15.12.1981
Neðri deild: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umr. mjög, en ég tel rétt strax við 1. umr. að segja örfá orð, ekki endilega eða fyrst og fremst vegna þess takmarkaða þáttar sem þetta frv. gerir ráð fyrir af heildardæminu sem þarna er um að ræða. Ég er út af fyrir sig sammála því, að það á að gera ráðstafanir til jöfnunar á þessu sviði, en ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það er a. m. k. takmarkaður jöfnuður í því að leggja prósentugjald í þessu tilfelli á þá sem mest greiða fyrir og koma þá til með að greiða líka mest af hinum þættinum í verðjöfnuninni. Það er alveg rétt, sem hann hér benti á, að hin leiðin er miklu eðlilegri, að setja fast verð á notkunina.

Út af þessu frv. og því, sem gerst hefur varðandi f. d. Orkubú Vestfjarða, þá er það löngu ljóst og hefur verið rætt hér oft áður, að Orkubú Vestfjarða hefur orðið fyrir talsverðum áföllum, ekki bara vegna þess sem gerðist á s. l. vetri, heldur líka þess sem gerðist í haust og óséð er fyrir hvort eða með hvaða hætti verður bætt Orkubúinu. Ég tel óréttlæti að ætlast til þess, að orkunotendur á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða þurfi að borga enn hærra orkuverð vegna þessa orkuskorts og þess, hvernig með það mál var farið á síðasta vetri. En það er staðreynd að þeir gera verði haldið á málum eins og hér er gert ráð fyrir. Það hefði því verið eðlilegast að ríkissjóður hefði bæði borgað þann aukakostnað, sem Orkubú Vestfjarða varð fyrir vegna orkuskortsins á s. l. vetri, og einnig þær skemmdir og það tjón, sem Orkubúið varð fyrir á s. l. hausti vegna tjóns á línu og staurum og öðru slíku. Að ég best veit er ekki enn séð fyrir hversu miklum upphæðum það kann að nema.

En þetta er aðeins hluti af þessu dæmi. Hæstv. ráðh. sagði réttilega áðan: Það þarf að gera meira í því að jafna orkuverð í landinu. Og ég vil koma því inn í þessar umr., að það er einmitt meginkrafan hjá því fólki, sem við þetta býr, að orkuverð í landinu verði jafnað þannig að einstaklingar, hvar sem þeir eru búsettir á landinu, búi við sem sambærilegust kjör að þessu leyti. Ég vil benda á það — eins og ég gerði raunar hér s. l. nótt í umr. um fjárlagafrv., hæstv. ráðh. var ekki viðstaddur og fæstir af hæstv. ráðh. — að ég tel víðs fjarri að um jöfnuð sé að ræða. Þar er um svo hróplegt ranglæti að ræða að t. d. íbúðareigandi vestur á fjörðum, sem býr við fjarvarmaveitu sem á þó að vera talin skárri en olíukyndingin, þarf að borga frá 900 og upp í 1600 kr. s. l. mánuð t. d., nóvembermánuð, þ. e. frá 90 og upp í 160 þús. gkr. fyrir einn mánuð vegna kostnaðar við upphitun á sínu íbúðarhúsnæði, sem er mjög venjulegt íbúðarhúsnæði. Þetta er svo hrikalegt dæmi að ég held að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. og stjórnvöld í landinu verði að fara að opna augun fyrir því, að hér verður að breyta til. Ég hef sagt áður og segi það enn, að ef þetta heldur áfram er þetta vísasti vegurinn til þess að hér eigi sér stað — ef ekki er þegar hafin — einhver mesta byggðaröskun sem um getur í landinu.

Ég veit ekki hvort það þarf að flytja alla hæstv. ráðh. út á land og láta þá borga reikningana þar í nokkra mánuði eða nokkur ár, til þess að þeir ranki við sér vegna þessa máls, eða hvort það þarf að flytja alla eða meiri hluta alþm. út af þessu svæði til þess að þeir sjái hversu geigvænlegur munur er á lífskjörum fólks að þessu leyti eftir landshlutum. Og ég bið menn að athuga það alvarlega, að verði ekki veruleg breyting hér á næstunni, þá brestur á fólksflótti frá þessum svæðum sem ekki verður stöðvaður ef hann fer af stað. Það er þjóðfélaginu nauðsyn, það er þjóðhagsleg nauðsyn að hér verði jöfnuður fundinn. Ég heiti því á hæstv. iðnrh. að hann láti hendur standa fram úr ermum í hæstv. ríkisstj. og beiti sér fyrir því, að ráðstafanir verði gerðar til þess að jafna þetta nú þegar. Það er hægt að gera þetta. Það hefur verið lagt hér fram á Alþingi frv. af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og fleiri Alþfl.-þingmönnum sem jafnar þennan mun verulega. Það er hægt, ef vilji er fyrir hendi, að koma þessum jöfnuði á, létta þessum byrðum af því fólki, sem hér um ræðir, og gera því lífið að því leyti léttbærara. Hér er vissulega um kjaramál að ræða. Það er þess vegna sem t. d. Alþýðusamband Vestfjarða hefur tekið það upp í kröfugerð sína varðandi kjarasamninga og kjaramál, að hér verði jöfnuður gerður, og frá því verður ekki hvikað. Því fyrr sem stjórnvöld gera sér ljóst hversu stórt og mikið vandamál hér er á ferðinni, þeim mun betra og þeim mun fyrr verður hægt að leysa það.