækjum sem leggja þessar skýrslur á borðið fyrir stjórnendurnar, hina kjörnu stjórnendur, og sýnt fram á með vísindalegum rökum að hagkvæmnin er ekki úti á landi. Hún er hér í Reykjavík þar sem orkan og aðstaðan er miklu mun betri en úti á landsbyggðinni. Þess vegna flyst þetta í burtu. Sú þróun heldur áfram á meðan aðstaða er ekki sköpuð úti á landi. Það, sem við óskum eftir, er að við fáum að standa jafnfætis þeim landssvæðum sem við erum að keppa við.

Hér hefur verið minnst á steinullarverksmiðju. Það er nákvæmlega það sama sem skeði þar. Þar risu upp sérfræðingar og tíndu til óteljandi rök. Síðan stendur staðhæfing gegn staðhæfingu um hagkvæmni þessara tveggja verksmiðja. Það er með ólíkindum ef hin félagslega hlið fléttast ekki inn í þau mál, þegar hæstv. ríkisstj. fer að taka sína endanlegu ákvörðun í þeim efnum. Ég er tilbúinn að trúa því að sú hlið málsins — hin félagslega hlið — gleymist, og þá á ég að sjálfsögðu við hið fyrirsjáanlega atvinnuleysi á Suðurlandi. Það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. áðan, að það er ekki á næsta sumri og það er kannske lítið á þar næsta, en það er fram undan. Það vita allir, að það er enginn framtíðaratvinnuvegur að ætla sér að byggja virkjanir sem ekki er tekin ákvörðun um nema til tiltölulega fárra ára í senn og enginn veit fyrr en á síðustu stundu hvar borið verður niður næst.

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með ræður þeirra þm. sem hafa stutt þessar hugmyndir. Ég er sannfærður um að þessi till. fær afgreiðslu hér á Alþingi og þessar umr. um hana verða til þess að styrkja heimamenn í þeirri trú, að málum þeirra verði sinnt með eðlilegum hætti. Það er ekki meira sem við förum fram á en að málefnum okkar verði sinnt á eðlilegan hátt. Þá er okkur borgið í atvinnumálum.