16.12.1981
Efri deild: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um dagskrá vegna frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar sem við þm. Alþfl. fluttum í þessari hv. deild á fyrstu dögum þingsins. Frv. fjallaði annars vegar um flutningskostnað sjúks fólks og ferðakostnað samlagslæknis í þeim tilvikum að samlagssjúklingar væru ekki ferðafærir sakir sjúkdóms. Það kom fram hér í deildinni víðtækur stuðningur við þetta mál frá fulltrúum allra þingflokka. Við höfum lagt á það áherslu, flm. og þingmenn Alþfl., að þetta mál fengi greiða afgreiðslu. Nú vil ég spyrjast fyrir um hvað tefji. Við höfum óskað eftir að þetta mál yrði helst afgreitt fyrir áramót og kæmist áfram, en þess sér ekki stað enn að málið sé komið úr nefnd. Ég vil gjarnan beina þeirri spurningu til formanns heilbr.- og trn., sem hefur með þetta mál að gera, hvort þess sé ekki að vænta að þetta mál fái jafngreiða og góða afgreiðslu og undirtektirnar voru góðar þegar málið var flutt.