21.10.1981
Neðri deild: 5. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

10. mál, héraðsútvarp

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um héraðsútvarp sem ég flyt á þskj. 10 ásamt Árna Gunnarssyni.

Það er alkunna að á síðustu árum hafa orðið stórstígar framfarir í útvarpstækni hvers konar og er hún nú öll einfaldari, ódýrari og viðráðanlegri af fleirum en áður var. Af þessum sökum hafa risið upp kröfur um mun meira og fjölbreyttara útvarp en áður var svo og um staðbundið útvarp og sérhæft á ýmsa lund. Flestar þjóðir hafa á einhvern hátt komið til móts við þessar kröfur og þessa breyttu tækni, en í þeim löndum, þar sem stjórnvöld hafa ekki tekið tillit til þessara aðstæðna og þessara óska, hefur undantekningarlítið risið upp ólöglegt einkaútvarp. Má geta þess t. d., að í Frakklandi munu slíkar ólöglegar útvarpsstöðvar vera milli 50 og 100 og á Ítalíu skipta þær mörgum hundruðum.

Algengast hefur verið að mæta þessum nýju aðstæðum með einhvers konar héraðsútvarpi, þ. e. staðbundnum smástöðvum. Þröngt er um útvarpsstöðvar á langbylgju — sem Ríkisútvarpið notar fyrir aðalstöð sína — og líklega vonlaust að Íslendingar gætu fengið að nota fleiri stöðvar á þeirri bylgju. Hið sama gildir að nokkru leyti, en þó miklu minna um miðbylgju. Hins vegar er mjög rúmt um örbylgju, FM-útvarp, vegna þess að þær stöðvar eru ekki langdrægar og geta því verið mun fleiri.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að rjúfa einokun Ríkisútvarpsins, sem gilt hefur síðan 1930, og leyfa héraðsútvörp og nota þá eingöngu FM- eða örbylgjur.

Hér á landi hafa verið allháværar óskir um fjölbreyttara og frjálsara útvarp. Mönnum hefur þótt einhæft að hafa aðeins eina dagskrá Ríkisútvarpsins, fyrir utan stöð varnarliðsins sem heyrist víða á Faxaflóasvæðinu. Nú mun vera ógjörningur að uppfylla allar helstu óskir manna um útvarp með aðeins einni dagskrá og er það viðurkennt af reynslu í mörgum nágrannalöndum okkar. Ætla má, eftir því sem þar hefur gerst, að til þess þurfi a. m. k. þrjár stöðvar eða þrjár dagskrár: eina aðallega fyrir talað mál, aðra fyrir dægurtónlist og hina þriðju fyrir aðra tónlist, æðri tónlist, og ýmislegt þyngra menningarefni.

Með þessu frv. höfum við flm. gert fyrstu tilraun til að setja niður í lagaform ráðstafanir sem stuðluðu að því að koma til móts við óskir um fjölbreyttara útvarp hér á Íslandi og þar með að binda endi á einokunaraðstöðu Ríkisútvarpsins. Það breytir ekki þeirri staðreynd, að við teljum að hér þurfi að starfa ríkisútvarp sem stofnun. Það eigum við raunar til og það hefur unnið mjög gott og veigamikið starf allt síðan það var sett á fót 1930. Mörg sérstök verkefni falla í skaut ríkisútvarps þrátt fyrir að fleiri stöðvar fái að starfa, og tel ég að ekki sé nauðsynlegt að tíunda ástæður fyrir því. Þá leiðir það af sjálfu sér að langbylgja getur dregið um svo til allt landið, en örbylgjur eða FM-stöðvar ná hver um sig aðeins um tiltölulega litið svæði í kringum stöðina. Enda þótt Ríkisútvarpið sé nú að koma upp keðju af FM-stöðvum, sem eru samtengdar um allt land, breytir það ekki þeirri staðreynd, að ráðlegt er að taka upp fjölbreytni með staðbundnum stöðvum og hagnýta þannig staðbundna krafta sem e. t. v. njóta sín ekki að fullu í einu útvarpi með eina útvarpsdagskrá.

Ég tel rétt á þessu stigi, áður en ég ræði einstakar greinar frv., að geta þess, að við höfum hér notað orðið „útvarp“. Það mun vart leyna sér að við erum fyrst og fremst að hugsa um hljóðvarp, en samkv. útvarpslögunum nær orðið „útvarp“ bæði yfir hljóðvarp og sjónvarp. Hins vegar hefur hljóðvarpsorðið ekki festst í almennri notkun og kann að vera að við endurskoðun, sem í vændum er, verði gerðar á því breytingar. En ef svo færi að þetta frv. yrði gert að lögum eins og það stendur er orðið „útvarp“ notað og þá mundi það þýða að lögin gætu gilt eins um sjónvarpsstöðvar og hljóðvarpsstöðvar að öðru óbreyttu.

Í 1. gr. gerum við ráð fyrir að slíkar útvarpsstöðvar verði sjálfseignarstofnanir. Þar með útilokum við að þær geti orðið einkaeign eða eign fámennra hópa eða félaga. Við teljum rétt að sjálfseignarstofnun verði formið, eða eitthvað sem jafngilti því ef menn hafa betri hugmyndir fyrir þessa tegund af rekstri, og leiðir það af hinu almenna þjónustueðli sem slík fyrirtæki mundu hafa.

Þá er gert ráð fyrir að útvarpa eingöngu á örbylgjum, eins og ég sagði fyrr, og yrði Landssími Íslands að veita leyfi fyrir bylgjulengdum. Er það vegna þess að bylgjulengdir eru takmarkaðar og sé ekki höfð föst stjórn á notkun þeirra getur hæglega komið til árekstra og menn geta án þess að vita hver af öðrum tekið upp útvarp á svo til sömu bylgjum og truflað hverjir aðra. Hjá því verður ekki komist að Landssími Íslands veiti leyfi fyrir bylgjulengdum og beri þannig ábyrgð á að bylgjulengdir séu hagnýttar á sem skynsamlegastan hátt.

Þá er í 1. gr. það ákvæði, að héraðsútvarp skuli háð öllum þeim ákvæðum útvarpslaga frá 1971 sem við geta átt. Þetta orðalag er algengt í lögum og hygg ég að í framkvæmd yrði ekki erfitt að greina hvað úr útvarpslögunum geti átt við. Ég get nefnt sem dæmi að óhlutdrægnisákvæðið, sem hefur staðið óbreytt í útvarpslögum síðan 1930 og er í gildandi lögum, mundi að sjálfsögðu eiga við allt útvarp, hver sem rekur það.

Í 2. gr. er getið um efnisval þeirra héraðsstöðva sem frv. fjallar um. Það er gert ráð fyrir að höfuðefni þeirra verði staðbundnar fréttir og auglýsingar. Leiðir það af því, að þessar útvarpsstofnanir hafa til afnota FM-stöðvar sem ná aðeins yfir tiltekið svæði. Er því hugmyndin að þær verið staðbundnar við einhverja ákveðna landshluta þar sem aðstæður leyfa og til einnar, tveggja eða þriggja samtengdra stöðva gæti heyrst.

Þá kemur fram í 2. gr. að gert er ráð fyrir að þessar stöðvar geti tekið auglýsingar, en erfitt verður að sjálfsögðu að ætla þeim tekjur sem gætu staðið undir gjöldum, og verður þá ekki komist hjá því að þessar stöðvar fengju að taka auglýsingar enda þótt það mundi skapa nokkra samkeppni við Ríkisútvarpið. Yrði þá að athuga í sambandi við fjárhag Ríkisútvarpsins hvernig það dæmi kæmi út.

Það er von mín að staðbundnar stöðvar mundu kalla fram allmikið af staðbundnum auglýsingum sem ekki eru núna fyrir hendi, þannig að ekki yrði um að ræða beinan frádrátt frá þeim auglýsingum sem Ríkisútvarpið hefur, en auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi munu nú gefa Ríkisútvarpinu rúmlega helminginn af tekjum þess.

Þá er gert ráð fyrir því í 2. gr., að héraðsútvarp geti verið helgað sérstöku efnisvali, enda brjóti það ekki í bága við útvarpslög. Hugmyndin að baki þessu ákvæði er að hægt væri að setja upp útvarpsstöðvar sem væru t. d. helgaðar því að leika dægurtónlist að langmestu leyti eða helgaðar því að leika klassíska tónlist að mestu leyti. Slíkar stöðvar eru fjölmargar til í öðrum löndum. Enda þótt útvarpslögin eigi að gilda eftir því sem við getur átt mundu slíkar stöðvar ekki vera skyldugar til að hafa efni blandað, eins og segir í 3. gr. útvarpslaga. Ekki er á færi annarra en stórra og voldugra stofnana, eins og Ríkisútvarpið er, að flytja svo fjölbreytt efni.

Gert er ráð fyrir að þessar héraðsútvarpsstöðvar muni varla útvarpa eigin efni nema fáa klukkutíma, kannske 2–3 klukkutíma á dag, en þá er ætlunin að þær gætu endurvarpað dagskrá Ríkisútvarpsins ef þeim sýnist svo. Á sama hátt er þarna ákvæði um að Ríkisútvarpið hafi rétt til þess að fá efni frá héraðsútvarpsstöðvum ef það óskar eftir að endurvarpa efni sem frá þeim er komið, en Ríkisútvarpið yrði þá að borga fyrir það svo að höfundar og flytjendur fengju eðlilegar greiðslur.

Gert er ráð fyrir að héraðsútvarpstöðvar geti verið fleiri en ein á hverju svæði. Ég er sannfærður um að ef sett yrðu lög eitthvað svipuð því, sem hér er á ferðinni í frumvarpsformi, mundu áður en langur tími liður verða þrjár til fjórar útvarpsstöðvar hér í Reykjavík.

Í 3. gr. kemur fram að við höfum hugsað okkur á þessu stigi og leggjum til í þessu frv. að stjórnir sveitarfélaga verði ákvörðunaraðilar um þær stöðvar sem leyfðar verða innan starfssvæðis þeirra, innan sveitarfélaganna. Með þessu gerum við tilraun til að koma á nokkurri valddreifingu. Með stærri þjóðum eru til einhvers konar ráð eða stjórnir fyrir allt landið sem mundu hafa það verkefni að veita slíkum stöðvum leyfi. En þar sem ekki er um neitt slíkt ráð að ræða, — ég tel varla hægt að fela útvarpsráði, sem er bundið við Ríkisútvarpið, slíkt vald, — höfum við ekki viljað leggja til að sett yrði upp sérstök nefnd eða ráð með þetta verkefni eitt á þessu stigi, heldur höfum ætlað annars vegar héraðsstjórnum, stjórnum sveitarfélaga, að leyfa starfsemi sjálfseignarstofnana, sem vilja reka stöðvar, og þar að auki yrði Landssíminn að veita leyfi fyrir ákveðinni bylgjulengd. Af þessu leiðir að við gerum ráð fyrir að héraðsútvarpsstöðvar verði varla til nema með því að ýmis samtök og ýmsir aðilar í viðkomandi sveitarfélögum sameini krafta sína og það mundi þá gert undir yfirstjórn sveitarstjórnar.

Gert er ráð fyrir að hver sjálfseignarstofnun til héraðsútvarps hafi héraðsútvarpsráð sem skipað verði sjö mönnum og kjósi stjórn viðkomandi sveitarfélags sex þeirra, en einn þeirra sé kominn frá útvarpsráði.

Það kemur fram á nokkrum stöðum í frv. að reiknað er með vissum tengslum á milli þessara smástöðva og Ríkisútvarpsins, — ekki þannig að Ríkisútvarpið hafi neitt yfir þeim að segja eða geti fyrirskipað þeim neitt, heldur öllu frekar veitt þeim ýmiss konar aðstoð. Hugmyndin er að úr þessu verði eitt samfellt útvarpskerfi í landinu sem lúti vissum grundvallarreglum, en ekki að á þessu sviði verði algjört stjórnleysi þar sem hver og einn, sem hefur til þess fjármagn, geti rokið til og sett upp útvarpsstöðvar.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir skuli á þriggja ára fresti endurnýja ákvarðanir sínar um héraðsútvarp. Verið getur að ekki hafi tekist nógu vel til og að sveitarstjórn vilji annaðhvort hætta við tilraun eða gera verulegar breytingar, en jafnframt mundi þetta þýða að þeir, sem eiga sæti í héraðsútvarpsráðum, yrðu kosnir á þriggja ára fresti.

Enn er í 4. gr. það ákvæði, að berist rökstuddar kvartanir um hlutdrægni héraðsútvarps sé menntmrh. falið að veita viðkomandi aðilum áminningu, en berist ítrekaðar kvartanir og rökstuddar um það sex mánuðum síðar, að gróf hlutdrægni haldi áfram, geti ráðh. svipt viðkomandi stofnun útvarpsleyfi. Ég skal viðurkenna að það er ekki með öllu eðlilegt að pólitískur ráðh. hafi þetta vald og eigi að meta hvort hlutdrægnisreglur hafi verið brotnar eða ekki. En hér er sömu sögu að segja: Við höfum ekki viljað setja sérstaka nefnd eða sérstakt ráð sem ætti að fjalla um það að fylgjast með því, hvort um hlutdrægnisbrot héraðsútvarpsstöðva sé að ræða eða ekki, og þess vegna höfum við valið ráðh., þótt æskilegt væri að finna annan aðila, og erum við opnir fyrir tillögum þar að lútandi.

Gert er ráð fyrir að héraðsútvarpsráð ráði framkvæmdastjóra. Ég vil taka fram að það er eðlismunur á héraðsútvarpsráði og á sjálfu útvarpsráði Ríkisútvarpsins, vegna þess að útvarpsráð er að mestu leyti dagskrárnefnd, en héraðsútvarpsráð eiga að vera bæði dagskrárstjórn og almenn stjórn yfir viðkomandi stofnun.

Varðandi tekjur héraðsútvarps eru nefndir til tveir tekjuliðir: Í fyrsta lagi auglýsingatekjur. Í öðru lagi verður til 10% skattur á söluskattsstofn myndbandstækja, myndbanda, segulbandstækja og segulbanda. Ég geri ráð fyrir að ýmsir hafi rennt hýru auga til hugsanlegrar sérstakrar skattlagningar á þessi tæki, og við höfum þarna gripið gæsina á meðan hún gafst, hvort sem mönnum líkar það verr eða betur.

Það má segja að ekki þurfi lagaákvæði um að héraðsútvarp geti auglýst eftir framlögum. Það getur auglýst eftir eins konar áskrifendum, — mönnum sem af fúsum vilja leggja fram einhverjar smáupphæðir og teljast þar með stuðningsmenn eða áskrifendur. Gætu af því orðið nokkrar tekjur ekki síður en hjá blöðum.

Að lokum er gert ráð fyrir að útvarpsstjóri efni árlega til fundar með formönnum og framkvæmdastjórum héraðsútvarpsstofnana og Ríkisútvarpsins þar sem fjallað skal um sameiginleg hagsmunamál og greitt úr hagsmunalegum árekstrum. Gert er ráð fyrir að Ríkisútvarpið veiti héraðsútvarpi hvers konar aðstoð sem það á kost á.

Ég vil að lokum ítreka að við höfum gert fyrstu tilraun til að setja í frumvarpsform ákvæði um héraðsútvarp. Ég vil ekki nota orðin frjálst útvarp því algjörlega frjálst er það ekki gefið, en það mundi þó veita ærið mikið frjálsræði í samanburði við það sem ríki hefur. Þar sem þetta er fyrsta tilraun til að semja frv. um þetta efni erum við að sjálfsögðu opnir fyrir hugmyndum, ef þm. eða aðrir hafa betri hugmyndir um einhver einstök atriði en hér hafa verið settar fram.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv menntmn.