15.12.1981
Neðri deild: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á fundi þessarar hv. deildar 9. des. hreyfði hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, því utan dagskrár, hvort ekki væri eðlilegt að þm. fengju í hendur áfangaskýrslu sem svokölluð starfsskilyrðanefnd hefði samið. Ég var þá ekki hér staddur, var erlendis. Þetta mál er þannig vaxið, að í septemberlok skilaði starfsskilyrðanefnd svokallaðri áfangaskýrslu sem trúnaðarmáli til ríkisstj. Hún mun svo um leið hafa látið fulltrúum þriggja atvinnuvega,. þ. e. iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar, í té eintök af skýrslunni, en fulltrúar þessara samtaka höfðu aflað ýmissa upplýsinga fyrir nefndina. Hins vegar var gert ráð fyrir að nefndin héldi áfram störfum, og nú er gert ráð fyrir að hún ljúki störfum um áramót, að því er hún sjálf telur, og skili þá lokaskýrslu.

En eins og hv. 1. þm. Vestf. skýrði hér frá hafa þessi gögn borist víðar og þess vegna alveg sjálfsagt að verða við þeim tilmælum, að þessi áfangaskýrsla sé látin þm. í té. Það þurfti að fjölfalda og útbúa nægilega mörg eintök af skýrslunni þannig að hún hefur ekki verið tilbúin fyrr en nú í dag, en verður nú afhent öllum hv. alþm.