21.10.1981
Neðri deild: 5. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

10. mál, héraðsútvarp

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna fram komnu frv. þeirra hv. þm. Benedikt Gröndals og Árna Gunnarssonar. Ég tel að hér sé hreyft máli sem nauðsynlegt sé að tekið verði föstum tókum hér á Alþingi á næstu misserum. Ég vil þó greina frá því, að þetta er ekki í fyrsta skipti að sjálfsögðu sem lagt er til á hv. Alþingi að opna útvarpslögin, annaðhvort með nýjum lagabálki, eins og hér er gert, eða með breytingum á núverandi útvarpslögum.

Það var Guðmundur H. Garðarsson alþm. sem lagði fram á sínum tíma, fyrir nokkrum árum, ítarlegt frv. til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið, þar sem gert var ráð fyrir að einokunarréttur útvarpsins yrðu aflagður og einstaklingar, sveitarfélög og stofnanir fengju tækifæri til þess, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um tæknikunnáttu og dagskrárkunnáttu, að reka útvarpsstöðvar hér á landi: Því miður urðu undirtektir hér á þinginu litlar og eins þegar sami maður, Guðmundur H. Garðarsson, endurflutti frv. nokkru síðar, þá sem varamaður hér á Alþingi. Komst málið þá ekki til nefndar og varð því ekki útrætt. Ég vil enn fremur minna á að Ellert B. Schram flutti till. á sínum tíma um staðbundnar útvarpsstöðvar.

Ég lít á það frv., sem hér er til umr., sem framhald af þeirri umræðu sem hefur orðið á undanförnum árum um frjálsara útvarp sem við Íslendingar megum við una með þeirri útvarpslöggjöf sem hér er farið eftir.

Á undanförnum árum hafa verið háværar kröfur um endurbætur, eins og réttilega kom fram í máli hv. 1. flm. Öllum er kunnugt um að hér er starfandi öflugur félagsskapur sem hefur það á stefnuskrá sinni að kynna hugmyndir og afla upplýsinga um frjálsara útvarp, en Ísland er eitt þeirra fáu ríkja þar sem ríkið hefur einokun og aðeins er um eina útvarpsstöð að ræða.

Þá vil ég minna á að nýlega skipaði hæstv. menntmrh. nefnd til að yfirfara útvarpslöggjöfina. Í þeirri nefnd á hv. 1. flm. sæti ásamt Ellert B. Schram, Markúsi Á. Einarssyni og fleiri ágætum mönnum sem hafa látið sig varða útvarpsmálefni.

Hv. flm. er einn af aðalhöfundum útvarpslöggjafarinnar, og ég býst við að flutningur þessa þingmáls hér á þinginu sé fyrst og fremst gerður í því skyni að kynna þessa hugmynd, fá um þetta umr. á þinginu á þessu stigi og fá þingnefnd virka í þessum störfum þannig að sú nefnd, sem starfar að endurskoðun útvarpslöggjafarinnar, fái til aðstoðar þingmenn sem hafa skoðun á þessu máli. Ég tel þetta vera eðlilega leið hjá hv. flm. og fagna því, að hann gefur okkur tækifæri til að fjalla um hugmyndir sínar um það efni sem þetta sérstaka frv. greinir frá.

Ég ætla ekki að ræða hér um einstakar greinar í þessu frv. Sjálfur hefði ég kosið að hér væri gengið lengra. Það er þó ein grein sem ég tel vera varhugaverða. Það var sú grein sem hv. 1. flm. ræddi sérstaklega um og varðar fjáröflunina. Ég er því meðmæltur að auglýsingatekjur gangi til slíkra útvarpsstöðva, og ég er að öðru jöfnu samþykkur þeim hugmyndum sem koma fram í frv., en vil vara við því að 10% séu lögð á söluskattsstofn myndbandstækja, alla vega á meðan þau mál eru enn óútkljáð. Eins og allir vita hefur nefnd verið skipuð til að ráða fram úr þeim málum, en hér á landi eru tugþúsundir manna sem geta horft á myndbandaefni án þess að það gerist með atbeina sjónvarpsins sjálfs.

Ástæðan fyrir því, að ég kom hér upp sérstaklega, en ég hef áður talað í málum, sem snerta útvarpið, hér á hv. Alþingi er sú, að á s. l. ári, í febr. 1980, skilaði nefnd á vegum norska Hægri flokksins tillögum sem ég veit að hv. flm. kannast við, og sú nefnd starfaði undir forustu Lars Roars Langsets, sem er nú menntmrh. Noregs. Það er ákaflega áhyglisvert að lesa þessa skýrslu með tilliti til þess hver framvinda mála getur orðið í Noregi á næstunni, þegar minnihlutastjórn norska Hægri flokksins hefur náð þar völdum. Í þessari skýrslu, sem er ákaflega vel unnin, kemur fram það sjónarmið Hægri flokksins í Noregi, að þeir vilja opna útvarpsreksturinn meira en þar hefur verið gert, en útvarp var í höndum einkaaðila í upphafi í Noregi, eins og reyndar hér á landi, þ. e. á árunum 1925–1933. Þá hóf ríkið afskipti af útvarpsrekstri og reyndar meira en það: Það náði einokunartökum á útvarpsrekstri. Það var auðvitað á forsendum sem eðlilegar voru á þeim tíma, að aðeins ríkið hefði fjármagn til útvarpsrekstrar og ekki væri nóg af útvarpsbylgjum. En það eru einmitt þau rök sem nú leiða til þess, að opna má útvarpsreksturinn, eins og hv. flm. lýsti greinilega í framsöguræðu. Tæknin er auðvitað önnur nú og nú er nóg af útvarpsbylgjum með tilkomu FM-útvarpsins. Það var þess vegna bein tillaga þeirrar nefndar, sem var fyrir Hægri flokkinn í Noregi, að nú skyldi aflétta einokun norska útvarpsins, NKR, og rekstur rásar nr. 2 í sjónvarpinu skyldi falin samtökum óháðum ríkinu. Þá er lagt til að þeir, sem óski þess að fá að útvarpa með vissum tæknilegum og dagskrárlegum skilyrðum um staðbundnar stóðvar, fái leyfi til þess, og á ýmsan hátt er þar gengið í svipaða átt og gert er í því frv. sem hér liggur fyrir. Í skýrslu norska Hægri flokksins er síðan rakið mjög nákvæmlega hver séu helstu rök með og gegn afnámi einokunar ríkisútvarpsins. Ég bendi á þessa skýrslu sem handhægt gagn fyrir þá nefnd sem fær þetta mál til meðferðar. Loks er í skýrslunni sagt frá hvernig þessum málum er varið hjá fjölda þjóða: í Svíþjóð, Hollandi, Bretlandi, Finnlandi, Danmörku, Frakklandi, Bandaríkjunum, Vestur-Þýskalandi, Sviss Austurríki, Ítalíu, Belgíu og Kanada, eða hjá flestum vestrænum menningarþjóðum. Þar kemur í ljós nánast undantekningarlaust að útvarpsrekstur er mun frjálsari en hér á landi, að vísu misjafnlega frjáls, ef nota má það lýsingarorð í þessu sambandi. En það er alveg ljóst að einokun Ríkisútvarpsins á útsendingum og dagskrárgerð eins og hér tíðkast er gersamlega úrelt fyrirbrigði.

Ég þarf ekki á þessu stigi málsins að hafa þessi orð fleiri. Ég get komið viðkomandi gögnum, sem ég hef sagt hér frá, til þeirrar hv. nefndar sem fær þetta mál til meðferðar. Ég lít svo á að sú nefnd eigi að vinna sitt starf á grundvelli þess frv. sem hér hefur verið lagt fram sérstaklega, jafnvel þótt starfandi sé útvarpsnefnd, þ. e. nefnd til að gera tillögur um endurbætur á útvarpslögunum. En auðvitað hljóta þau atriði, sem eru nefnd í þessu frv., að fara til þeirrar nefndar sem menntmrh. hefur sett á laggirnar.

Enn fremur vil ég mælast til þess, að sá félagsskapur, sem kenndur er við frjálsan útvarpsrekstur, fái tækifæri til að koma á fund nefndarinnar og gera grein fyrir sjóbarmiðum sínum, því að þar hefur verið unnið ágætt starf og hingað hafa verið fengnir erlendir menn sem eru gerkunnugir útvarpsrekstri hjá óháðum útvarpsstöðum erlendis, þ. á m. IBA í Bretlandi.

Herra forseti. Ég fagna því að nú hafa fulltrúar í Alþfl. tekið undir þá kröfu að opna möguleika til útvarpsrekstrar í höndum annarra aðila en ríkisins. Ég er sannfærður um að fjölmargir alþm. taka undir þessi sjónarmið. Ég minni á að Sjálfstfl. lýsti því yfir á síðasta landsfundi, að hann væri því samþykkur að gefa útvarpsrekstur mun frjálsari en nú er. Ég vænti þess, að hér höfum við fengið samfylgdarmenn í þessum efnum. Ég hlakka jafnframt til þess að heyra fulltrúa annarra flokka koma hér upp og lýsa svipuðum viðhorfum. Ekki á ég von á öðru en Framsfl., eins frjálslyndur og hann er og frjálslynda fulltrúa hann hefur hér á þingi, komi hér og hans fulltrúar og lýsi yfir stuðningi við þetta mál og vilji jafnvel ganga enn lengra.